135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[20:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við höfum hér til umfjöllunar frumvarp til laga um framhaldsskóla. Eins og margsinnis hefur komið fram í þessari umræðu er þetta eitt af fjórum frumvörpum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur flutt á sviði skólamála og hafa verið til umfjöllunar í menntamálanefnd nú um nokkurt skeið. Það sem einkennir þetta frumvarp, og skilur það kannski frá hinum frumvörpunum þremur, er einkum að um það er nokkur ágreiningur öndvert við það sem á við um hin frumvörpin þrjú þar sem prýðilega góð samstaða og sátt hefur ríkt. Enda þótt skoðanir séu vissulega skiptar um einstök atriði og sjálfstæðar breytingartillögur sem þar eru á ferðinni hefur sem betur fer reynst unnt að ná fullkominni samstöðu í hv. menntamálanefnd um nefndarálit hvað þau mál varðar. Er miður að það skuli ekki hafa tekist varðandi framhaldsskólafrumvarpið vegna þess að við erum öll áhugasöm um það, ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að efla og styrkja framhaldsskólann. Því má kannski halda fram að framhaldsskólastigið hafi verið veikasta skólastigið okkar um langt skeið og ekki síst sé þörf á því að styrkja og efla það. Í því ljósi er e.t.v. ekki hvað síst miður að ekki skuli takast nægilega breið samstaða um þetta mál.

Ég vil líka gera athugasemd við það sem kom fram í máli hv. formanns menntamálanefndar þegar hann mælti fyrir nefndarálitinu hér fyrr í dag. Eftir að hafa talað um að vel hafi verið unnið í nefndinni — mikil vinna og góð og út af fyrir sig samstaða um vinnubrögð og annað slíkt — klykkti hann út með þeim orðum að hann vildi að þingheimur vissi að þessi frumvörp héngu öll saman og ekki væri hægt að skilja eitt þeirra eftir, það yrði að afgreiða þau öll saman. Ég vil leyfa mér að gera athugasemdir við yfirlýsingar af þessu tagi. Í slíkri yfirlýsingu felst viss hótun við þingið. Það er í raun verið að segja þinginu: Þið skuluð taka allan pakkann eða ekkert.

Að sjálfsögðu er það þingsins sjálfs að ákveða það og mér finnst ósmekklegt að setja málin fram með þessum hætti. Nú kann vel að vera að í huga hæstv. menntamálaráðherra hafi málið verið þannig vaxið og það kom raunar fram þegar hún mælti fyrir þessum málum öllum í desember sl. að hún liti þannig á. Það getur verið viðhorf hennar, eins og þar kom fram, en það verður að vera sjálfstæð ákvörðun þingsins hvernig það kýs að meðhöndla þessi mál. Mér finnst ekki við hæfi að stilla þinginu upp gagnvart einhverjum afarkostum í þessu efni. Það eru ekki þannig tengsl á milli þessara frumvarpa að formlega séð gæti ekki eitt fengið að bíða og hin verið afgreidd. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það nema hugsanlega einhver pólitísk tengsl þessara mála í hugarfylgsnum þeirra sem að þeim standa. Það er ekki boðlegt fyrir þingið að taka við trakteringum af þessu tagi. Ég vil því leyfa mér að gera athugasemdir við þessa framsetningu. Nóg um það, ég ætla ekki að dvelja mikið við það.

