135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson, ætli megi ekki kalla hann talsmann Samfylkingarinnar í menntamálum, flutti afar athyglisverða ræðu, undarlega ræðu að mínu mati. Hv. þingmaður reyndi að leggja þetta mál þannig upp að það væri ekkert nema um misskilning eða vísvitandi tilraunir til að dikta upp ágreining að ræða af hálfu þeirra sem gagnrýna þetta frumvarp. Minni hlutinn fékk þarna harða dóma og miklar ákúrur frá hv. þingmanni sem og Félag framhaldsskólakennara. Mér segir svo hugur um að ræða hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar eigi eftir að verða lesin talsvert af félagsmönnum í því félagi. (EMS: Það vona ég.) Já, það vona ég sannarlega því að satt best að segja var það með endemum hvernig hv. þingmaður setti sig á háan hest og talaði nánast niður til allra sem ekki væru algerlega sammála honum sjálfum eða meiri hlutanum. Það væru bókstaflega engin efni til að viðhafa ágreining eða rökræða um þetta mál á þeim forsendum að það væri ekki hafið yfir alla gagnrýni.

Það er dálítið undarlegt þegar t.d. umsagnir um málið eru skoðaðar. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að vera með ómálefnalegar getgátur um að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hafi ekki lesið umsagnir með málinu, verandi í menntamálanefnd. (Gripið fram í.) Ég hef reynt að gera það eins og ég hef haft tíma til meðfram öðrum verkum í dag til að undirbúa mig undir þessa umræðu og það tók ekki langan lestur til að sjá að það eru fjölmargir og mismunandi aðilar sem gera alls konar athugasemdir við þetta mál. Þar af gera margir þeirra mjög alvarlegar athugasemdir við sama þáttinn sem er staða stúdentsprófsins, innihald þess og gæði í sambandi við þetta frumvarp. Hvernig í ósköpunum dettur hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni það í hug að reyna að bera það þar með upp á stjórnarandstöðuna að hún sé bara að dikta upp úr sjálfri sér einhvern ágreining og það sé allt saman misskilningur og hún hafi engan vilja sýnt til að ná saman um þetta mál?

Er það misskilningur og óvilji í hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Höskuldi Þórhallssyni að Háskóli Íslands skuli gera alvarlegar athugasemdir við innihald frumvarpsins? Fóru þau upp í háskóla, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Höskuldur Þórhallsson, og sömdu umsögnina fyrir Háskóla Íslands? Fóru þau upp í Kennaraháskóla og sömdu umsögn fyrir Kennaraháskólann? Sömdu þau umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga? Sömdu þau umsögn Stúdentaráðs, Félags framhaldsskólanema og þannig mætti áfram telja? Ég ætla að fara aðeins inn í þessar umsagnir á eftir til að skoða þær, eftir því sem tíminn leyfir. En það er fráleitur og aumingjalegur málflutningur hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að vera ekki maður til að rökræða þá þann efnislega ágreining sem hér er undir en reyna að gera lítið úr því að minni hlutann skilar ítarlegu og vel rökstuddu nefndaráliti, styður það m.a. með vísan í umsagnir fjölmargra aðila. Einhvern tíma hefði það staðið pínulítið í minni spámönnum en Einari Má Sigurðarsyni að skauta algerlega yfir það að þetta á að afgreiðast í harðri andstöðu við heildarsamtök framhaldsskólakennara. Nei, það er allt bara einhver misskilningur og vitleysa eða óvilji úr þeim hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Höskuldi Þórhallssyni.

Hér er bréf frá Félagi framhaldsskólakennara sem þeir hafa sent þingmönnum og fylgt eftir umsögn sinni í þessu máli eða umsögn Kennarasambandsins þar sem þeir fara ósköp einfaldlega fram á að afgreiðslu þessa máls verði frestað. Þeir tilgreina þar fjölmörg atriði sem þeir telja að fara þurfi betur yfir og annað sem sé beinlínis ekki nógu vel umbúið í málinu. Það þýðir ekkert fyrir stjórnarliða að reyna að koma sér undan umræðunni um þessa grundvallarspurningu: Er verið að opna leiðir til þess að gengisfella stúdentsprófið, útþynna það?

