135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:04]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, að sjálfsögðu þarf ekki að taka tillit til eins hóps og sjónarmiða hans. Það vitum við mætavel. Hins vegar er ekki um neinn smáhóp að ræða heldur þá sem eiga að vinna eftir frumvarpinu. Það er í engu tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Það er kannski fullmikið sagt að segja að það sé í engu en um þessi þrjú stærstu meginatriði, stúdentsprófið, einingarnar og það að tekið sé tillit til nemenda upp að 18 ára aldri, hefur það í engu verið gert.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson bar það af sér að hann hefði sakað Félag framhaldsskólakennara um að hafa ekki lesið bréfið. Ég skildi hv. þingmann í þá veru og það gerðu fleiri þingmenn, hv. þm. Guðni Ágústsson gerði slíkt hið sama. Hans svör voru öll í þá veru.

Varðandi það að ég hafi verið að hneykslast á því að vinna eigi vinnuna eftir að frumvarpið hefur tekið gildi þá stend ég við það. Ég held því fast fram að fyrst og fremst eigi að vinna vinnuna áður en (Forseti hringir.) frumvarpið verður samþykkt, ekki vera með einhvern kattarþvott eftir á.