135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:38]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan þá tek ég þessari beiðni hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, vel. Ég vil ekki svara henni hér og nú afdráttarlaust vegna þess að ég vil ráðfæra mig við félaga mína í nefndinni áður en slík ákvörðun verður tekin. En ég bregst vel við beiðni formanns Framsóknarflokksins.

Á móti ætla ég að bjóða hv. þm. Guðna Ágústssyni að fá möppuna mína lánaða með öllum gögnum málsins þannig að hann geti eytt helginni í sunnlenskum sveitum við að lesa allar þær umsagnir sem við höfum farið í gegnum. Ég veit að það verður mikil skemmtilesning fyrir hv. þingmann enda er þar mikinn fróðleik að finna um framhaldsskólann. Við viljum veg hans sem mestan. Við eigum það sameiginlegt, hygg ég, ég og hv. þingmaður, og það er markmiðið með þessu öllu að finna einhverjar leiðir til að efla og styrkja framhaldsskólann. Það eigum við sameiginlegt.