Það þýðir heldur ekki fyrir hv. þingmenn að kveinka sér undan því þó að menn vilji hafa vaðið fyrir neðan sig í ljósi þess sem á undan er gengið sem eru náttúrlega grímulaus áform um þetta og ekki mjög gömul. Hafa menn einhverja staðfestingu á því að þar hafi orðið stefnubreyting þó að Sjálfstæðisflokkurinn og öfl honum tengd hafi í orði kveðnu hörfað eitthvað undan í bili með þetta mál? Nei, ég hef ekki séð hana. Ég hef ekki séð að það hafi allt í einu orðið umpólun í Sjálfstæðisflokknum og þeim öflum á bak við hann sem þrýstu á um þetta.

Málið var svo langt komið á sínum tíma að menn voru farnir að reyna að útfæra hvernig væri hægt að þjappa framhaldsnáminu saman og færa sumt af því upp á háskólastigið og annað niður á grunnskólastigið. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við og ganga út frá. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt og vel ígrundað að mínu mati að menn vilji ganga betur frá þessu þannig að vilji löggjafans sé gerður skýr í þessum efnum og að ekki séu búnar út aðferðir til að fara þá einhverja fjallabaksleið að þessu markmiði í kyrrþey til að komast hjá pólitískum óþægindum eða taka slaginn hér heiðarlega á Alþingi.

Þess vegna eru menn ósköp einfaldlega að biðja um þann einfalda hlut sem ætti ekki að standa svona í mönnum ef ekkert annað stendur til, að tilgreina lágmarksfjölda námseininga til stúdentsprófs þannig að það verði ekki gengisfellt. Það heldur öllum möguleikum fyrir hraðari námsframvindu opnum en þá verða menn að uppfylla þann einingafjölda, þá verða menn að skila því. Þannig er það í raun og veru í dag og er alveg í prýðilegu lagi. Ég veit ekki hvert vandamálið er við að festa það kirfilega í sessi að þannig sé það að hin almenna regla séu fjögur ár, þ.e. að ekki sé gerð krafa á hinn almenna nemanda um hraðari námsframvindu en það í skólunum almennt. Svo standi hitt til boða að haga námi sínu með öðrum hætti og flýta för ef mönnum liggur svo mikið á. Reyndar held ég að það sé ákaflega misráðið almennt að hvetja til þess af því að þetta eru ein bestu og dásamlegustu ár ævinnar þegar menn eru í framhaldsskóla og taka þar út þroska sinn og félagsvitund. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að það sé vandfundin leið til að verja betur fjórum árum en akkúrat í það.

Ef við skoðum aðeins rökstuðning sem þar er fram færður fyrir þessu atriði sérstaklega þá er það eins og ég hef þegar nefnt að Félag framhaldsskólakennara varar við þessu og vill að menn vinni gegn allri hættu á útþynningu stúdentsprófsins með því að tilgreina lágmarksfjölda námseininga til stúdentsprófs. En hvað segja aðrir um þetta mál? Háskóli Íslands segir í umsögn sinni að gildi stúdentsprófs sem undirbúnings fyrir háskólanám verði að vera óskorað. En að sjálfsögðu þarf að gefa framhaldsskólanum eftir sem áður svigrúm til þess að byggja upp sveigjanlegt námsframboð og allt það — það er engin mótsögn í því — en viðmiðunin sé skýr og tryggt að námið verði ekki gengisfellt. Þegar fjallað er svo nákvæmar um það í umsögninni þá er það rakið að verði frumvarpið að lögum án breytinga að þessu leyti, verði stúdentsprófið vissulega fjölbreyttara en áður en einungis 45 einingar, ein og hálf önn, í kjarnagreinum. Núverandi stúdentspróf er 140 námseiningar samkvæmt gildandi námseiningakerfi og miðað er við að nemendur ljúki þeim á fjórum árum. Í fyrirliggjandi tillögum er hvorki ljóst hve margar nýjar námseiningar, þ.e. nýjar námseiningar sem stúdentsprófið felur í sér, né heldur hve mörg námsár eru til stúdentsprófs. Er þetta ekki rétt hjá háskólanum? Er þetta ekki rétt, virðulegi forseti? Ég veit ekki annað. Þetta er ekki eitthvað sem þau hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Höskuldur Þórhallsson fundu upp til að vera til leiðinda. Nei, þetta er Háskóli Íslands.

Hvað segir kappinn, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, um Háskóla Íslands? Er hann jafnómarktækur í þessu máli eins og Félag framhaldsskólakennara og stjórnarandstaðan? Er hægt að berja hann jafnmyndarlega niður eins og hv. þingmaður gerði af lítillæti sínu í ræðunni fyrr í dag?

