135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:01]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór mjög samviskusamlega yfir það opna bréf sem ég gerði að umræðuefni í ræðu minni hér áðan. Ég verð hins vegar að hryggja hv. þingmann með því að ég kannast ekki við að hafa sagt það eða gefið í skyn að þeir sem undirrituðu það bréf hefðu ekki lesið það. Það er allt annar handleggur þó að ég hafi lýst mig ósammála ýmsum niðurstöðum sem þar eru dregnar upp og ég hafi talið bréfið ósanngjarnt. Ég veit að sjálfsögðu að þetta fólk hefur lesið þetta afskaplega vel en ég held því samt sem áður fram sem ég sagði í ræðu minni varðandi það.

Ég vil svo spyrja hv. þingmann um nokkur atriði. Mér heyrðist m.a. hv. þingmaður allt að því hneykslast á því að við boðuðum í nefndaráliti ákveðið vinnuferli sem yrði myndað með ákveðnum hóp til þess að innleiða ákveðna hluti hér sem eru í frumvarpinu sem við teljum að sé afskaplega eðlilegt að séu þróaðir áfram í samstarfi en eigi ekki heima nákvæmlega skráðir í lagatexta. Ég verð að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að þannig eigi að vinna, þ.e. að ekki eigi að hafa rammalöggjöf m.a. um framhaldsskólastigið heldur eigi löggjöfin raunverulega að markera allt að því hvert skref sem stíga þarf. Ég fjallaði áðan um litla skóla á landsbyggðinni og er algjörlega ósammála hv. þingmanni. Eins og ég sagði þykist ég hafa reynt það á eigin skinni hvað það er sem þar reynir mest á.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður eyddi meginhluta ræðu sinnar í að fara yfir þetta opna bréf og taka undir allar athugasemdirnar. Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það hefði átt að verða við öllum óskum sem fram koma í þessu bréfi frá forustufólki í Félagi framhaldsskólakennara og ganga þá á svig við óskir ýmissa annarra, þ.e. að ekki eigi að líta á þetta mál heildrænt út frá öllum sjónarhornum heldur hefði bara átt að líta á óskir (Forseti hringir.) eins hóps sem kemur að framhaldsskólanum.