135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[18:42]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um framhaldsskóla og hafa mörg orð fallið í dag um það frumvarp og ætla ég að taka þátt í þeirri umræðu.

Ég vil í upphafi máls míns, vegna þeirrar samsæriskenningar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir varpar fram, að það væri samkomulag á milli stjórnarflokkanna, ef ég man rétt, að Samfylkingin fengi menntafrumvarpið samþykkt og Sjálfstæðisflokkurinn framhaldsskólafrumvarpið, benda hv. þingmanni á að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrstur allra flokka setti fram þá hugmynd að styrkja og efla menntun kennara í þá veru sem fram kemur í því frumvarpi, þar á meðal leikskólakennara, og það er ekkert slíkt á döfinni á milli meiri hlutans að annar flokkurinn fái þetta og hinn fái hitt. Samstarfið í menntamálanefnd Alþingis var og er mjög gott og ég verð að leyfa mér hér í upphafi, hæstv. forseti, að láta í ljós óánægju mín með það á hvern hátt hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson og Kolbrún Halldórsdóttir leyfa sér að túlka greinina um stúdentspróf og afstöðu meiri hlutans hvað það varðar þrátt fyrir allar þær samræður sem átt hafa sér stað um margumrædda 18. gr. frumvarpsins og kem ég að því síðar. Ég ætla að renna, hæstv. forseti, í gegnum þessar greinar og breytingartillögur og það sem ég tel að megi koma frekar að.

Í athugasemdum sem fram koma í bréfi Félags framhaldsskólakennara, opnu bréfi sem sent var öllum þingmönnum og birt í Fréttablaðinu í dag, segir m.a., með leyfi forseta:

„Frumvarpið þarf að tryggja aukinn rétt nemenda og kennara til þátttöku í ákvörðunum um innra starf framhaldsskóla. Skilgreina þarf betur verksvið skólafunda og verksvið kennarafunda. Breytingarnar sem lagt er til að gerðar verði á verksviði kennarafunda miðað við núgildandi lög eru hvorki faglegar né skynsamlegar.“

Í ljósi þessara orða formanns og varaformanns Félags framhaldsskólakennara leyfi ég mér, með leyfi forseta, að lesa upp 9. gr. núgildandi laga um kennarafundi og síðan 10. gr. þessa frumvarps og bið menn að hlusta og bera þetta saman. 9. gr. núgildandi laga frá 1996 hljóðar svo:

„Almennur kennarafundur í framhaldsskóla fjallar um stefnumörkun í starfi skólans, um námsskipan, kennsluhætti, þar með talið námsmat, og aðra starfsemi og kemur tillögum sínum á framfæri við skólanefnd og skólaráð. Kennarafund skal halda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á hverju skólaári. Skylt er skólameistara að halda kennarafund ef fulltrúar kennara í skólaráði eða þriðjungur fastra kennara skólans krefjast þess. Nánari ákvæði um starfssvið kennarafundar skal setja í reglugerð.“

Í 10. gr. frumvarpsins sem hér er rætt segir svo:

„Í framhaldsskólum skal halda kennarafund a.m.k. tvisvar sinnum á skólaári. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi, eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð kennarafundar skal kynnt skólanefnd. Almennir kennarafundir“ — og ég bið hv. þingmenn um að hlusta — „í framhaldsskólum skulu fjalla um stefnumörkun“ — sama og í 9. gr. laganna — „í starfi skóla, m.a. námsskipan,“ — sama og í 9. gr. — „kennsluhætti,“ — sama og í 9. gr. — „gerð skólanámskrár,“ — sama og í 9. gr. — „tilhögun prófa og námsmat.“ — Sama og í 9. gr.

Þess vegna er mér, hæstv. forseti, óskiljanlegt hvernig formaður og varaformaður Félags framhaldsskólakennara geta svo sagt í þessu bréfi að breytingarnar á verksviðinu séu hvorki faglegar né skynsamlegar þegar þær eru næstum því orðréttar í frumvarpinu frá því sem stendur í núgildandi lögum. Þess vegna hafna ég algerlega þeirri fullyrðingu formanns Félags framhaldsskólakennara og varaformanns að hvað þetta varðar sé hvorki faglega né skynsamlega staðið að málum.

