135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[18:04]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Mál það sem við fjöllum um er mjög viðamikið og ég hef ekki átt þess kost að sitja í menntamálanefnd til að fylgjast með því frá upphafi en hef kynnt mér það eftir föngum af þeim þingskjölum sem fyrir liggja. Eitt þessara þingskjala, sem að mörgu leyti vekur athygli í þessum efnum, er nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar sem er frekar stutt miðað við umfang málsins en stór hluti þess fer í að telja upp alla þá aðila sem sent hafa inn erindi og ályktanir vegna málsins. Það vantar aftur á móti inn í þessa upptalningu að getið sé hversu margir þessara aðila skiluðu inn jákvæðum umsögnum og voru sáttir við þann málatilbúnað sem hér á að viðhafa, að keyra þetta mál í gegn án samráðs við eðlilega samráðsaðila í samfélaginu. Þykir mér þar enn og aftur gengið mjög á svig við þau samræðustjórnmál sem Samfylkingin talaði svo oft fyrir í stjórnarandstöðu sinni. Margt mátti finna ágætt í þeim málflutningi en það fer betur á því í pólitík að það sé a.m.k. tilhneiging til þess að saman fari orð og efndir.

Það sem er að gerast í þessu máli er nákvæmlega sambærilegt við það sem við horfum upp á í stjórnarsamstarfinu þann dag sem ríkisstjórnin fagnar nú árs afmæli. Maður hlýtur að efast um eininguna á bak við þetta mál svo mjög sem alla vega bakland Samfylkingarinnar úti í samfélaginu hefur lýst andstöðu við margt af því sem hér er langt fram og margt af því sem hér er lagt upp með er andstætt þeim málflutningi sem Samfylkingin hafði í þessum málaflokki áður en hún settist í hina dýru stóla að baki mér, sem eru reyndar allir tómir nú á þessu síðdegi á föstudegi. En þetta bætist á afrekalista Sjálfstæðisflokksins, langan afrekalista á skömmum tíma um það hvernig honum hefur tekist að beygja Samfylkinguna í einu málinu af öðru, í Helguvík, í hvölunum, í nýhöfnu einkavæðingarferli í heilbrigðismálum, í Íbúðalánasjóði þar sem við heyrum af ferli sem er að hefjast til að brjóta þann sjóð upp, og svo mætti áfram telja. Hlálegast er hvernig mjög hástemmd loforð Samfylkingarinnar á liðnu kjörtímabili, um gjaldfrjálsan framhaldsskóla og ókeypis námsbækur, sem voru ekki bara venjuleg loforð sett fram í blaðagreinum eða ræðum heldur voru beinlínis afhent ungu fólki í kjördæmunum úti á landi í skriflegu formi fyrir síðustu kosningar, í formi ávísana sem ég hef reyndar ekki séð en hefur verið sagt frá í fjölmiðlum hvernig Samfylkingin lofaði þar fríum námsbókum ef hún kæmist að kjötkötlunum en ekkert ber á efndum þess.

Að þessum formála sögðum vil ég þó taka fram að það er alls ekki svo að það séu ekki jákvæð nýmæli í því frumvarpi sem hér liggur frammi. Þau eru vissulega fyrir hendi en það er mjög kastað til höndunum við frágang þessa máls og raunar það sem er kannski mikilvægast þar, svo við tölum um það sem jákvætt er í frumvarpinu, hið aukna frelsi og aukna sjálfstæði skólanna en tryggingin fyrir því er mjög haldlítil vegna þess að við vitum svo lítið um þann ramma sem þessi lög verða innan. Hér er um mjög gagngera breytingu á lagaumhverfinu að ræða sem kallar síðan á mikla reglugerðasmíð og mikinn annan ramma sem við vitum afskaplega lítið um og lítið liggur fyrir um og því eru þau fyrirheit sem frumvarpið gefur í raun og veru ekki í hendi. Það er raunar háttur sem Alþingi þarf að temja sér í auknum mæli að ganga þannig frá lagasetningu að þegar frumvörp koma fram vitum við líka hvað fylgir með af reglugerðum og öðru regluverki og annarri stjórnsýslu í kringum lagafrumvörpin áður en Alþingi fær þau til samþykktar. Þar geta allir flokkar tekið á sig nokkra sök en greinilegt er að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að bæta úr því þó það sé einmitt tilhneigingin í stjórnsýslu nágrannalanda okkar að lög eru ekki afgreidd frá þjóðþingum sem óútfylltur tékki til handa stjórnvöldum.

