135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Íbúðarhúsnæði er ein af grunnþörfum fólks. Að mínu viti er það langsamlega gæfuríkast fyrir þjóðina að við höfum öflugan Íbúðalánasjóð með ríkisábyrgð sem veitir grunnlán til íbúðakaupa þar sem allir hafa sama rétt enda er það það sem þjóðin vill.

Skoðanakönnun sem gerð var nýlega sýnir að nærri 90% þjóðarinnar vill hafa Íbúðalánasjóð í því formi sem nú er. Þess vegna var það furðulegt þegar forsætisráðherra kynnti það sem eina af meginaðgerð í efnahagsmálum nú að sparka í Íbúðalánasjóð, að fella burt hinn félagslega þátt Íbúðalánasjóðs, að fella niður ríkisábyrgð á almennum lánum. Með þeirri leið sem er boðuð, með aðskilnaði félagslegra og almennra lána mun fólk vera dregið enn frekar í dilka en orðið er í íslensku samfélagi, annars vegar þeir sem eru metnir vanburða og eiga að vera á ölmusu hjá ríkinu og fara í svokallaðan félagslega hluta og hins vegar þeir sem taldir eru bjargálna og fá lán á markaðsvöxtum bankanna, þeir sem eru metnir hæfir fyrir bankana til að græða á. Það er mikill misskilningur hjá ráðherranum að ímynda sér að hægt sé að reka tvískiptan Íbúðalánasjóð, annan fyrir fátæka og hinn fyrir ríka. Í grunninn eru þessar hugmyndir aðför að þeirri jafnaðarhugsjón sem Íbúðalánasjóður byggir á, opinn öllum óháð þjóðfélagsstöðu, efnahag, búsetu og öðru. Nái þessar tillögur Samfylkingarinnar fram að ganga er í raun verið að grafa verulega undan Íbúðalánasjóði.

Hvar lendir landsbyggðin? Hvar á landsbyggðin að fá lán fyrir eignum sínum þegar einungis er skilið á milli lána? Ekki lána bankarnir til íbúðakaupa á landsbyggðinni, svo mikið er víst og í eyrum fjármagnsaflanna hefur það reyndar verið þannig að landsbyggðarfólk sé þriðja flokks fólk þegar kemur að húsnæðisverði og fjármagni þess. Eða kannski er landsbyggðin bara eitthvert fyrirbrigði sem heyrir fortíðinni til (Forseti hringir.) hjá Samfylkingunni af því að hæstv. iðnaðarráðherra greip fram í. Ég legg áherslu á að það sé talað skýrt í þessu máli og Íbúðalánasjóður varinn fyrir alla.