135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:43]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að ég átti ekki við að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefði haft hér léttúð í frammi eða gert lítið úr athugasemdunum. Ég hlustaði með athygli á ræðu hans eins og ég hef gert þegar hann flytur ræður um menntamál og viðurkenni að hún var mjög ábyrg.

Aðrir sem tóku þátt í þessari umræðu úr öðrum flokkum, bæði úr hans flokki og Sjálfstæðisflokknum, gerðu hins vegar mjög lítið úr þessum athugasemdum í upphafi málsins. Mér finnst að menn hafi náð áttum þegar leið á daginn og umræða hafði staðið lengi af hálfu okkar framsóknarmanna og vinstri grænna, menn hafi áttað sig á því að alvara væri á ferð.

Ég finn það hjá hv. þingmanni og eins hjá formanninum, eins og ég hef farið hér yfir, að þeir hafa áttað sig á því að þeim ber að taka mark á þessum athugasemdum og fara yfir þær. Ég mundi fagna því ef menn gætu leyst það sem best yfir helgina. Það er þá skylda nefndarinnar að setjast yfir það og leysa það með nýjum hætti. Ég skora á hv. þingmann, formann nefndarinnar, og nefndarmenn að sitja við lestur og skyldustörf og gá hvar hægt er að koma enn frekar til móts við þessi sjónarmið.

Ég þakka fyrir það að öll stefnuatriði Framsóknarflokksins, úr stefnuskrá hans í síðustu kosningum, hafa komist inn. En lífið er nú þannig að þegar einum áfanga er náð þá horfa menn til nýrra markmiða. Það hefur Framsóknarflokkurinn gert í sinni sögu og þróunin í menntamálum er það ör að þar sjáum við nýjar og nýjar sólir og ný tækifæri koma upp á himininn nánast í hverjum mánuði. Þar er starfið eilíft að fylgjast með (Forseti hringir.) nýjum tímum til þess að þjóðin standist þær kröfur sem við gerum til hennar, að hún verði áfram í fremstu röð.