Fyrr í dag var talað um villuráfandi málflutning okkar í stjórnarandstöðunni, talað um andstöðu okkar sem tilefnislitla og sem andóf sem haldið væri fram án mikilla raka. Ef það er rétt erum við þar alla vega ekki einir á báti heldur hafa fjölmargir virkir flokksmenn úti í samfélaginu, einkanlega í Samfylkingu en líka í Sjálfstæðisflokki, sem koma að þeim ótal nefndarálitum sem ég ætla ekki telja hér upp en er með lauslegt yfirlit yfir og mun kannski víkja aðeins að í ræðu minni eftir því sem tími gefst til, gagnrýnt þetta mál. Það ber líka að athuga varðandi málatilbúnað stjórnarandstöðu í þessum efnum að það er alls ekki svo að stjórnarandstaðan á Alþingi sé ómálefnaleg þegar kemur að menntamálum. Við höfum síðustu dægrin, ekki bara dagana heldur dægrin því að hér er unnið dag og nótt, rætt um önnur frumvörp til menntamála og þar er eining þingsins mjög mikil og þar hafa stjórn og stjórnarandstaða staðið saman að nefndarálitum í öllum meginatriðum og því er fráleitt að halda því fram að hér sé andstaða á ferðinni andstöðunnar vegna.

Það sem er áhyggjuefni varðandi þessa aðferð við að afgreiða mál er að Alþingi er ætlað að vera nokkurs konar framleiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Hér er það framleiðslustofnun í því að búa til aðra framleiðslustofnun framhaldsskólanna sem hinn harði kapítalismi, sem hin harða krafa tímans heimtar að framleiði hraðar og meira. Það er ekki farsælt. Í samfélagi okkar liggur okkur ekki á að koma unga fólkinu út í atvinnulífið. Okkur liggur ekki þau ósköp á að það klári framhaldsskólann og stytti æskuárin til að vera komin fyrr inn í háskólaumhverfið og síðan atvinnulífið. Þvert á móti er tíminn nægur og við þurfum að koma þeim skilaboðum á framfæri til unga fólksins að tíminn sé nægur og þess vegna er sú grundvallarhugmynd sem hér er lagt upp með, að stytta framhaldsskólanámið, eiginlega, svo ég grípi til tungutaks hæstv. forsætisráðherra „no matter what“. Það er ekki farsælt en það er lagt upp með það í þessu frumvarpi því að það eru engin fyrirheit um hvað muni felast í þessari styttingu náms til lokaprófs framhaldsskóla. Það liggur ekkert fyrir og það sem stjórnarandstaðan hefur margoft knúið á um, og ég mun enn og aftur knýja á um svör við frá hv. stjórnarmeirihluta, hvað er meiningin að einingar til stúdentsprófs verði margar í hinu nýja kerfi? Hverjar eru hugmyndirnar þar um og hvers vegna eru þær ekki hafðar með í lagafrumvarpinu? Hvers vegna er ekki eðlileg leiðbeining um það í lagafyrirmælum hvernig skuli staðið að því?

