135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:08]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var alveg ótrúleg ræða að mörgu leyti sem hv. þingmaður hélt hér áðan. Það er alveg ótrúlega sárt og særandi að hlusta á þennan villta málflutning og þennan villuráfandi málflutning um það sem hér er á ferðinni.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, virðulegi forseti, að hér á árum áður voru uppi hugmyndir um styttingu á námstíma til stúdentsprófs sem byggðust á skerðingum. Við mótmæltum því harðlega, Samfylkingin, bæði hér á þinginu og annars staðar. Félag framhaldsskóla gerði hið sama. Skemmst er frá því að segja að frá því hefur verið horfið. Þess vegna erum við með það frumvarp sem við höfum hér í höndunum þar sem segir skýrt í greinargerð og sömuleiðis í nefndaráliti sem er túlkun og skýring okkar löggjafans, meiri hlutans, á því hvað hér er á ferðinni, að ekki sé verið að skerða stúdentsprófið.

Virðulegi forseti. Ég er líka dálítið hugsi yfir því sem fram kemur á bls. 4 í nefndaráliti minni hlutans. Þar er sagt að það sé mat minni hluta menntamálanefndar að stytting náms til stúdentsprófs sé innbyggð í fyrirkomulagið sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Það byggist á þeirri staðreynd að frumvarpið tilgreini hvorki einingafjölda né námstíma til stúdentsprófs.

Virðulegi forseti. Ég vil þó spyrja hv. þingmann: Hvar í núgildandi lögum er að finna þessar tiltekningar á einingafjölda og námstíma? Í 21. gr. núgildandi laga er kveðið á um að í aðalnámskrá skuli fjalla um meðallengd námstíma á hverri braut og lágmarksfjölda kennslustunda. Þetta er ekki í núgildandi lögum. Þetta kemur í námskrár.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að menn fari að (Forseti hringir.) hlýða á hinn raunverulega málflutning og hinar raunverulegu ástæður fyrir þessum breytingum og þær fela ekki í sér skerðingar.