Talað hefur verið um að aðkoma kennara væri ekki nægjanleg. Við því hefur verið brugðist með breytingartillögum frá meiri hluta nefndarinnar, m.a. við 10. gr. og breytingar frá því sem er í 9. gr. frumvarpsins, um að kennarafundur kjósi einnig áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Kennarar framhaldsskóla koma að skólanefndum, þeir koma að skólafundum og að kennarafundum. Aðkoma þeirra er því verulega tryggð og á sama hátt ef ekki betur en í núgildandi lögum.

Það hefur líka verið talað um að nemendur hafi ekki nægan aðgang. Nemendum er tryggður aðgangur að skólanefnd, þeim er tryggður aðgangur að skólafundum og loks er ákvæði um nemendafélög í 39. gr. Nemendum er því tryggð aðkoma að hagsmunamálum sínum innan skólans. Síðan má alltaf velta því fyrir sér, hæstv. forseti, hvort betur þurfi að gera í þeim efnum en þar er þetta tryggt.

Hæstv. forseti. Í bréfi formanns og varaformanns framhaldsskólakennara er vikið að því að fyrirætlanir í 23. gr. séu afar stýrandi og þeir fara fram á það að skólarnir fái skýrt umboð til að móta áherslur sínar eins og var fyrir lagasetninguna 1996. Ég vil leyfa mér að túlka það sem fram kemur í frumvarpinu og greinargerðinni með öðrum hætti en formaður og varaformaður Félags framhaldsskólakennara gera og tel ekki að menntamálaráðherra sé að setja viðmiðunarnámskrá fyrir framhaldsskóla nema í því tilviki sem skólarnir hafa ekki getað uppfyllt það sem frumvarpið segir til um. Ég tek það fram, hæstv. forseti, að ég hef bæði réttindi til starfa sem grunnskólakennari og sem framhaldsskólakennari og ég þekki þetta svið mætavel. Það er því ekki um fákunnáttu að ræða af minni hálfu þegar fjallað er um þetta efni. Ég leyfi mér hins vegar að túlka þetta með öðrum hætti og skil hlutina með öðrum hætti en þeir sem sendu þetta bréf og það verður svo að vera.

Mikið hefur verið rætt um skipulag náms og þá sérstaklega til stúdentsprófs sem eiginlega verður að vekja athygli á og ætti að vekja furðu því að það eru eingöngu u.þ.b. 20% nemenda í framhaldsskólum sem taka stúdentspróf. Aðrir ljúka námi með einhverjum öðrum hætti og á það hefur vart verið minnst í þessari umræðu. Hins vegar ber að fagna þeim þáttum sem lúta að verknámi og starfsnámi. Þar var virkilega tekið tillit til þess sem starfsgreinaráðin höfðu fram að færa. Í þessu frumvarpi verið að efla verknám og gera því jafnhátt undir höfði og bóknámi og það var löngu tímabært í okkar samfélagi. Einnig er horft til þess með þessu frumvarpi að þeir sem útskrifast af verknámsbrautum geti útskrifast með stúdentspróf á sama hátt og þeir sem útskrifast af bóknámsbrautinni.

Hér hefur mikið verið rætt um námseiningar og af hverju að taka eigi upp námseiningar. Í þessu frumvarpi, hæstv. forseti, sem og öðrum frumvörpum hæstv. menntamálaráðherra sem við höfum fjallað um er verið að leggja áherslu á nemandann. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að horft sé til árseininga og verks nemandans en ekki að stundatafla kennara ráði för. Því er nauðsynlegt þar sem slík breyting er lögð fram að fara í breytingar á einingakerfi, hvaða kerfi svo sem menn vilja taka upp, vegna þess að núverandi einingakerfi miðast við kennslustundir kennarans og að hver áfangi gefi u.þ.b. 2–3 einingar. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir að miðað sé við vinnuframlag nemenda og þess vegna þarf að innleiða nýtt einingakerfi í þá veru. Það er enginn, og ég ítreka það, hæstv. forseti, það er enginn betur til þess fallinn en hópur kennara í framhaldsskólum og skólameistarar að fara í þá vinnu að innleiða nýtt einingakerfi og það taki mið af þeirri áherslu sem er í frumvarpinu að höfuðáherslan sé lögð á vinnuframlag nemenda og hér er sagt að það eigi að vera 60 einingar. Í frumvarpinu er jafnframt talað um að skólaárið eigi að vera 180 dagar. Þetta þýðir, hæstv. forseti, að nemendur eru dag hvern að vinna sér inn u.þ.b. 0,33 einingar í námi sínu. Við þessar breyttu aðstæður þarf því að taka upp nýtt einingakerfi og kennararnir eru best til þess fallnir að fara í þá vinnu. Og vegna þess að þetta nýja einingakerfi þarf að vinna með tilliti til ársframlags nemenda er ekki hægt að setja ákveðinn einingafjölda til stúdentsprófs inn í þetta frumvarp. Það er einfaldlega ekki hægt. (Gripið fram í.)