Við höfum þegar reynsluna af því, m.a. í þeim lögum sem við höfum rætt mikið um undanfarna daga, þingskapalögunum, að lögskýringargögn ein og sér, hin sjálfsögðu lögskýringargögn eins og ræður meirihlutamanna og nefndarálit, duga skammt þegar kemur að ágreiningi um lagatúlkun. Það sem máli skiptir er að lögin séu skýr og til þess mælum við fyrir um nýja lagasetningu að bæta lagagrunninn og bæta þann reglugrunn sem framhaldsskólarnir starfa eftir. Það að þessi grunnur hafi ekki verið í núgildandi lögum er út af fyrir sig haldlítið. Þess utan er ljóst af núgildandi framhaldsskólalögum, og þeim lögum sem giltu þar á undan, að það hefur verið ákveðinn einingafjöldi. Við samþykktum þau lög árið 1996, ekki í einhverri óvissu um það hvaða grunnur yrði á bak við stúdentsprófið, ekki í óvissu um að til stæði að þynna stúdentsprófið út. Það er einmitt umræðan sem hefur verið nú um nokkurt skeið í samfélaginu. Það er umræðan sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýndu mjög meðan þeir skipuðu stjórnarandstöðu og var svo sem engin eining um innan fráfarandi ríkisstjórnar að fara að þynna stúdentsprófið út en nú er það gert. Nú er lagt upp með lagagrunn sem gerir það.

Slík útþynning á stúdentsprófinu er mikið áhyggjuefni vegna þess að gæði okkar háskólafólks byggjast einmitt á því að framhaldsskólanemar komi inn í háskólasamfélagið með góðan undirbúning, með undirbúning sem kallar á að þeir geti valið úr deildum en séu ekki búnir að festa sig allt of mikið fyrir fram með hálfu stúdentsprófi án þess kannski almennilega að átta sig á því fyrr en þeir knýja dyra í háskólanum að þeir hafa ekki viðunandi nám til að geta valið um deildir. Þeim er markaður ákveðinn bás í þeim deildum þar sem minnstar kröfur eru kannski gerðar. Það er ekki gott.

Ég held raunar að sú breyting sem varð á framhaldsskólanáminu frá gamla menntaskólafyrirkomulaginu — sú breyting varð fyrir alllöngu — hafi á vissan hátt kallað á þetta. Þá var dregið úr kröfum í klassískum greinum og í raungreinum, takmarkaður hluti nemenda hefur undanfarna áratugi átt beinan aðgang inn í raungreinadeildir háskólanna og það er miður. Ég held við séum að stefna enn lengra hér og miklu hraðar í þá átt að búa til tvenns konar eða margs konar stúdenta með mjög mismunandi góðan grunn. Ég er ekki viss um að unga fólkið, sem er að setjast á skólabekk, geri sér alls kostar grein fyrir þessu.

Kannski er enn meiri hætta á því að það verði ekki núna þegar framhaldsskólanámið verður að skyldunámi, sem ég er í sjálfu sér ekki andsnúinn, ég held að það sé eðlilegt kall tímans að unga fólkið sitji á skólabekk til 18 ára aldurs. En það kallar jafnvel á meiri ögun í kerfinu en verið hefur frekar en við göngum í öfuga átt. Það eru þessi atriði og mörg fleiri sem hafa verið gagnrýnd við þetta og ekki að tilefnislausu.

Mig langar aðeins að víkja að þeim þætti sem heyrir til landsbyggðarinnar sérstaklega. Það er skýlaus krafa að nú þegar fyrstu tvö ár framhaldsskólans verða að skyldunámi geti nemendur stundað nám sem næst sinni heimabyggð og þurfi ekki að fara langdvölum að heiman. Hér var lyft grettistaki þegar alþýðufræðslunni var komið út um sveitir landsins og byggðir upp skólar snemma á öldinni í öllum sveitum. Öðru grettistaki var lyft fyrir um 30 til 40 árum þegar framhaldsskólunum var fjölgað úr tveimur eða þremur sem þá voru í landinu — lengi vel voru þeir bara tveir, einn á Akureyri og einn í Reykjavík. Ég veit ekki nema minn gamli skóli, þó að ég sé ekki vel að mér í smáatriðum í þessari sögu, Menntaskólinn á Laugarvatni, hafi verið sá þriðji í röðinni árið 1953. Á áttunda áratugnum er lyft grettistaki í því að koma framhaldsskólum upp út um allt land. Fram að því þurftu nemendur að fara langdvölum ekki bara að heiman heldur langar vegalengdir yfir í næstu héruð til að leita sér framhaldsskólamenntunar.

