135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:13]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hætta að reyna að hafa áhrif á þann hv. þingmann sem ég er hér í andsvari við. Ég ætla að vona að framhaldsskólakennarar, framhaldsskólasamfélagið, hlusti á þann þingmann sem hér stendur, hlusti á hv. þm. Einar Má Sigurðarson, sem var hér áðan, og hlusti á hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, formann menntamálanefndar, sem líka var hér áðan. Við höfum öll sagt að ekki eigi að skerða nám til stúdentsprófs. Það á ekki að skerða það. Ég vona, virðulegi forseti, að þeir sem þurfa að heyra þetta geri það af því ég veit að hv. þingmaður er í pólitískum skollaleik.

Annað, virðulegi forseti, sem ég verð að koma hér að á mínum stutta tíma það er að hv. þingmaður tíndi til og spurði hvort hér og þar ætti að finna leiðir til að spara hjá meiri hlutanum. Þá vil ég benda á að það hefur komið fram og kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu að gert er ráð fyrir því að þessar breytingar hafi í för með sér 1,7 milljarða árlega útgjaldaaukningu. Það kemur (Forseti hringir.) skýrt fram í þessu áliti. Það er alveg skýrt að þessar breytingar munu hafa í för með sér gríðarlega (Forseti hringir.) sterka uppbyggingu framhaldsskólastigsins. Þær munu hafa í för með sér (Forseti hringir.) gríðarlega sterkt stúdentspróf og miklu (Forseti hringir.) betra skólastig en við höfum í dag með miklu meira fjármagn á milli handanna.