Kennaraháskólinn lýsir sömu sjónarmiðum. Það fer að muna pínulítið um það þegar tveir fjölmennustu háskólarnir, sem nú eru reyndar að renna saman, eru þarna algerlega samhljóma í áherslum sínum. Það kann að vera jafnvel að fleiri háskólar hafi gert hið sama í umsögnum. Ég hef því miður ekki haft tíma til að skoða umsagnir þeirra en Kennaraháskólinn segir um þetta:

Starfshópurinn telur — þ.e. starfshópurinn sem vann umsögnina fyrir Kennaraháskólann — að menntamálaráðuneytinu beri að gera skýrari grein fyrir því hvernig gæði stúdentsprófs verða tryggð. Enn fremur má telja eðlilegt að viðmið sé í lögum um lágmarksfjölda eininga til stúdentsprófs. Í frumvarpinu er einungis kveðið á um 45 námseiningar að lágmarki í 18. gr. eða innan við eins árs nám. Til samanburðar er tilgreint að fjöldi námseininga til framhaldsskólaprófs skuli vera 90–120 einingar eða eitt og hálft til tveggja ára nám. Varla er ætlunin að stúdentspróf verði minna að umfangi en framhaldsskólapróf.

Svo segir í umsögn Kennaraháskólans. Svolítið skemmtilega orðað það.

Þarna eru sem sagt greinilega nákvæmlega sömu áhyggjur og nákvæmlega sömu varnaðarorð á ferð og þau má finna úr fleiri umsögnum hvað varðar nákvæmlega þennan hátt þannig að málsvörn stjórnarliða í þessu er ekki eins burðug og þegar þeir vilja reyna að láta líta hér út að þetta sé bara einhver misskilningur og þvæla úr stjórnarandstöðunni. Það hafa þá ansi margir, óskyldir og mismunandi aðilar misskilið þetta á sama hátt, að þarna séu hlutir til að varast. Það þýðir ekkert fyrir stjórnarliða að kveinka sér undan því þó að þetta sé rætt. Þaðan af síður ætti það að koma þeim á óvart þó að þetta sé þáttur sem þeir vilja vera á varðbergi gagnvart.

Ég ætla að nefna einn aðila enn í þessu sambandi sem menn ættu kannski að gefa svolítinn gaum að hvað segir um þetta mál. Það er fjármálaráðuneytið. Hvað segir fjármálaráðuneytið hér í umsögn um frumvarp til laga um framhaldsskóla frá fjárlagaskrifstofunni? Eins og venjulega reynir það að kostnaðarmeta frumvarpið og aldrei þessu vant reynir fjárlagaskrifstofan ekki einu sinni að draga fjöður yfir það. Auðvitað hlýtur að fylgja þessu kostnaður, t.d. lengingu skólaársins um fimm daga, augljóslega. Það er farið yfir það rækilega í hverju sá kostnaðarauki verði fólginn. Það er athyglisvert að sjá líka í hverju enginn kostnaðarauki á að felast eins og t.d. námsgögnum, þau eru ekki til. Það er ekki ein króna sem fjármálaráðuneytið reiknar með að þau kosti, svo mikið fyrir loforð Samfylkingarinnar um ókeypis námsgögn á framhaldsskólastigi. En fjármálaráðuneytið segir það hafa verið rætt að reikna megi með að árlegur aukinn kostnaður vegna frumvarpsins verði á bilinu 1.300–1.780 millj. kr. og þar af 1.200–1.700 varanleg aukning, 50 millj. eiga að falla til á árinu.

Á móti er ekki búið að reikna með sparnaði við að nemendur kynnu að nýta sér möguleika við að ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma miðað við það sem algengt er í dag. Þetta er mjög athyglisverð setning. Hún er að vísu sett í þennan fallega búning að þetta yrði þá bara ákvörðun nemendanna sjálfra. En af hverju reiknar fjármálaráðuneytið með því að helsti sparnaður á móti auknum útgjöldum ríkisins sé líklegur til að verða vegna þess að nemendur verði í styttri tíma í framhaldsskólunum? Það er afar athyglisvert. Er þetta ekki dulbúið orðalag yfir það að fjármálaráðuneytið gerir sér vonir um að framhaldsskólastiginu verði þjappað saman í gegnum svigrúmið sem þessi galopni frágangur málsins býr til. Það er ákaflega nærtækt að álykta að fjármálaráðuneytið telji sig hafa góðar vonir um að þar verði sparnaður á móti. Það skyldi nú ekki vera.

