135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:31]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er hv. þingmaður að opinbera vanþekkingu sína á þingræðinu. En þannig er og hefur alltaf verið að lögskýringargögn, eins og nefndarálit, eru skýr. Þeim orðum má treysta.

Virðulegi forseti. Nú segir hv. þingmaður að það sé engin trygging. Þetta lögskýringargagn er svo sannarlega trygging. Það sem er líka trygging er að fagfólkið í skólunum mun fá þessa uppbyggingu í sínar hendur, það fólk sem kann þetta best. Síðan í ofanálag erum við líka með metnaðarfulla háskóla í landinu sem eru ekkert að fara að slá af kröfum sínum hvað stúdentspróf varðar.

Virðulegi forseti. Því hefur líka verið haldið fram að hér sé verið að undirbúa einhverja uppbyggingu á fornámi í háskólanum, en í lögskýringargagninu nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Stúdentsprófið hafi áfram þá stöðu að veita almennt aðgang að háskólanámi og sú breyting sem gerð er í frumvarpinu leiði ekki til þess að háskólar krefji nemendur um að sitja undirbúningsnám fyrir inngöngu í deildir skólanna.“

Námið verður ekki skert (Forseti hringir.) og þetta á ekki að leiða til þess að það verði undirbúningsdeildir við háskólana, þetta kemur fram í lögskýringargagni, hæstv. forseti.