Hér hefur talsvert verið farið yfir álit sem við höfum fengið frá Félagi framhaldsskólakennara. Vakið hefur verið máls á því að margar athugasemdir komi þar fram og endurspegli óánægju þeirra með málið. Bent er á fjölmörg atriði sem þau telja að þurfi að laga og þar kemur líka fram að viss slit hafi orðið í vinnu við undirbúning frumvarpsins með því að fulltrúar framhaldsskólakennara hættu að taka þátt í þeirri vinnu. Þetta er afskaplega miður og ég tel að þarna hafi skort á að nægilega mikill pólitískur vilji og ásetningur hafi verið til staðar af hálfu ráðherra. Ég tel að ráðherrann hefði átt að leggja sig betur fram um að reyna að ná sátt og samstöðu við þennan mikilvæga hagsmunahóp. Skólinn er auðvitað ekki bara byggingarnar, hann er einkum og sér í lagi það mikla starf sem fram fer innan veggja þeirra. Hæstv. ráðherra hefði því þurft að leggja meira á sig við undirbúning málsins til þess að ná samstöðu allra hagsmunaaðila. Hið sama má segja um starfið í þingnefndinni. Þegar svona var komið hefðu menn að sjálfsögðu þurft að leggja á sig að ná samstöðu og koma til móts við þær fjölmörgu athugasemdir sem hér eru lagðar fram.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara í gegnum þetta bréf frá Félagi framhaldsskólakennara í neinum efnisatriðum. Það hefur þegar verið gert, m.a. af hálfu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, og ég sé ekki ástæðu til að tvítaka það. Ég nefni þetta vegna þess að ég tel mikilvægt í þessari umræðu að halda því til haga að ekki er nægilega breið samstaða um þetta mál, einkum og sér í lagi skortir á samstöðu við skólasamfélagið eins og fram kemur í fjölmörgum athugasemdum sem fram hafa komið við frumvarpið. Þegar hefur t.d. verið vísað til og vitnað í umsagnir frá Kennaraháskóla Íslands og frá Háskóla Íslands. Ég fæ ekki séð að hægt sé að halda því fram að það séu einhverjir lítilvægir aðilar að þessu máli nema síður sé. Í mörgum þessara umsagna, bæði frá þeim sem gagnrýna mörg atriði frumvarpsins og líka frá þeim sem leggja til að afgreiðslu þess verði frestað, koma þó fram jákvæðar umsagnir um meginmarkmið frumvarpsins. Það kemur einnig fram í nefndaráliti minni hlutans frá hv. þingmönnum Kolbrúnu Halldórsdóttur og Höskuldi Þórhallssyni að í markmiðinu í frumvarpinu, eins og það er sett fram, sé margt gott. Það er að sjálfsögðu rétt að halda því til haga sem vel er gert í þessu efni.

Býsna mikil athygli hefur beinst að umræðunni um stúdentsprófið sjálft og þær kröfur sem gerðar eru varðandi það, einingafjölda o.s.frv. Ég hlustaði með nokkurri athygli á hv. þm. Guðbjart Hannesson þegar hann fór yfir það mál. Ég skal viðurkenna að ég ber mikla virðingu fyrir honum sem skólamanni og veit að hann þekkir þau mál býsna vel þó að hann hafi starfað á grunnskólastiginu. Engu að síður finnst mér ekki fyllilega svarað þeirri gagnrýni sem á þetta atriði hefur komið frá umsagnaraðilum. Má m.a. benda á umsögn frá Kennaraháskóla Íslands þar sem segir hvað þetta atriði snertir, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn“ — þ.e. starfshópur Kennaraháskólans sem hefur unnið umsögn um málið — „telur að menntamálaráðuneytinu beri að gera skýrari grein fyrir því hvernig gæði stúdentsprófs verða tryggð. Enn fremur má telja eðlilegt að viðmið séu í lögum um lágmarksfjölda eininga til stúdentsprófs. Í frumvarpinu er einungis kveðið á um 45 námseiningar að lágmarki eða innan við eins árs nám. Til samanburðar er tilgreint að fjöldi námseininga til framhaldsskólaprófs skuli vera 90–120 einingar eða eins og hálfs til tveggja ára nám. Varla er ætlunin að stúdentspróf verði minna að umfangi en framhaldsskólapróf.“

Hér er sem sagt vakin athygli á því að það sé ekki nægilega vel rökstutt og þetta er eitt af þeim stóru ágreiningsmálum sem uppi eru í málinu og kemur einnig ágætlega fram í nefndaráliti minni hlutans. Þetta álitamál og ágreiningur um það kemur einnig fram í fleiri umsögnum og m.a. í áðurnefndu bréfi frá Félagi framhaldsskólakennara.

