135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um framhaldsskóla þar sem verið er að leggja fram heildstæða endurskoðun á lögum um framhaldsskóla. Að sjálfsögðu er margt gott um þetta frumvarp að segja þó að ýmislegt megi benda á sem betur mætti fara.

Ég vil byrja á því að segja í upphafi, frú forseti, að meginhlutann af starfsævi minni hef ég verið við kennslu eða rekstur skóla og eitt af mínum stærstu og mestu hugðarefnum eru einmitt menntamálin. Ég minnist þess þegar ég sem ungur maður fór að kenna — ég hafði lokið námi í menntaskóla og gerði eins og títt var á þeim dögum hlé á námi og fór út á starfsvettvanginn — og þá kenndi ég einn vetur eftir menntaskóla í þeim ágæta bæ Hafnarfirði. Ég kenndi þar bæði í barnaskóla og framhaldsskóla, (Gripið fram í: Og varst ekki krati.) og var ekki krati, og ég verð að segja að það starf varð mér afar lærdómsríkt. Síðan hef ég kennt við hina ýmsu skóla, við landbúnaðarskóla, fjölbrautaskóla og loks stóð ég fyrir námi og rekstri í Landbúnaðarskólanum að Hólum í Hjaltadal. Meginhluti ævi minnar hefur því tengst þessum málum.

Það er eitt sem ég hef líka lært af þessu, frú forseti, og það er hve mikilvægt er að hlusta á starfsfólkið, að taka ætíð mið af því sem kennarar og aðrir starfsmenn leggja til því að í fáum stéttum er meiri metnaður fyrir starfi en einmitt meðal kennara. Reyndar er það almennt svo hjá öllu fólki sem kemur nálægt kennslu og umönnunarstörfum en ekki hvað síst hjá kennurum. Þess vegna tel ég afar mikilvægt í þeirri vinnu sem hér er unnin að tekið sé mark á því sem kennarar leggja til. Því vil ég í upphafi vísa til bréfs frá Félagi framhaldsskólakennara og reyndar fleiri þar sem þeir leggja fast, eins og segir í lok bréfs þeirra, frú forseti, og hefur verið ítarlega gerð grein fyrir í umræðum á þinginu í dag, „að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla. Næstu mánuði ætti að nota til þess að sníða af frumvarpinu helstu gallana og ná sáttum um þessi mikilvægu mál. Eru kennarasamtökin fús sem fyrr að leggja góðum málefnum lið.“

Mér finnst það ábyrgðarhluti ef meiri hluti Alþingis, þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, ætlar að hunsa þessi tilmæli, ætla að hunsa þessar einlægu óskir sem Félag framhaldsskólakennara ber fram og reyndar fleiri aðilar sem koma að kennslu. Það er ekki svo að þeir gagnrýni alla þætti frumvarpsins en hins vegar séu í því atriði sem þeir vilja að verði skoðuð nánar. Því er það mikill hroki og mikið ábyrgðarleysi ef meiri hlutinn, þingflokkar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, ætlar að hafa óskir og ábendingar þess hóps sem er ábyrgur fyrir hinu daglega starfi framhaldsskólanna að engu. Ég óska þess að hv. þingmaður og formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, rati ekki í þá ógæfu.

Önnur atriði sem ég ætla að minnast á í frumvarpinu er í fyrsta lagi um nálgun þess. Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið, hlutverk og yfirstjórn. Í II. kafla eru rakin ýmis tæknileg atriði, fjallað um stofnun framhaldsskóla, skólanefndir, skólameistara, skólaráð, starfslið framhaldsskóla, skólafundi og kennarafundi. Í III. kafla er fjallað m.a. um viðurkenningar skóla, um skólameistara og kennara, í IV. kafla um skipulag náms og námslok, í V. kafla um námsbrautir og námskrár. En það er ekki fyrr en í VI. kafla sem minnst er á nemendur, þar sem nemendur koma allt í einu fram sem einhver þáttur í þessu frumvarpi.

Að mínu viti á að nálgast menntunarmál út frá nemandanum, ekki út frá stofnuninni eða umgjörðinni. Hér er þetta lagt upp þannig að fyrst er gerð grein fyrir kerfinu, síðan fyrir stofnuninni og í þriðja eða fjórða lagi fyrir nemendunum. Þetta er að verða mjög algild nálgun í því stofnanavædda umhverfi sem við búum við þar sem lögin verða til á embættismannaborðunum að stórum hluta. Maður fær því á tilfinninguna að nemendurnir eigi að vera til fyrir stofnanirnar. Ég er ekki sammála þeirri nálgun. Ég tel, og ég sagði það sama um grunnskólann í gær og það sama sögðum við líka um leikskólann, að það sé réttur nemendanna, staða nemendanna sem eigi að koma fram í I. kafla og umgjörðin á eftir.

