135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:39]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera hv. þingmanni grein fyrir því, sem hann veit auðvitað, að Framsóknarflokkurinn hefur átt sinn ágæta fulltrúa, hv. þm. Höskuld Þórhallsson, í nefndinni. Hann hefur örugglega af vandvirkni sinni og áhuga fyrir skóla og námi lesið allar þessar umsagnir.

Það er sagt að það sé vandamál stjórnmálamanna um allan heim að með aldrinum verði þeir ólæsir. Ég er sem betur fer ekki orðinn ólæs en annar eiginleiki er mjög mikilvægur og það er að kunna að hlusta, að hlusta á þjóð sína, fólk sitt, athugasemdir. Þann eiginleika hef ég ræktað með sjálfum mér. Ég hef lesið margar af þessum athugasemdum, kjarna þeirra, og veit um hvað málið snýst, hef sett traust mitt á minn mann, Höskuld Þórhallsson, og treysti formanni nefndarinnar afburðavel til þess að leysa þetta mál áfram.

Ég mun hins vegar ferðast um sunnlenskar sveitir á morgun, fara austur undir Eyjafjöll, þannig að ég er bundinn yfir öðrum verkefnum. En ég þakka svör hv. formanns og drengilega framgöngu undir lok þessarar umræðu sem boðar mér það eitt að málið sé að færast í betri höfn eftir umræður dagsins.