Annað atriði sem rétt er að nefna líka eru þessar undarlegu námsframvindueiningar sem eiga að koma inn og hlýtur að mega segja eins og skrattinn úr sauðarleggnum því að þær virðast koma flestum á óvart. Þær eru afar óútfærðar þegar á að fara henda þeim einingakerfum úr evrópskum háskólum inn í íslenska framhaldsskóla. Hvaða erindi eiga þær þangað t.d. á tveimur neðri skólastigunum gagnvart ólögráða nemendum. Þetta er voðalega skrýtið. Ég hélt að menn væru að reyna að bakka í burtu frá einhverjum svona kúnstum og æfingum, að draga heldur úr áherslunni á samræmd próf og slíkar mælingar. Menn telja sér það til tekna í grunnskólafrumvarpinu að það eigi að færa þau frá vorönninni inn á mitt síðasta skólaár, hversu mikil hjálp sem verður að því. En hér á allt í einu að koma með einhverjar ECTS-einingar — það er ekki einu sinni búið að íslenska þær — sækja þær í erlenda háskóla og setja þær inn í íslenska framhaldsskólann. Til hvers, leyfi ég mér að spyrja? Þetta hefur aldrei fengist rætt á þeim vettvangi sem var eitthvað reynt framan af að viðhafa samráð á um undirbúning málsins og hlýtur að teljast með ólíkindum að gera það svona ef innleiða á eitthvað slíkt í framhaldsskólana hjá okkur. Hvers vegna er þetta mál ekki betur undirbúið, geymt og skoðað þannig að það birtist okkur sem fullmótaðar tillögur sem unnið hefur verið að og búið að minnsta kosti að íslenska heitið á?

Ég vil taka undir það sem fleiri ræðumenn hafa nefnt um stöðu ólögráða nemenda innan framhaldsskólans, þeirra sem ekki hafa náð 18 ára aldri, um leið og ég fagna vissulega því sem er í frumvarpinu um fræðsluskyldu gagnvart þessum hópi. Það er í anda stefnu sem við vinstri græn mótuðum fyrir mörgum árum síðan og fluttum inn á Alþingi um að það bæri að stefna að því að allir ættu rétt á samfelldu skólanámi til 18 ára aldurs í sinni heimabyggð eins og þess væri mögulega kostur. Auðvitað á að klára það mál að ólögráða nemandi þurfi hvergi að fara að heiman frá sér til langdvalar til að sækja sitt skólanám. Það er hægur leikur að gera þetta. Þetta er tæknilega mjög auðvelt með því að nýta í vissum tilvikum kosti fjarnáms og í öðrum tilvikum með því að koma framhaldsskólasetrum eða útibúum frá framhaldsskólum á fót undir hatti einhverra slíkra eins og t.d. er verið að gera núna á sunnanverðum Vestfjörðum og í undirbúningi víðar á landinu. Þetta dæmi á að klára. Að því leyti til hef ég viljað ganga lengra en frumvarpið gerir og slá þessu föstu og leggja þá skyldu á ríkið sem fer með framhaldsskólann að sjá um þennan þátt málsins. En það þarf þá auðvitað líka, í samræmi við þessa fræðsluskyldu sem leggst á hið opinbera, að skilgreina stöðu og réttindi þessara nemenda, m.a. þennan þátt, stöðu þeirra gagnvart sínu heimili og rétti þeirra til að eiga kost á námi frá því.

Þá mætti líka nefna smærri skóla í dreifðum byggðum sem Félag framhaldsskólakennara gerir í bréfi sínu og fleiri gera í umsögnum sínum, t.d. Samband ísl. sveitarfélaga, og þyrfti kannski að fjalla betur um. Nú er það auðvitað gamalkunnug umræða að mönnum finnst viðkvæmt að flokka starfsemi og vilja helst að einsleit lög gildi um alla. Enginn vill lenda í því að vera einhvers konar önnur deild hvað það varðar. Þessi umræða er vel þekkt um sveitarfélögin og oft notað sem rök, næstum því gegn því að mínu mati, að horfast nægjanlega vel í augu við sérstöðu minni sveitarfélaganna. Það sé of viðkvæmt vegna þess að þá sé farið að líta á þau sem einhvers konar annars flokks sveitarfélög. En auðvitað er það algerlega ástæðulaust að nálgast hlutina þannig. Það er miklu heiðarlegra að horfast í augu við það að staða fámennra, afskekktra sveitarfélaga sem og staða fámennra framhaldsskóla í dreifðum byggðum, þeirra sem þar eru þó, er auðvitað allt önnur. Það er himinn og haf á milli þeirra og skólanna í þéttbýlinu. Það er engin skömm að því að virða og meta í verki og styðja myndarlega við framhaldsskóla eins og t.d. Framhaldsskólann á Laugum í Þingeyjarsýslu sem er stórgóður hluti af okkar fjölbreytta framhaldsskólakerfi og geysilega mikilvægur fyrir nemendur á því svæði. En hann getur líka verið góð úrlausn fyrir ýmsa aðra sem búa við þannig aðstæður á heimaslóðum sínum að þeim henti betur að fara í öruggt umhverfi lítils framhaldsskóla með heimavist og heimilislegt og gott utanumhald um skólakerfið. Af því að minn gamli, góði skóli, Laugaskóli, hefur verið nefndur á nafn fyrr í umræðunni þá leyfi ég mér að taka hann sem dæmi um slíkan.

