135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:06]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ræðu minni var gefin einkunn og ég held að sama einkunn ætti þá að geta gilt um þetta andsvar, undarlegt var það.

Félag framhaldsskólakennara er að sjálfsögðu félag innan Kennarasambands Íslands. Hv. þingmaður nefndi önnur kennarafélög, taldi þau mikla fjöldahreyfingu til viðbótar við Félag framhaldsskólakennara. Svo er ekki. Þau kennarafélög og sá hópur sem þeim tilheyrir er sami hópurinn, þau eru í því sama félagi. Ef hv. þingmaður hefur skoðað þessar ályktanir sér hann líka að þær eru nærri því allar eins, örlítil tilbrigði en í grunninn nákvæmlega eins, og aðalatriðið er það, eins og hv. þingmaður nefndi, að fresta eigi málinu.

Ég sagði að ég væri hálfmiður mín yfir ýmsu sem hér stæði en í ræðu minni fjallaði ég hins vegar mest um nefndarálit minni hlutans sem byggist ekki á þessu bréfi. Það væri býsna erfitt vegna þess að nefndarálitið, ef ég veit rétt, var komið fram áður en bréfið var skrifað. Það er því undarlegt samhengi hjá hv. þingmanni að telja að það sem ég fjallaði um nefndarálit minni hlutans hafi verið um bréfið.