135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:21]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi komið mjög skilmerkilega fram í ræðu minni áðan, sérstaklega hvað varðar gjaldtökuna, að framhaldsskólinn er ekki algerlega gjaldfrjáls. Það hefði verið hægt að stefna að því í þessu frumvarpi ef það er vilji Samfylkingarinnar. Það er eitt af því sem mér finnst ekki hafa komið neitt sérstaklega skýrt fram í dag. Það hefði líka verið hægt að hafa sömu þjónustu fyrir ólögráða framhaldsskólanemendur, sambærilegan stuðning, ráðgjöf og þjónustu eins og nemendur á öðrum skólastigum hafa. En ég verð að segja að ég fagna mjög þeirri yfirlýsingu sem kom fram áðan að ríkisstjórnin ætli að stórauka framlög til framhaldsskólanna og ég vona þá bara að við það verði staðið. (Gripið fram í.) Þetta eru stórtíðindi.