Ég tek auðvitað undir það sem hér hefur verið rætt og á að heita að svífi að nokkru leyti yfir vötnum, a.m.k. í orði kveðnu í þessu frumvarpi, að það sé ákaflega mikilvægt að skólarnir hafi frelsi, stöðu og sjálfstæði til að móta áherslur sínar. Að draga eigi úr miðstýringu í námsframboði og námskrárgerð en vandinn er sá að aðilar sem þekkja býsna vel til telja að þetta sé hins vegar ekki markvisst í frumvarpinu. Félag framhaldsskóla telur að þarna séu mótsagnir á ferð því að ráðherra á eftir sem áður að staðfesta námsbrautarlýsingar skólanna og setja þeim viðmiðunarnámskrá.

Ég er mikill stuðningsmaður þess að skólar fái að varðveita sjálfstæði sitt og blómstra á sjálfstæðum forsendum. Ég er þannig þenkjandi að mér finnst að skólar eigi að fá að halda í sínar hefðir, mér liggur við að segja sérvisku. Menn geta kallað það íhaldssemi, mér er alveg nákvæmlega sama. Mér finnst t.d. alveg ákaflega skemmtilegt að Menntaskólinn á Akureyri haldi í þá gömlu hefð að útskrifa stúdenta sína 17. júní. Mér finnst það glæsilegt og ég gef frat í eitthvert kerfi sem lokar slíkum möguleikum á gamalgrónum menntastofnunum að fá að hafa sínar hefðir innan vissra marka og gera hlutina á sinn hátt. Þótt þær kunni að hafa skapast af gerólíkum þjóðfélagsaðstæðum fyrir öld síðan þá breytir það engu um að þær geta verið góðar og gildar og skemmtilegar. Þær eru hluti af menningu þess skóla fyrir utan hvað það er yndislegt að fá að verða stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og upplifa hinar ljósu vornætur í Eyjafirðinum í byrjun júní sem væri hægt að segja ýmsar góðar sögur af (Gripið fram í.) en kannski ekki rétt að fara út í hér í einstökum smáatriðum.

Um leið og menn þurfa að tryggja gæðin, hafa viðmiðanir þannig að engin hætta sé á að námið gengisfalli eða að mönnum verði þröngvað út í sparnaðar- og niðurskurðarráðstafanir í efnahagsþrengingum, þá þurfa menn að fá að hafa sjálfstæði, svigrúm og frelsi til að þróa sig á sínum forsendum og viðhalda hefðum og góðum siðum.

Mér finnst dálítið merkilegt að menn skuli ekki nefna hér í umræðunni — ég hef ekki heyrt það enn þá í dag — fjárhagsstöðu framhaldsskóla. Ég hef ekki heldur heyrt nefnda þá spurningu hvernig framhaldsskóla gengur að standast freistingarnar ef þær eru í boði. Það er opnað á þær í þessu kerfi, að draga nú aðeins úr fjölda kennslustunda og einingafjölda á bak við stúdentsprófið ef skólinn býr við hallarekstur ár eftir ár og dregur langan skuldahala. En hefur það ekki verið veruleikinn hjá fjölmörgum framhaldsskólum í landinu undanfarin ár? Ég veit ekki betur. Ég kom í minn gamla skóla þegar þáverandi rektor var þar um að bil að ljúka störfum og það lá við að ryki upp af honum af reiði yfir því að hann væri að yfirgefa stofnun sína eftir langan og farsælan feril. Hann stæði frammi fyrir því að skólinn dragnaðist með skuldahala vegna óumflýjanlegs hallarekstrar frá undangengnum árum. Það var enginn skilningur þá af hálfu þáverandi ríkisstjórnar, fjárveitingavalds, að rétta hans hlut, áralangur barningur. Stjórnendur skólans og þingmenn kjördæmisins reyndu að fá á þessu einhverja leiðréttingu en töluðu fyrir daufum eyrum.