Þar að auki veitir frumvarpið skólunum það sjálfstæði, það frelsi í námsbrautalýsingum og skólanámskrá að það á að vera keppikefli skólanna að móta stúdentsprófin á þeim brautum sem þeir bjóða upp á, það á að vera keppikefli þeirra að hafa sem mest sjálfstæði og frjálsræði í þá veru. Og ég skil ekki, hæstv. forseti, ég verð bara að leyfa mér að segja það, að fagfólk í skólum skuli kalla eftir því að löggjafinn ákveði hvernig þessum þáttum eigi að vera háttað, að löggjafinn ákveði hvernig einingakerfi eigi að innleiða, að löggjafinn ákveði hve margar einingar eigi að vera til stúdentsprófs. Ég hefði haldið að framhaldsskólakennarar hlökkuðu til að takast á við þetta frábæra verkefni og fá að móta sitt vinnulag í hverjum skóla og þær áherslur sem þeir frekast kjósa.

Virðulegur forseti. Rætt hefur verið um 34. gr. frumvarpsins, Nemendur með sérþarfir. Ég tel að vel sé á þeim málum haldið í þessari grein. Það má sjálfsagt alltaf gera betur en það stendur klárt og kvitt í frumvarpinu að veita skuli nemendum með fötlun kennslu og sérstakan stuðning í námi, og það er breytingartillaga frá meiri hluta nefndarinnar í þá veru að tilfinningaleg og félagsleg vandamál nemenda eru líka tekin inn í þessa grein um nemendur með sérþarfir. Ég tel, hæstv. forseti, að verið sé að koma til móts við margar þeirra umsagna sem nefndin fékk. Það verður hins vegar að vera á verksviði skólanna hvers um sig hvernig þeir ætla að mæta þörfum þessara nemenda, hvernig þeir ætla að leitast við að búa til námsbrautir fyrir nemendur sem eru svo fatlaðir að þeir falla ekki að hefðbundnu starfi. Þetta er frelsi sem framhaldsskólinn fær í þessari grein sem og öðrum. Það er öllum ljóst að 34. gr. er kostnaðarsöm og það er öllum ljóst að það að búa til sérúrræði mun kosta peninga en fatlaðir nemendur sem eiga í erfiðleikum á einhverju sviði eiga rétt á því að stunda nám og skólinn á að koma til móts við þá.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að þetta niðurtal um stúdentsprófið, um inntak náms og einhverjar bældar eða duldar hvatir, eða guð má vita hvað, sem að baki eiga að liggja í þessu frumvarpi og hv. stjórnarandstæðingar vilja geta séð, er mér algerlega hulin ráðgáta. Satt best að segja, og miðað við þá umræðu sem fram fór í menntamálanefnd, þá blöskrar mér algerlega, ég leyfi mér að segja það, málflutningur hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Það er hreint eins og þingmaðurinn hafi verið með lokuð eyrun alla nefndarfundi. Á fundi eftir fund var spurt: Hvað eigum við að segja? Hvað getum við sett í nefndarálitið svo það sé algerlega skýrt og fari ekki á milli mála að ekki er verið að skerða stúdentsprófið, að það sé ekki verið að skerða inntak stúdentsprófsins, vegna þess að það er ekki minnst á það hér? Það er ekki verið að skerða stúdentsprófið og það var sérstaklega rætt hvort minni hlutinn gæti sætt sig við að sett væri inn að ekki væri verið að búa til aðfaranám í háskóla vegna þess að við leggjum afar mikla áherslu á að það er ekki verið að skerða stúdentsprófið. Og við spurðum: Nægir þetta? Á tímabili nægði að setja inn að það ætti ekki að búa til aðfaranám í háskólanum. En svo snerist mönnum hugur og það nægði ekki. Og það skiptir, hæstv. forseti, akkúrat engu máli hve oft þetta er sagt: Það er ekki verið að skerða nám til stúdentsprófs, hér kemur skýrt fram að stúdentsprófið á að vera jafngilt og það er í dag og háskólarnir eiga að geta tekið stúdentsprófið gilt hjá hverjum og einum nemanda. Það er meginhugmyndin að baki þessu. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekki hægt og það á ekki að vera þannig að löggjafinn, fyrirgefðu hæstv. forseti, næstu setningu, misvitrir pólitíkusar taki ákvörðun um það hve margar einingar eigi að vera til stúdentsprófs í framhaldsskólum landsins. Það er á höndum fagfólksins og læt ég svo umræðu um þessa ágætu 18. gr. hér með lokið.