Miðað við þann efnahag sem samfélagið bjó við þá, miðað við það ríkidæmi sem þá var, var þetta miklu meira framtak en það er nú að koma upp framhaldsskóladeildum í öllum kauptúnum og kaupstöðum þannig að nemendur þurfi ekki að fara að heiman fyrr en í fyrsta lagi um 18 ára aldur. Það er mikilvægt við þær breyttu þjóðfélagsaðstæður sem ríkja. Það er mikilvægt við þá hröðu öfugþróun sem hér er í byggðamálum. Það er mikilvægt við þá breyttu fjölskyldumynd sem er í dag, þar sem barnafjöldi er minni og fjölskyldan hefur um margt aðra verkan í samfélaginu, tengslin eru öðruvísi og það getur verið alvarlegra að rífa barn upp frá heimili sínu 16 ára gamalt. Fyrir utan að margt í samtímanum kallar líka á samheldni fjölskyldunnar vegna þess sem ógnar ungu fólki og er sífellt vaxandi vandamál hjá okkur. Allt kallar þetta á það að samhliða því að við byggjum upp skyldunám til 18 ára aldurs þurfum við að byggja skólakerfið upp út um allt land. Við þurfum að byggja upp hverfaskóla þannig að nemendur eigi heimangengt í sína skóla, a.m.k. tvo fyrstu bekki framhaldsskólans. Engar tryggingar eru fyrir neinu af þessu.

Annað atriði sem líka snertir byggðirnar í landinu, og er skilið eftir algerlega óafgreitt í frumvarpinu, eru tengslin milli sveitarfélaga og ríkis. Þau hafa varðandi framhaldsskólana verið mjög þokukennd og óheppileg um margt. Ríkisvaldið hefur beitt þrýstingi til að sveitarfélögin komi að uppbyggingu framhaldsskólanna með beinum fjárframlögum og skilin á milli þessara stjórnsýslustiga eru í miklu ójafnvægi. Það er svo sem ekki bara í þessu máli en það er mjög mikilvægt að við leysum þar úr. Það getur vel verið að framtíðin beri það í skauti sér að sveitarfélögin taki framhaldsskólastigið yfir. En hvort sem við erum á þeirri leið eða ekki þurfum við að hafa hreinar línur. Það hafa verið kröfur þeirra sem koma að sveitarstjórnarstiginu, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um landið.

Svo ég haldi enn áfram að tala um byggðirnar í landinu, og þegar ég tala um byggðirnar í landinu þá eru þar engir útilokaðir, en atvinnulífið er nátengt byggðunum og mikilvægt er að tryggja tengsl skóla og atvinnulífs. Eftir því hefur verið kallað af umsagnaraðilum að skerpt sé á þeim hlutum í nýjum lögum en það er ekki gert. Lögin eru að því leytinu til alla vega ekki framför frá fyrri lagasetningu.

Enn vantar líka inn í frumvarpið skýrari ákvæði um fjarnám og um ýmsar aðrar leiðir sem geta gagnast hinum smæstu byggðum til að fólk geti stundað framhaldsnám fjarri skólunum sem getur verið mjög mikilvægt. Vissulega er til byggðarlög sem eru það fámenn í landinu að alltaf verður erfitt að koma þar upp heimangönguskóla. Mér verður þar ekki síst hugsað til suðausturhornsins, sem er mér svæði afar hugleikið, en þar eru vegalengdir gríðarlega miklar og mjög fáir íbúar orðnir eftir.