Auðvitað hefur manni stundum fundist að þar væri sveltistefnan komin, að það ætti að hafa menn hlýðna með því að láta þá búa við mátulegar efnahagsþrengingar þannig að þeir væru ekki með mikið múður og yrðu að lúta og þakka þegar þeir fengju einhverjar aukafjárveitingar úr pottum menntamálaráðuneytisins. Þetta var á dögum pottanna þegar veitt var um 10–15% of litlu fé til framhaldsskólanna ár eftir ár. Svo var búinn til pottur sem menn urðu að sækja í til þess að skapa það samskiptaform að stjórnendur skólanna yrðu að koma auðmjúkir fyrir ráðherrann. Kannski fengu formaður og varaformaður fjárlaganefndar úr meiri hlutanum stundum að vera með við að biðja um viðbót úr pottinum. Fjárveitingavaldið var komið út úr Alþingi og yfir í ráðuneytið og búin til óþolandi aðstaða í samskiptum þessara aðila. Það er vandasamt að ganga frá þeim hlutum sem lúta að sjálfstæði og svigrúmi skólanna annars vegar og hins vegar að þeir séu ekki hraktir í þrengingum og fjárhagslegri spennitreyju út í að spara og skera niður því að það er nú vonandi ekki ætlunin.

Svo vil ég nefna aðeins gjaldfrelsi framhaldsskólans sem ég hefði svo gjarnan viljað sjá komast í höfn með skýrum ákvæðum í lögum en svo er nú ekki. Ég sé að vísu að einhverjir virðist skilja það svo í umsögnum að verið sé að boða til betri tíðar með þessu frumvarpi í þeim efnum. En eins og ég hef skoðað það — ég bið þá um að ég verði leiðréttur — sé ég þess hvergi stað að neinar breytingar séu í vændum í þeim efnum, engar. Ákvæði um innritunargjöld eru á sínum stað og það eru að meira að segja hér ákvæði sem Samband ísl. sveitarfélaga gerir alvarlegar athugasemdir við í 45. gr., að heimilt er að rukka aukalega og sérstaklega gjöld á þá nemendur sem eru í fjarnámi. Er sanngjarnt að þeir séu látnir borga hluta af kennslukostnaðinum? Hver eru viðbrögðin og hvaða svör hefur meiri hluti menntamálanefndar við umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga á þessari ábendingu? Ég hefði gaman af að heyra hv. þm. Einar Má Sigurðarson bregðast við því. Er þetta misskilningur hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga? Ef svo er ekki hverju svarar þá meiri hlutinn í þessum efnum?

Þarna kemur að vísu inn umsögn um 51. gr., um námsgögn. Í umsögninni segir að hún sé nýmæli. Gott og vel. Með ákaflega miklum velvilja gætu menn sagt að eitthvað betra væri í vændum. Þessi grein er nýmæli og er í samræmi við lög um námsgögn og verklagsreglur en fjárhæðir á eftir að útfæra. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007. Í fjárlögum segir sem sagt að ár hvert skuli tilgreind sú fjárhæð sem veitt hefur verið til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings.

Ég fór spenntur í umsögn fjárlagaskrifstofunnar og hugsaði með mér: Ef einhver alvara er á ferðum eða hugur fylgir máli þá hlýtur fjármálaráðuneytið að áætla einhvern aukinn kostnað vegna námsgagnanna út á þessa grein. Ég las mig í gegnum þetta. Þar er sagt að ýmis atriði í frumvarpinu kunni að hafa í för með sér kostnað. Í fyrsta lagi ber að nefna aukið námsframboð o.s.frv. Í öðru lagi muni kostnaður við nemendafjölgun vegna fræðsluskyldu til 18 ára aldurs nema allt að þessu. Í þriðja lagi er reiknað með fjölgun vinnudaga í skólaári um fimm daga, kostnaður þar. Í fjórða lagi er reiknað með umsýslukostnaði skólanna (Gripið fram í.) vegna starfsþjálfunar nemenda í verknámi, að það gæti numið svo miklu. (Gripið fram í.) Í fimmta lagi reiknar menntamálaráðuneytið með því að breytingar yfir í nýtt námseiningakerfi og færsla við gerð námsbrautarlýsinga o.s.frv. geti kostað allt að þessu. Í sjötta lagi er áætlað að aukið eftirlit og úttektir muni kosta sitt. Ekki er að spyrja að því, eftirlits- og úttektariðnaðurinn blómstrar alls staðar. Og í sjöunda og síðasta lagi er áætlað að kostnaður vegna vinnu innan menntamálaráðuneytisins við staðfestingar á námsbrautum sem framhaldsskólarnir setji sér nemi allt að 7 millj. kr. Það er reiknað með einu nýju stöðugildi. Þar verður greinilega afkastamikill maður á ferð. Ekki er eitt orð um aukinn kostnað vegna námsgagna. Svo mikið fyrir loforð Samfylkingarinnar.