Virðulegur forseti. (JBjarn: … framhaldsskólinn í Mosfellsbæ?) Hér kallar fram í til mín hv. 4. þm. Norðvesturkjördæmis Jón Bjarnason sem vel má eiga það að hafa nefnt framhaldsskóla í Mosfellsbæ á undanförnum þingum (Gripið fram í.) og hann á klárlega sinn þátt í því eins og margur annar að við Mosfellingar höfum fengið framhaldsskóla í okkar sveitarfélag og er það vel.

Í opnu bréfi framhaldsskólakennara til þingmanna segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með fræðsluskyldunni þarf að veita nemendum skilgreindan rétt til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt. Það mundi ráða bót á þeirri miklu námsaðgreiningu nemenda sem ríkir á skólasvæði suðvesturhornsins.“

Virðulegur forseti. Með fullri virðingu fyrir þeim sem skrifa þetta þá er ég þeim algjörlega ósammála, algjörlega ósammála. Landið allt á að vera eitt framhaldsskólasvæði. Nemendur eiga að geta haft val um það í hvaða skóla þeir vilja fara. Að setja upp gamaldags fornaldarhugsunarhátt um hverfisskóla og beina öllum börnum úr sama hverfi þangað er bara ekki hægt. Það get ég fullvissað hv. þingmenn um sem þannig tala og leyfi mér fyrir hönd í það minnsta þeirra nemenda sem ég sem skólastjóri gagnfræðaskólans í Mosfellsbæ útskrifaði að mikið fögnuðu þeir þegar hverfisskólaánauðin var afnumin og þeir gátu valið í hvaða framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu þeir sæktu um. Þeir þurftu síðan að sæta því hvort við þeim var tekið eður ei. En mikið var frelsi þeirra. Að ætla að hverfa aftur til fortíðar er í mínum huga, hæstv. forseti, algjörlega óásættanlegt.

Það er líka pínulítið skondið að fylgjast með öðru. Nú eru sextán ára nemendur sem eru búnir að vera í framhaldsskóla síðan sautjánhundruð og súrkál ólögráða. Þeir hafa verið það undanfarin ár frá því að sjálfræðisaldurinn var hækkaður. En það breytir því ekki, hæstv. forseti, að þetta unga fólk hefur sjálfstæðan vilja. Það veit hvert það vill stefna í sínu námi. Það veit í hvaða skóla það æskir að sækja sitt nám og mér finnst að við eigum að virða það.

Það er hins vegar komið inn í þetta frumvarp foreldraráð. Það hefur aldrei verið áður. Og af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að það eru tveir árgangar í framhaldsskólanum sem ekki hafa náð sjálfræðisaldri og það skiptir foreldra þeirra máli hvernig þeir stunda nám sitt og foreldrarnir geta fylgst með. Það er fagnaðarefni. Þetta er í fyrsta skipti, hæstv. forseti, að inn er sett grein um foreldra og aðkomu foreldra að námi í framhaldsskóla. Dreifing á valdi hér og aðkomu er því með því betra.

Menn hafa rætt náms- og starfsráðgjöf og ekki eru allir á eitt sáttir hvað það varðar. Í 8. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið náms- og starfsráðgjafa, starfsfólks skólasafna og annars starfsliðs framhaldsskóla, eftir því sem við á.“

Það er líka, hæstv. forseti, búið að breyta þessari 37. gr. Það stendur skýrt og skorinort að nemendur eiga rétt á náms- og starfsráðgjöf af þar til bærum sérfræðingum.