Stjórnarmeirihlutinn gerir þá kröfu að frumvörp þau sem hér eru lögð fram um skólamál verði öll að fylgjast að. Rökin bak við þá fullyrðingu hafa mér virst veigalítil. Það er ekkert sem segir að ekki megi innleiða þessar breytingar smátt og smátt. Það er mjög mikilvægt að við sjáum reynsluna af þeim breytingum sem innleiddar eru nú á grunnskólastiginu. Mikil skörun er milli grunnskóla- og framhaldsskólastigs. Þar sem það er ekki sama stjórnsýslustigið sem sér um þessar tvær greinar er hér vitaskuld togstreita. Það er alveg ljóst að ein af ástæðum þess að við fáum gagnrýni á hugmyndir um styttra framhaldsskólanám, sem ég er mjög gagnrýninn á, er fjárhagsleg gagnrýni frá sveitarstjórnarstiginu.

Menn hafa áhyggjur af þeim hugmyndum innan ríkisins, innan menntamálaráðuneytisins, að það muni spara fé að stytta námið. Sá sparnaður verður auðvitað að einhverju leyti á kostnað sveitarfélaganna og þar með á kostnað grunnskólanna sem er afskaplega ójafn leikur. Það er ástæða til að Alþingi taki það mál til athugunar. Alþingi á ekki að vera framleiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Alþingi er ekki nein einkastofnun ríkisvaldsins. Alþingi er lagasetningarstofnun fyrir allt samfélagið og á að vinna út frá hagsmunum jafnt sveitarstjórnarstigsins sem framkvæmdarvaldsins. Það er því mjög mikilvægt að ekki sé unnið með þeim hætti sem hér er gert, að menntamálaráðuneytið keyri í gegnum Alþingi frumvarp í blóra við sveitarstjórnarstigið og í blóra við þær stéttir sem eiga að vinna undir lagafrumvarpinu. Það er algerlega ófært og það er afskaplega ófarsælt.

Mjög margt kallar á það að við hinkrum aðeins við og gefum þessu máli sumarið til athugunar. Það er ekkert sem kallar á að breytingin gerist strax annað en metnaður hins stóra meiri hluta, að geta sýnt að það stendur ekki í honum að fara hratt og örugglega með öll mál í gegnum þingið. Það hefur samt orðið brotalöm á í þeim vinnubrögðum þar sem hugmyndir meiri hlutans voru hreinlega þær, og það er rétt að halda því til haga, að keyra frumvarpið í gegn á næturfundi.

Það var ætlunin að klára þetta mál á síðasta þingfundi sem hefði þá staðið til sjö eða átta í morgun og reyndar óvíst að það hefði klárast á þeim tíma. Fyrir samstöðu stjórnarandstöðu tókst að afstýra því og ná samkomulagi um að þessi umræða færi þó fram í dagsbirtu, þessi lagabreyting væri rædd í heyranda hljóði, almenningur gæti hlustað. Kennarar sem vinna langan vinnudag í skólanum geta ekki leyft sér það — þó að okkur þingmönnum sé vorkunnarlaust að taka hér nótt og nótt getur vinnandi fólk úti í samfélaginu ekki vakað yfir næturfundum okkar.

Það skiptir því miklu máli að umræðan er í heyranda hljóði að degi til. Það skiptir líka máli að hlustað verði á þau rök sem fram koma frá stjórnarandstöðunni og að stjórnarmeirihlutinn, þó að þingsalurinn sé ekki þéttskipaður fulltrúum hans eins og stendur, taki mið af því sem hér er sagt í dag. Hér er að hluta til verið að flytja boð samfélagsins. Verið að flytja boð grasrótarinnar algerlega óháð flokkum og í rauninni á mjög breiðum hagsmunagrunni frá mjög mörgum aðilum sem hafa gagnrýnt málið. Þó að það gæti kannski orðið niðurstaðan að allar meginlínur frumvarpsins héldu sér — ég ætla ekki að fullyrða um það hvað kæmi út úr sumarlöngu samráði — þá mundi breyta miklu um farsæld þessa máls að samráðið væri viðhaft, að menn fengju að ljúka samráðsferlinu, að menn fengju að ljúka sinni vinnu.

