135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Íbúðalánasjóður er ein af grunnstoðum íslensks samfélags og á þeim erfiðu tímum sem nú eru hefur sjóðurinn sannað gildi sitt. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um Íbúðalánasjóð enda var það undir forustu Páls Péturssonar félagsmálaráðherra sem sjóðurinn var stofnaður. En orrustan um Íbúðalánasjóð heldur áfram. Við þekkjum þau sjónarmið, m.a. innan úr Sjálfstæðisflokknum, að Íbúðalánasjóð eigi að minnka og hann eigi einungis að sinna félagslegum lánveitingum en ekki almennum lánveitingum. Það eru engin ný tíðindi fyrir okkur framsóknarmenn að heyra slík sjónarmið innan úr Sjálfstæðisflokknum.

Þessi togstreita á milli stjórnarflokkanna, og ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir ágæta ræðu, veldur því að hámarkslán Íbúðalánasjóðs eru ekki hækkuð, lánshlutfall Íbúðalánasjóðs er ekki hækkað og tenging lána við brunabótamat er ekki afnumið. Togstreitan á milli ríkisstjórnarflokkanna veldur því að Íbúðalánasjóði er haldið í spennitreyju þannig að hann getur með afar takmörkuðum hætti lánað til almennra fasteignaviðskipta í dag. Eins og hinn skeleggi formaður Félags fasteignasala, Ingibjörg Þórðardóttir hefur bent á þá er grafalvarleg staða á fasteignamarkaðnum í dag. Við heyrum af mjög erfiðri stöðu hjá fasteignasölum, hjá verktökum sem geta haft gríðarleg keðjuverkandi áhrif. Og síðast en ekki síst er það unga fólkið og fólk sem vill kaupa sér húsnæði sem á ekki í nein hús að venda. Þetta er hin alvarlega staða og við hljótum að óska eftir því og gera þá kröfu, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin fari að gera eitthvað í húsnæðismálum, hætti einungis að tala, og tala fallega eins og hæstv. ráðherra gerir, því það eru verkin sem verða að tala í þessari erfiðu stöðu sem blasir við okkur í dag.