135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:20]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að biðja virðulegan forseta afsökunar á því að ég átta mig ekkert á því hvað hv. þingmaður er að fara. Að ég hafi verið að gefa í skyn að einhver leki hafi átt sér stað, ég kannast ekkert við þá orðanotkun. Ég þykist muna að ég hafi notað orðið áróður um málflutning minni hlutans og þá átti ég að sjálfsögðu við nefndarálitið og þann málflutning sem hér hefur komið fram. Ég held að ég hafi ekki einu sinni talað um það í neikvæðum tilgangi vegna þess að það er auðvitað hluti af málflutningi að beita slíku. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður hafi ekki lesið betur breytingartillögur okkar og nefndarálit en svo að hann átti sig ekki á því hvar minnst er á þessa hluti og hvaða breytingartillögur við gerðum og hvernig við reyndum t.d. varðandi stúdentsprófið að gera það algerlega skýrt í texta í nefndarálitinu að ásakanir, að vísu algerlega órökstuddar, sem þarna höfðu komið væru reknar heim til föðurhúsanna.