Það er vitað að tíu punkta kerfinu, sem lagt var upp með í undirbúningi þessa máls af menntamálaráðuneytinu, var hent til hliðar og það eru vinnubrögð sem eru mjög miður. Það er mjög sorglegt að horfa upp á Samfylkinguna ætla að taka þátt í þessum vinnubrögðum. Um Samfylkinguna má margt gott segja og m.a. það að hún hefur haft mikil og góð tengsl inn í menntakerfi þjóðarinnar. Hún hefur haft mikil og góð tengsl inn í framhaldsskóla þjóðarinnar og eftir því verður tekið ef þetta eru vinnubrögðin hjá Samfylkingunni gagnvart skólakerfinu á fyrsta vetri.

Samfylkingin hefur, eins og ég vék að hér fyrr í minni ræðu, gleypt ansi margt á þessum eina vetri. Þetta bætist í þann afrekalista sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur um það að hafa getað valtað yfir samstarfsflokk sinn. Því að það er ekki svo að almenningur, og það er rétt að þingmenn Samfylkingarinnar veiti því umhugsun, taki það gott og gilt þó að Samfylkingin sé oft með uppsteyt í ríkisstjórnarsamstarfinu ef ekkert er gert með það, ef slíkur uppsteytur og slíkar upphrópanir eru aðeins marklaus gaspur. Almenningur horfir til þess og fólk í skólageiranum að Samfylkingin geti þokað málum til betri vegar og geti komið því á sem hún lofaði hér á löngu stjórnarandstöðutímabili og í sínum hörðu og erfiðu kosningabaráttum að hér yrðu iðkuð samræðustjórnmál. Því hefur öllu verið kastað fyrir róða og kannski með sorglegri hætti í þessu máli en í mörgum öðrum sem um er að ræða.

Mig langar að víkja að málefnum sem eru mér mjög hugleikin í skólakerfinu en það eru málefni fatlaðra og þeirra sem hafa sérþarfir. Allar umsagnir í þeim efnum eru nokkuð á eina leið, menn telja að hægt hefði verið að kveða skýrar að. Ég held því ekki fram, enda væri það fráleitt, að búast megi við að mikil afturför verði varðandi þessa hópa. En það sem við ætlumst til með lagasetningu og það sem við höfum gert með lagasetningu allan lýðveldistímann er að stuðla að framför, stuðla að framförum með réttarbótum. Þess vegna eru nýir lagabálkar að fornu og nýju kallaðir réttarbætur.

Það er samdóma álit þeirra sem koma að þessum málum — Rauði krossinn, Sjónarhóll, Heimili og skóli, Þroskahjálp — að í þessum lagabálki séu litlar sem engar réttarbætur fyrir þessa hópa. Það er mjög miður. Sérstök ástæða er til að kalla eftir slíkum réttarbótum nú þegar við stefnum að því að framhaldsskólinn verði að hluta til hluti af skyldunámi.

ADHD-samtökin, samtök sem vinna með málefni ofvirkra, hafa einmitt bent á að í frumvarpinu þurfi að koma fram skýrari réttur nemenda með sérþarfir til stuðnings og sérkennslu, að skylda þurfi framhaldsskólana til að viðhafa skýra verkferla í málefnum nemenda með sérþarfir og hafa þurfi skýrar áfrýjunarleiðir í þessum efnum. Þetta er tekið upp sem eitt dæmi af mörgum.

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna benti á í sinni umsögn að gera þurfi langveikum börnum á framhaldsskólastigi kleift að stunda nám og taka verði sérstakt tillit til veikinda nemenda sem heyra undir þau hagsmunasamtök.