Mig langar líka að fara aðeins yfir athugasemdir sem hafa borist frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga við frumvarpið. Ekki hefur mikið verið fjallað um þau mál en þar eru að sjálfsögðu nokkur álitaefni uppi. Mig langar að dvelja við nokkur. Vakin er athygli á því ákvæði í 4. mgr. 45. gr. þar sem kveðið er á um gjaldtöku vegna náms sem framhaldsskólanemar stunda utan reglubundins starfstíma og í fjarnámi. Það kom m.a. fram af hálfu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar — ef ég skildi hann rétt er þetta eitt af þeim atriðum sem hann hafði nokkrar áhyggjur af og hefði viljað sjá með öðrum hætti. Ég velti því fyrir mér hvað það er sem kemur í veg fyrir að það atriði sé lagað ef bæði hv. þm. Guðbjartur Hannesson og aðrir fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd — ég geng út frá því að þeir séu sama sinnis — nema ef hugsanlega er þá andstaða hins stjórnarflokksins? Þarna er sem sagt verið að tala um gjaldtöku vegna fjarnáms. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„... ljóst er að það getur verið valkostur fyrir íbúa í dreifbýli, þar sem langt getur verið í næsta framhaldsskóla, að stunda fjarnám. Má spyrja hvort það sé í samræmi við stefnu stjórnvalda í byggðamálum að þeir nemendur sem kjósa fjarnám verði að greiða hluta kennslukostnaðar.“

Mér finnst þetta vera mjög þýðingarmikil athugasemd vegna þess að meginhugmyndin er jú sú að kennslan í framhaldsskólanum sé endurgjaldslaus fyrir nemendur en hér er verið að ákveða að hægt sé að taka gjald fyrir kennslu sem fer fram í fjarnámi. Þetta skapar augljóslega ójafnræði milli nemenda sem eiga þess kost að stunda dagskóla og hinna sem ekki eiga kost á því eða kjósa af ýmsum ástæðum að stunda nám í fjarnámi.

Ekki eru framhaldsskólar í öllum byggðarlögum nema síður sé og við viljum gjarnan stuðla að því að nemendur geti verið heima eins lengi og unnt er. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir fjölskyldu að senda ungmenni í framhaldsskóla í heimavist eða þar sem þau þurfa að búa á nemendagörðum. Þess vegna kjósa margir að nýta sér fjarnám þar sem það er í boði og hefur sá möguleiki verið að færast í vöxt, sífellt fleiri bjóða nú upp á fjarnám. Ég held að það sé ákaflega jákvæð þróun og er sannfærður um að allir taka undir það. En á sama tíma skýtur skökku við að mínu mati að tekið verði gjald fyrir kennslu í fjarnámi eins og frumvarpið gerir í raun og veru ráð fyrir. Ég hef þess vegna áhuga á að fá vitneskju um það frá fulltrúum stjórnarflokkanna í menntamálanefnd hvort þeir séu ekki sammála mér um að óeðlilegt sé að standa þannig að málum.

Sveitarfélögin gera athugasemdir við kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga og vísa þar í 47. gr. frumvarpsins. Það er auðvitað ekki nýtt umræðuefni hér í sölum Alþingis og alls ekki nýtt yfirleitt að rætt sé um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ekki bara í skólamálum heldur í hvaða öðrum málum sem er og varða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Í umsögn sambandsins segir, með leyfi forseta:

„Sambandið er andvígt ákvæði 47. gr. frumvarpsins og leggur til að sveitarfélögin verði leyst undan áframhaldandi greiðsluþátttöku í stofnkostnaði framhaldsskóla.“

Þau telja að þetta sé tímaskekkja og geta ekki fellt sig við að gert sé ráð fyrir óbreyttri kostnaðarþátttöku eða hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði framhaldsskóla. Þau vísa líka til þess að á undanförnum árum hefur heilmikið verið rætt um það og reynt að grisja, ef svo má segja, þessi gráu svæði í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga þar sem báðir aðilar koma með fjármuni að sama verkefninu. Auðvitað er það nokkuð umdeilt. Sumir telja að það sé ekki endilega til trafala. En ég er þeirrar skoðunar og ég er sammála áliti Sambands ísl. sveitarfélaga hvað þetta atriði varðar og sannfærður um að hæstv. forseti er sammála mér í því efni, að frekar eigi að fækka þessum gráu svæðum, hafa skilin tiltölulega skýr en hér er engin tilraun gerð í því efni. Þvert á móti er haldið í sömu gömlu kostnaðarskiptinguna. Það er meira að segja líka gert ráð fyrir því að hlutdeild sveitarfélaganna sé ekki tiltekið hlutfall af einhverjum raunkostnaði heldur sé um að ræða einhver viðmið sem ríkisvaldið setur einhliða. Það er í raun og veru ríkið sem ákveður það að viðmið eigi að gilda við stofnkostnað framhaldsskóla og svo verða sveitarfélögin að borga tiltekið hlutfall af því.