Ég get tekið það fram, hæstv. forseti, að ég er hjartanlega sammála því að náms- og starfsráðgjafar eigi að hljóta lögverndun. Hún á hins vegar ekki heima í þessu frumvarpi um framhaldsskóla. Hún á heima á einhverjum allt öðrum stað og það er hálf kjánalegt að bera það hér á borð að ætla að setja það inn með einum eða öðrum hætti.

Hæstv. forseti. Menn hafa hér líka rætt fjárhagsstöðu framhaldsskólans og það er komið inn á það í þessu annars ágæta opna bréfi framhaldsskólaforustunnar. Ég tel að ekki sé hægt að binda það í lög hvernig framhaldsskólinn er fjármagnaður. Það verður að fara fram á öðrum vettvangi. En ég held að við séum flest ef ekki öll sammála því að það þarf að gera vel við framhaldsskólann. Það þarf að hlúa að allri menntun. Á sama hátt og við gerum kröfu til sveitarfélaganna um öflugt grunnskólastarf þá gerum við kröfu til ríkisins um öflugt starf í framhaldsskólum og á háskólastigi.

Virðulegur forseti. Ég verð að leyfa mér að nefna enn eitt í bréfi Félags framhaldsskólakennara þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ráðgert að lengja skólaárið um fimm daga. Af efni frumvarpsins verður ekki ráðið hvað á að gera við þessa daga.“

Með fullri virðingu, hæstv. forseti. Það er algjörlega með ólíkindum að það skuli koma hér krafa til löggjafans um það að þegar skólaárið er lengt hvað eigi að gera við þessa daga. Þetta eru vinnudagar nemenda og kennara og það er skólans að ákveða hvernig hann nýtir þessa daga.

Hæstv. forseti. Ég er hrædd um — ég er ekkert hrædd um, ég veit að ef þessir fimm dagar hefðu verið skilgreindir í eitthvað ákveðið þá hefðu komið ákaflega harðorð mótmæli um valdbeitingu af hálfu löggjafans í innra starf skólans. Það er bara þannig. Þetta er því með ólíkindum, hæstv. forseti.

Það gefur augaleið og það hefur komið fram í umsögnum og það hefur komið fram hér í ræðum þeirra hv. stjórnarandstöðuþingmanna sem hér hafa talað að menn eru ekki á eitt sáttir um þetta framhaldsskólafrumvarp. Ég segi: Það er ekkert skrýtið. Það er verið að gera hér mjög róttækar breytingar á framhaldsskólafrumvarpinu. Ég held að ótti framhaldsskólakennara sem birtist í þessu bréfi og þeim póstum sem við höfum verið að fá, sé óþarfur. Ég held að frumvarpið færi fagfólki skólans upp í hendurnar svo spennandi tækifæri í mótun nýs framhaldsskóla í landinu að mínu mati, hæstv. forseti, að fólk ætti að fagna þessu frumvarpi, að fá tækifæri til að móta nýjan framhaldsskóla með auknu framboði til náms í bóklegum greinum, í verklegum greinum, búa til stúdentspróf sem er á verksviðinu eða á bóklega sviðinu, stúdentspróf sem veitir aðgöngu í fagháskóla og aðra háskóla, efla síðan framhaldsskólaprófið fyrir þá sem hér og nú og í dag eru brottfallsnemendur úr framhaldsskóla. Þeir geta náð sér í þetta svokallaða framhaldsskólapróf sem ég vil svona líkja, hæstv. forseti, við gamla gagnfræðaprófið. Það er skírteini. Það veitir engin sérstök réttindi. En það er skírteini um að viðkomandi hefur lokið þessu námi. Það gefur — sem er nemendum sem falla brott úr skóla afar mikilvægt — það gefur þeim tækifæri að koma inn með skírteini sem sýnir að þeir voru í skóla. Þeir hafa þetta og þeir geta byggt ofan á það sem einu sinni var.

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, þessum fjórum frumvörpum hæstv. menntamálaráðherra. Þetta eru metnaðarfyllstu plögg sem lögð hafa verið fram í skólamálum á Íslandi um langt árabil.