Ég gæti haldið áfram á þessa leið og veit ekki hvort ég á að gera það. Ég á enn nokkrar mínútur eftir af ræðutíma mínum en ég reikna með að stjórnarmeirihlutinn hafi kynnt sér þessi álit. Ég vil ekki trúa öðru en að hann hafi gert það. En ég tel rétt að minna á að álitin eru mjög á eina leið. Það er athyglisvert að í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar eru þessir álitsgjafar bara taldir upp, einungis sagt að þeir hafi skilað inn áliti. Ekki er meira gert með álit þeirra en svo.

Vissulega hafa verið gerðar lítils háttar breytingar á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar. Þær eru margar til góðs og rétt að halda því til haga. En þær ganga samt fráleitt nógu langt til þess að samhugur skapist, samhugur sem þarf að vera innan kerfisins um réttarbætur eins og þessar. Það er í rauninni líka vandséð að það liggi svo á að hraða þurfi þessu máli í gegnum lagasetningarferlið og inn í samfélagið.

Ég vék hér áðan að atvinnulífinu. Það er kannski eitt af því sem við virkilega þurfum að taka á varðandi framhaldsskólastigið í landinu. Okkur verður tíðrætt um stúdentsprófið. Það kann að vera að ég og aðrir gerum okkur sek um að snobba um of fyrir stúdentsprófi á kostnað annarrar framhaldsmenntunar. (Gripið fram í.) Ég tala nú ekki um doktorsgráður, segir einn þeirra doktora sem ég hygg að við höfum hér innan þingsins.

Ekki er síður ástæða til að við byggjum upp gott og öflugt framhaldsnám í kringum hinar verklegu greinar. Þar er virkilega þörf á að efla námið. Samfélagið þarf á því að halda að hér verði til fleiri í iðnaðarmannastéttum og fleiri í mörgum af þessum verklegu stéttum. Starfsgreinaráð í málm- og véltækni, veitinga- og ferðaþjónustugreinum og framleiðslugreinum hafa einmitt sett fram gagnrýni á frumvarpið þar sem m.a. er bent á að ekki séu rök til þess að fækka fulltrúum í starfsgreinaráðum. Að þeirra mati hefur það ekki verið fyllilega útskýrt hvers vegna sú leið er farin. Það er ekki líklegt til þess að efla veg þessara greina. Einnig er bent á það í gagnrýni þessara aðila að orðalag sé um margt óljóst og kallað er eftir nánari skilgreiningum.

Að mörgu leyti er gagnrýni skrifstofu- og verslunargreina sambærileg. Það er sama hvar borið er niður, gagnrýnin er alls staðar. Himinn og haf skilur milli umsagna um þetta frumvarp og umsagna um frumvörpin um leikskóla- og grunnskólastigið sem við ræddum hér í nótt.

Ég ætla að fá að nota síðustu mínúturnar til að tala aðeins um það sem mér er jafnan mjög hugleikið, sem er almættið. Biskupinn yfir Íslandi hefur einnig gagnrýnt þetta frumvarp þó með hógværum hætti sé eins og hans er von og vísa og hæfir því embætti. En ástæða er til að hans mati, og ég tek undir það, að trúarbragðafræðsla í framhaldsskólum sé efld. Hún er mikilvæg til þess að uppræta fordóma og hún er mikilvæg til að búa okkur undir það að skilja samfélag okkar, rætur okkar og sögu. Það er kristindómsfræðslan og ekki síður fræðsla í öðrum trúarbrögðum sem sjálfsagt er að hafa nokkuð til jafns þegar komið er fram á framhaldsskólastigið, fræðsla um hinar ýmsu yfirnáttúrulegu verur sem maðurinn hefur búið sér til hugmyndir um í gegnum árþúsundin og eru allar nauðsynlegar til að við skiljum mannssálina, skiljum okkur sjálf og uppruna okkar.

Að þessu sögðu ætla ég að láta máli mínu lokið í bili. Ég vildi gjarnan fara ofan í margt annað og sérstaklega greinarnar hverjar fyrir sig. Ég mun bíða með það þar til síðar í þessari umræðu.