135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:26]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem farið hafa fram. Ég vil út af þessum síðustu tveim fyrirspurnum frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni segja að nefnd á mínum vegum er starfandi með aðild sveitarfélaganna til þess að skoða fleiri aðgerðir að því er varðar fasteignamarkaðinn og leigumarkaðinn.

Að því er varðar viðræður við bankana um þær vaxtaendurskoðanir sem eru fram undan á næsta ári þá hafa þær viðræður ekki farið fram. En ég deili áhyggjum með hv. þingmanni út af því sem fram undan er í ágústmánuði á næsta ári ef við stöndum frammi fyrir sama vaxtastigi þá og nú er. Það er fullkomin ástæða til að hafa áhyggjur af því. En það er einu sinni svo að allar aðgerðir sem við þurfum að fara í þurfa að vera vel tímasettar þannig að þær ýti ekki undir verðbólguna. Það er það versta sem getur komið fyrir hjá skuldugum heimilum. Og að verið sé að grafa undan Íbúðalánasjóði eins og einhver þingmaður nefndi er alrangt. Við erum einmitt að opna fyrir fleiri sóknarfæri með þeim breytingum sem eru fram undan. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn er ...) Ég nefni t.d. þær aðgerðir sem fram kom áðan í umræðunni varðandi þessi sérvörðu skuldabréf, þá hafa þær verið að styrkja samkeppnisstöðu og munu styrkja samkeppnisstöðu bankanna gagnvart Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður hefur ekki þessi tækifæri að því er varðar sérvörðu skuldabréfin. Við getum því hugsanlega þurft að styrkja samkeppnisstöðu sjóðsins að því er þann þáttinn varðar.

Varðandi það að aðskilja félagslega hlutann og almenna hlutann hefur það lengi verið yfirvofandi vegna þess að þetta var fyrsta málið sem ég sá í ráðuneytinu. Þegar ég kom í ráðuneytið var fullskapað frumvarp frá fyrrverandi ráðherra framsóknarmanna þar sem gert var ráð fyrir þessum aðskilnaði á félagslega hlutanum (Gripið fram í.) og almenna hlutanum — og ég heyri að sérfræðingur framsóknarmanna í húsinu er einmitt að hvetja til þess að slíkt frumvarp verði lögfest strax. Þeir tala tungum tveim, framsóknarmennirnir, vegna þess að sumir segja það sem hér hefur verið tilkynnt um að breytingar á Íbúðalánasjóði muni stöðva viðskiptin á fasteignamarkaði en hinn sérfræðingurinn segir að þetta muni auka viðskiptin. Það er því erfitt að átta sig á ummælum framsóknarmanna í þessum efnum.

Ég fullvissa þingmenn um að Samfylkingin stendur einhuga að baki því að styrkja Íbúðalánasjóð og standa vörð um hann og af því að hér var spurt og vísað í 24 stundir í dag út af því að skiptar skoðanir væru milli mín og hæstv. fjármálaráðherra í þessu efni, þá vil ég upplýsa hv. þm. Bjarna Harðarson um að sú sem hér stendur er ráðherra húsnæðismála.