Sömuleiðis bendir Samband ísl. sveitarfélaga á að það sé óeðlilegt að sveitarfélögunum sé gert að leggja til lóð undir framhaldsskóla. Um þetta geta auðvitað verið skiptar skoðanir. Í mínum huga er ekkert endilega ósanngjarnt að sveitarfélögin leggi til lóðir undir samfélagslega starfsemi, undir starfsemi sem nýtist í þeirra byggðarlagi og í samfélaginu. En vitaskuld má líka færa rök fyrir hinu sem hér er gert í áliti sambandsins að ekki eru allir framhaldsskólar í eigu ríkisins eða sveitarfélaganna. Þeir geta verið í eigu einkaaðila og er þá eðlilegt að sveitarfélagið leggi fram lóð, sem er auðvitað verðmæti í sjálfu sér, t.d. til einkaaðila? Er ekki að minnsta kosti eðlilegt að verðmæti lóða sé reiknað upp í hlut sveitarfélaganna í stofnkostnaði? Það finnast mér vera fullgild rök af hálfu sambandsins sem ég hefði talið að hefðu gjarnan mátt koma inn í frumvarpið í meðförum nefndarinnar.

Sömuleiðis er hér bent á að sú staða kann auðvitað að vera uppi að sveitarfélögin eigi ekki lóðir, að minnsta kosti ekki hentugar lóðir fyrir framhaldsskóla. Þær þurfi jafnvel að kaupa þá lóð á markaðsverði til þess að uppfylla skilyrði þessara laga. Það sjá allir í hendi sér að það er orðið dálítið umhendis.

Í þriðja lagi nefnir Samband ísl. sveitarfélaga ósamræmi á milli krafna sem eru gerðar í tilteknum atriðum á milli framhaldsskólafrumvarpsins annars vegar og grunnskólafrumvarpsins hins vegar. Hér er m.a. vísað til þess þar sem fjallað er um rétt nemenda til sérfræðiþjónustu í 34. gr. frumvarpsins. Þar stendur nú eins og hér segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Framhaldsskólar skulu leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sérstaka námsörðugleika að stríða eða veikindi.“

En í grunnskólalögunum í frumvarpinu er sagt að sveitarfélögum sé ætlað að tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum. Hér er augljóslega ríkið eina ferðina enn að leggja miklu strangari kröfur á sveitarfélög til að veita þjónustu á þessu sviði heldur en ríkið gerir við sjálft sig í framhaldsskólanum. Ég er þeirrar skoðunar að þetta ákvæði eigi að standa eins og það er í grunnskólanum. Það eigi að tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólanum. Ég tel enga ástæðu fyrir því að skylda ríkisins, þess sem rekur framhaldsskólann, skuli ekki vera með sambærilegum hætti, að veita nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.

En þetta er ekki eina dæmið um að ríkið reyni að koma sér undan ábyrgð eða skyldum eða fjárhagslegum útgjöldum á sama tíma og það leggur byrðar á aðra aðila og í þessu tilfelli er ég að ræða um hin fjárhagslegu samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það finnst mér mjög óeðlilegt og þegar ég hugsa til þess að í menntamálanefnd eru ýmsir ágætir sveitarstjórnarmenn, fyrrverandi og núverandi, þá er ég undrandi á því að ekki hafi verið tekið tillit til þessara atriða úr umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga og að þau hafi ekki ratað inn í breytingartillögur meiri hlutans. Það finnst mér miður.

Ég ætla síðan að víkja að gjaldtökunni almennt í framhaldsskólunum, efniskostnaði og námsgagnakostnaði. Ég vil vekja athygli á því og rifja það upp að ég hef ásamt þingmönnunum Katrínu Jakobsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Jóni Bjarnasyni flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla sem er á þingskjali 53. Það var lagt fram hér fljótlega í upphafi þings og var mælt fyrir því. Því var svo vísað til hv. menntamálanefndar. Nú er mér ekki kunnugt um hvort nefndin hefur fjallað um þetta frumvarp yfirleitt eða t.d. í tengslum við umfjöllun sína um framhaldsskólafrumvarpið. En í frumvarpi okkar gerum við ráð fyrir því að skýrt sé kveðið á um að eins og segir þar í 2. gr., með leyfi forseta:

„Kennsla í framhaldsskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Ríkinu er skylt að leggja til og kosta kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár. Opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.“

