135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:50]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur vel á vondan að eiga að ræða hér um veiði á hrefnum hafandi lýst því yfir alla tíð að ég væri hlynntur hvalveiðum og hrefnuveiðum, hafandi líka einnig verið einn af þeim sem unnu við hvalafrystingu á Akranesi á sínum tíma. Ég hef alltaf litið þannig á að það væri eðlilegt að við nýttum sjávarauðlindirnar og það væri hluti af okkar matarmenningu að borða hval.

Hvað sem minni afstöðu líður verðum við auðvitað að horfast í augu við að málið er ekki svona einfalt þrátt fyrir mína eigin skoðun. Hvalveiðar eru umdeildar í heiminum. Menn hafa miklar áhyggjur af afleiðingunum. Þetta er kalt mat á hagsmunum og það er augljóst að ákveðin lönd hafa tekið hvalina í fóstur og hafa af því miklar áhyggjur ef við veiðum þá og það eru heilu félögin í heiminum sem fjalla um hvort hvalveiðar eigi að stunda eða ekki.

Það þarf ekkert að ræða það að hægt er að segja að við ræðum annars vegar um lífríkið, hvaða áhrif þetta hefur á fiskinn og sjávarútveginn og hins vegar getum við rætt um ferðamálin, alla utanríkisþjónustuna og umhverfismálin í hinu orðinu. Það er enginn ágreiningur um að forræðið í þessu máli er í höndum sjávarútvegsráðherra og það kemur fram í þeim ályktunum sem hafa verið birtar hér. Það er byggt á þingsályktunartillögu sem samþykkt var 1999. En það er þannig að slíka tillögu á að uppfæra og ræða og það á að skoða núna og endurmeta hverjir séu hagsmunirnir í málinu. Þetta ætlar að verða eins og eitt af þeim málum þar sem menn virðast ekki vita alveg hver sannleikurinn er. Ég held að það sé mikilvægt að allir flokkar og allir þingmenn taki þátt í umræðu um hvort hvalveiðar séu æskilegar eða ekki og reyni þá að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Það sem gerðist hér varðandi yfirlýsingar og afstöðu ríkisstjórnarinnar er — ég tek undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði — það er ekki stórt mál og angraði mig ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég taldi eðlilegt að það lægi fyrir að þetta væri ekki svo einfalt að þetta væri bara (Forseti hringir.) þingsályktunartillaga sem hefði engar afleiðingar í för með sér, þetta væri mál sem þyrfti frekari skoðunar við og ég hvet til að sú skoðun fari fram.