135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:16]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Hér eru mörg orð sögð en málið er þó jafnóskýrt fyrir þjóðinni eftir það sem af er þessari umræðu eins og það hefur verið. Í dag spyr eitt af dagblöðum Reykjavíkur, með leyfi forseta: „Hvort ræður Jóhanna eða Árni?“ Svo ég vitni beint í niðurlagsorð leiðara Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur í 24 stundum og ekki að ástæðulausu vegna þess að skilaboðin hafa verið mjög misvísandi. Ég hef líkt og fleiri sem hafa talað stórar áhyggjur af því að samfylkingarkokið í þessum efnum verði ansi vítt þegar Sjálfstæðisflokkurinn þarf á því að halda, því það er ekki bara að Samfylkingin hafi þegar orðið uppvís að því að gleypa allt sem að henni hefur verið rétt heldur mun það verða henni mjög til bragðbætis í þessum efnum að hér getur hún gengið erinda sinna og trúarbragða þar sem hún er kaþólskari en blýanturinn sjálfur í Brussel varðandi EFTA-reglur og ESA-dómstól.

Hér er um það að ræða að við eigum Íbúðalánasjóð sem tryggir ákveðið jafnrétti íbúðarkaupenda jafnt í höfuðborg sem og á landsbyggðinni. Komið hefur skýrt fram í málflutningi fasteignasala og allra þeirra sem hafa um þetta mál fjallað af einhverri þekkingu að ef svo óhönduglega tekst til að Íbúðalánasjóði verði skipt upp í tvennt, eins og ég hlaut að skilja ræðu hv. þm. Ólafar Nordal að stæði til að gera, þá mun fasteignaverð á landsbyggðinni stórlækka. Þá stendur mikil vá að því fólki sem þar býr og er ekki á það bætandi ofan á öll svikin kosningaloforð stjórnarflokkanna beggja gagnvart landsbyggðinni að þetta bætist svo þar við.

Tillögur okkar framsóknarmanna í þessum efnum hafa verið skýrar. Við höfum lagt áherslu á að í þeirri ólgu sem nú er á fasteignamarkaði verði hlutverk Íbúðalánasjóðs þvert á móti eflt og honum gert kleift að taka við hluta af þeim lánum sem bankar og sparisjóðir (Forseti hringir.) eru í stórum vandræðum með núna og það eru þær aðgerðir sem þjóðin og fasteignamarkaðurinn kallar eftir.