Landsfundarályktunin 14. apríl 2007: Samfylkingin vill stuðla að gjaldfrjálsri menntun frá leikskóla að háskólastigi. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu. Að kostnaðarlausu. Hér erum við með heildarendurskoðun á lögum um framhaldsskóla í höndunum og það er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu, að séð verður, í mati fjármálaráðuneytisins á því hvað þetta kostar inn í framtíðina, ekki í ár, ekki heldur næstu ár. Hvernig í ósköpunum stendur á því að Samfylkingin skuli ekki einu sinni sýna lit í þessum efnum? Þetta er enn aumlegra en í sambandi við leikskólann. Þar skaut hv. þm. Einar Már Sigurðarson sér á bak við orðalagið „Samfylkingin vill stuðla að gjaldfrjálsri menntun“. Hér þarf ekki um að binda. Loforðin hljóma upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum. Punktur, engir fyrirvarar. Og er nú síðasta flóttaleiðin út úr ógöngunum að segja að Samfylkingin hafi ekki haft tíma til þess? Það sé nú bara eitt ár liðið. Það munar um það. Næsta skólaár hefst í haust og ekkert örlar á neinum peningum í þetta. Ætli nemendur hafi nú þennan sama skilning á því að Samfylkingin þurfi svona langan tíma til að muna eftir kosningaloforðum sínum? Hún getur ekki einu sinni sýnt lit á að efna þau í góðærinu meðan peningarnir hafa flætt út úr ríkissjóði. Hvernig ætli gangi þá í þrengingunum sem flestir reikna með að séu fram undan? Þetta er frekar aumlegt verður nú að segjast, virðulegi forseti. Það er hugsanlegt að risið á Samfylkingunni lækki aðeins þegar þessa hluti ber á góma, að maður tali nú ekki um að skólagangan sé gjaldfrjáls fyrir ólögráða nemendur að minnsta kosti upp að 18 ára aldri. Auðvitað eru engin rök fyrir því að taka ekki inn saman fræðsluskylduna og gjaldfrelsið upp að 18 ára aldri að minnsta kosti. (Gripið fram í.) Auðvitað held ég ekki að það eigi að mismuna nemendum innan framhaldsskólans eftir aldri. En þeir hafa þó að þessu leyti tvenns konar stöðu. Það er ljóst að yngri árgangarnir eru ólögráða og hafa ekki kosningarétt. Ég vona nú að það eigi ekki að láta þá gjalda þess sérstaklega, að þá þurfi ekki að standa við loforð gagnvart þeim. Þeir eldast nefnilega og koma til með að fá kosningarétt. Það væri hollt fyrir Samfylkinguna að átta sig á því. Sem sagt, ákvæði frumvarpsins eru að þessu leyti algjörlega óuppfærð. Ekkert er sagt um það hvenær og hvernig þetta skuli gert og engar fjárveitingar eru ætlaðar í það. Fjárlagaskrifstofan gerir ekki ráð fyrir einni einustu krónu í aukin útgjöld af þessum sökum. Það er eins kristaltært og nokkuð getur verið.

Það er ástæða til að nefna líka reglugerðarþátt þessa máls. Það er alveg ljóst að mjög umfangsmikið reglugerðarvald er framselt til ráðherra í þessu frumvarpi eins og reyndar í hinum skólafrumvörpunum. Að sjálfsögðu getur það verið á sínum stað að velja þá leið að frá tilteknum hlutum málsins sé gengið í reglugerð og að lögin séu almenns eðlis. Mín reynsla hefur kennt mér að kannski sé skásta viðmiðunin í þessum efnum sú að Alþingi eigi ævinlega að ganga frá í lögum öllum meiri háttar stefnumótandi og pólitískum þáttum. Það eigi ekki að selja frá hinu kjörna valdi í hendur ráðherra. Hins vegar eigi tæknilegar útfærslur að vera í reglugerðum. Þær eru flóknar, þær eru tæknimál. Og ef ramminn skýr, stefnan er skýr, pólitíkin er klár, þá á ekki að þurfa að vera neinn pólitískur ágreiningur um þær. Það er fagmannanna að vinna þær.