Þetta er sem sagt breytingarfrumvarp sem ég er fyrsti flutningsmaður að og mér hefði fundist eðlilegt að kæmi inn í þessa endurskoðun á framhaldsskólafrumvarpinu. Í greinargerð með þessu frumvarpi minnum við á það og rifjum það upp sem reyndar hefur nú þegar verið gert hér í umræðunni um þetta frumvarp að þetta er atriði sem var talsvert til umræðu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Það voru fleiri flokkar sem höfðu þetta á stefnuskrá sinni og ég leyfi mér að vísa í greinargerð með frumvarpi okkar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sambærileg markmið rötuðu inn í kosningastefnuskrá annarra flokka. M.a. segir í kosningastefnu Samfylkingarinnar í menntamálum: „Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum og fella niður innritunar- og efnisgjöld.““

Þetta segir nú í kosningastefnu Samfylkingarinnar í menntamálum.

Samfylkingin sýnir ekki neinn árangur í þessu efni, við höfum gagnrýnt það bæði hvað varðar þetta frumvarp og í þessari umræðu hér. Það er eins og hún hafi algjörlega lekið niður með kosningastefnumál sín sem mörg hver voru mjög metnaðarfull og hefði áreiðanlega getað tekist breið samstaða um og er örugglega þingmeirihluti fyrir í ýmsum atriðum. En hún lætur sig hafa það að una því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem ekki hefur meiri hluta hér á Alþingi, ráði ferðinni.

Þetta finnst mér afskaplega dapurlegt og hlýtur að vera eitthvað sem við munum halda til haga í umræðunni áfram. Þegar við fjöllum um þetta mál og fleiri skyld mál mun því auðvitað verða haldið til haga og lögð á það áhersla að það er ekki nóg að koma með fögur fyrirheit í kosningastefnuskrám ef menn hafa litla tilburði til þess að hrinda þeim í framkvæmd, fái menn til þess styrk.

Að lokum ætla ég að nefna árafjöldann til stúdentsprófs. Hér hefur verið vakið máls á því að það sé viss ótti við að verið sé að stytta nám til stúdentsprófs. Við vitum að það voru uppi hugmyndir um það og hæstv. menntamálaráðherra hafði þá skoðun og hafði lýst henni að hún vildi stytta nám til stúdentsprófs. Það mætti mikilli andspyrnu, að minnsta kosti með þeim hætti sem hún kynnti málið. Ég veit að í hugum margra er tortryggni gagnvart því að hér sér verið að fara þá leið, m.a. vegna þess að ekki er tilgreindur námseiningafjöldi til stúdentsprófs.

Ef það er eins og hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið að lýsa að búið sé að setja undir þennan leka, að ekki eigi að stytta nám til stúdentsprófs, þá hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju má það þá ekki standa í lögunum með algjörlega afdráttarlausum og skýrum hætti? Þegar því er svarað að þess sé ekki þörf þá er það í raun og veru ekkert svar í sjálfu sér. Ef menn mundu t.d. fella tillögu þar að lútandi væri með því verið að gefa þá yfirlýsingu að ekki sé vilji fyrir því að binda það niður, þ.e. að ekki sé verið að stytta nám til stúdentsprófs. Mér finnst því að stjórnarliðar hafi alls ekki svarað þeirri gagnrýni með sannfærandi hætti og áhyggjur manna hvað þetta atriði varðar eru enn til staðar.

Frú forseti. Ég ítreka að ég hefði talið ákaflega þýðingarmikið að um framhaldsskólafrumvarpið hefði getað náðst samstaða. Ég er sannfærður um ef menn leggja sig fram þá er það enn þá hægt. Það er engin þörf á að spyrða þetta frumvarp saman við önnur frumvörp menntamálaráðherra. Það er engin slík tenging á milli þessara mála þannig að það skapi einhverja hættu þó að eitt frumvarpanna sitji eftir og fái frekari skoðun og umfjöllun í sumar. Þess vegna er hægt að ljúka því í góðri sátt í september ef menn vilja ná samstöðu og vilja taka tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda sem enn þá eru frá fagaðilum, frá skólasamfélaginu, frá starfsfólki í þessu máli. Það er ekki bara stjórnarandstaðan hér á þingi sem hefur haft við þetta verulegar athugasemdir heldur eru svo fjölmargir í skólasamfélaginu sem einnig gera athugasemdir. Stjórnarflokkarnir ættu auðvitað að sjá sóma sinn í því að sýna öllu þessu fólki þá virðingu að reyna að koma til móts við athugasemdir þeirra. Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.