Það dettur væntanlega engum í hug að flókin atriði t.d. á sviði tæknilegra viðfangsefna, rafmagnsmála eða siglingamála eða eitthvað svoleiðis sé ákveðið hér í einstökum atriðum í lögum. Þá yrðu kallaðir til fagmenn sem ganga frá slíku alveg eins og er upplagt að gera hér þegar kemur að hinni tæknilegu útfærslum í skólastarfinu. Þá geri ég ráð fyrir að það verði með starfsmönnum og vonandi að höfðu góðu samráði við þá sem við eiga að lifa, en mikilvægt að pólitíkin sé sem mest klár.

Þess vegna á t.d. ekki að senda óútkljáð pólitísk viðfangsefni eins og þau að ákveða hluti um gjaldfrelsi eða ekki gjaldfrelsi tiltekinna þátta í skólastarfinu út í reglugerð. Alþingi á að ganga frá því sjálft. Það hefur skýra fjárlagatengingu og á ekkert erindi annað. Að þessu leyti til er frumvarpið því miður of veikt. Það eru of mörg göt í því og óþarflega mikið vald sent út í bæ.

Virðulegi forseti. Nú er svo komið að fáeinar mínútur lifa eftir af ræðutíma mínum og er hann þó ríflegri nú, þökk sé Framsóknarflokknum að þessu sinni, en ella væri. En málið er stórt og viðamikið og þetta sýnir að stundum veitir nú ekki af ef maður ætlar að komast sæmilega yfir þó ekki sé nema hluta efnisatriða þess máls sem undir liggur. Þannig að ég mun ekki hafa hér tíma til að taka hér fyrir öllu fleiri viðfangsefni enda kominn yfir það sem ég taldi mikilvægast að nefna og hef auðvitað tekið í þeirri röð.

Það er margt fleira sem ég hefði hugsað mér að ræða betur: Starfið í skólunum, stöðu nemenda innan skólanna, athugasemdir frá nemendafélögum, t.d. um að því miður sé frekar dregið úr áhrifavaldi nemenda innan skólans heldur en hitt. Ég held að greinin sem er um nemendafélög í frumvarpinu sé veikari en sú sem er í lögum um nemendaráðin og möguleika þeirra til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um starf skólans. Það er að minnsta kosti á umsögn frá félagi þeirra, frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, að skilja. Nemendur sakna þess sem sagt er í núgildandi lögum um að nemendaráð hafi tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun í skóla sínum. Og ef við tökum 39. gr. frumvarpsins sem fjallar um nemendafélög þá er engin slík ákvæði þar að finna. Maður spyr sig af hverju það sé. Var ágreiningur um það? Hafði ekki gefist nógu vel að nemendur gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri í þessum efnum? Ég átta mig ekki alveg á því að hvaða tilgangi slíkt getur þjónað, eftir að hafa verið fulltrúi nemenda einu sinni í skólaráði eða hvað það nú hét í þá daga. Ég held að það hafi bara verið ágætt að nemendur ættu sína rödd þar og gátu reynt þar að gæta hagsmuna sinna og kljást við skólastjórnendur um hluti sem ekki var nú alltaf fullt samkomulag um.

Ég held sem sagt, virðulegi forseti, að það sé ekkert vandamál og enginn skortur á gildum rökum sem hníga að því að fresta afgreiðslu þessa máls og vinna það betur. Tilraunir stjórnarliða til þess að reyna að láta líta svo út sem hér sé enginn ágreiningur eru hrundar til grunna. Það sé bara einhver misskilningur og leiðindi í stjórnarandstöðunni eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson reyndi að gera hér áðan. Það er bara algjörlega hrunið til grunna. Það gæti komið hér ræðumaður á eftir mér og farið í aðrar umsagnir fjölmargra aðila og bent á hluti sem menn biðja um að séu skoðaðar betur, frá háskólum, nemendafélögum — ég hef ekki einu sinni nefnt allan þann fjölda skólastjórnenda og kennara sem hafa sent inn umsagnir. Ég hef persónulega fengið á milli tíu og tuttugu tölvubréf og símtöl undanfarna daga frá aðilum úr mjög mismunandi áttum sem hafa fært rök fyrir því að fresta eigi afgreiðslu þessa máls.