Ef við leggjum þetta upp eins og hér er gert, að kerfið sé númer eitt, stofnunin númer tvö og nemendurnir númer þrjú, þá lendir maður í þeirri hugsjónaflækju sem frumvarpið ber með sér í heild sinni og er hinn stóri veikleiki þess. Þar er afar sjaldan minnst á menntun, minnst er á fræðslu, á skólaskyldu og þess háttar. Í mínum huga á þetta mál að snúast um menntun. Menntun snýst um að mennta sig og það er hægt að gera á ýmsan hátt. Menntun er að gera fólk að manni eins og sagt var og að því marki eiga þessi lög að stefna. Ég hefði viljað sjá menntunarmarkmiðið sem hinn rauða þráð í gegnum frumvarp sem þetta en menntastefnan sem slík birtist ekki í þessu frumvarpi heldur er það fyrst og fremst meira tæknilegs eðlis. Það má vel vera að það sé einmitt hlutverk þess.

Þetta vildi segja í upphafi að mér finnst að hin hugmyndafræðilega nálgun eigi að vera á þann veg að menn setji nemandann í öndvegið, réttindi hans og skyldur, og síðan hugtakið menntun. Að öðru leyti langar mig að snúa mér að einstaka þáttum. Ég vil þó fyrst víkja að því að eitt fyrsta þingmálið sem bæði ég persónulega sem þingmaður og Vinstri hreyfingin – grænt framboð lögðum fram haustið 1999 var tillaga til þingsályktunar um tólf ára samfellt grunnnám sem var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að tryggja um allt land framboð á samfelldu námi til átján ára aldurs. Námið verði skipulagt þannig að ungt fólk innan sjálfræðisaldurs alls staðar á landinu geti stundað nám daglega frá heimili sínu. Hluti þess verði starfstengdur og þá jafnframt höfð hliðsjón af umhverfi og atvinnu- og menningarlífi viðkomandi byggðarlags. Náminu ljúki formlega með námsgráðu, en endurskoðað verði skipulag annars framhaldsnáms, tæknináms og sérnáms auk háskólanáms með tilliti til þessara breytinga grunnnámsins …“

Þegar sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár var það svo augljóst að verið var að undirstrika þá kröfu að barn eða unglingur væri á forræði foreldra sinna a.m.k. til 18 ára aldurs. Þá var jafnframt eðlilegt að gera þá kröfu númer eitt að menntakerfið yrði byggt upp þannig að það væri réttur nemandans og fjölskyldunnar að hann gæti sótt nám heiman að frá sér til 18 ára aldurs, það yrðu hrein undantekningartilvik ef svo væri ekki.

Þetta er ekki gert og ekki er minnst á þennan rétt nemandans eða fjölskyldunnar í þessu frumvarpi og það tel ég vera mikinn veikleika. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt gríðarlega mikla áherslu á þennan rétt nemandans, þennan rétt samfélagsins og fjölskyldunnar að nemandinn geti sótt nám heiman að frá sér að minnsta kosti til 18 ára aldurs. Ég hefði viljað sjá það fara inn sem hluta af markmiðssetningu laganna, hluta af því sem þau yrðu að starfa eftir. Í kjölfar áðurnefndrar þingsályktunartillögu flutti ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þingmál um eflingu framhaldsskólans. Ég lagði fram frumvarp m.a. um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi, reyndar líka við utanverðan Eyjafjörð og á Patreksfirði og Hólmavík. Ég man eftir þessu vegna þess að þetta voru ein fyrstu málin sem ég lagði fram. Þetta þótti fráleitt þá. Ég minnist þess að þáverandi menntamálaráðherra fór frekar háðulegum orðum um þær áherslur sem ég var með þarna og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Það tókst með mikilli hörku að fá það í gegn að ráðist yrði í stofnum framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Það var líka fyrir eindreginn stuðning heimafólks þar sem það tókst. Það var ekki fyrir hvatningu eða baráttu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins þá og þáverandi menntamálaráðherra. Það skal bara segjast eins og er. En þeir eiga heiður skilið, Snæfellingar, fyrir það hvernig þeir tóku að sér málin en þar held ég einmitt að hafi skipt sköpum framhaldsdeildin í Stykkishólmi sem var rekin með miklum myndarbrag þangað til framhaldsskólinn á Snæfellsnesi var stofnaður. Í sama dúr eru nú fluttar tillögur um fleiri framhaldsskóla, um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og einnig um framhaldsskólanám á Patreksfirði. Fleiri dreifbýl byggðarlög leitast nú við að byggja upp og koma á slíku námi þannig að unglingar geti sótt nám heiman að frá sér eins og eðlileg mannréttindi hljóða upp á.

Ég hefði talið að í frumvarpinu ætti að koma orðið mannréttindi. Það eru mannréttindi að fá að sækja nám og mennta sig, en geta samt búið heima hjá sér. Það að skilja þetta atriði eftir svo utanveltu í frumvarpinu finnst mér spegla að þeir sem leggja þessi frumvörp fram á þennan hátt átti sig ekki eða vilji ekki viðurkenna þann veruleika sem við búum við, að fjöldi fólks á ekki möguleika eins og nú er á að stunda nám heiman að frá sér til 18 ára aldurs en það ætti að vera skýlaus krafa og ætti að vera tekið á því í lögum. En þetta tel ég veikleika og hefði viljað sjá þetta koma fram.

Þá hefði ég líka viljað sjá tekið fastar á þeim rétti nemenda til að sækja framhaldsskólanám til 18 ára aldurs á jafnréttisgrunni hvað kostnað varðar. Það er heldur ekki nefnt í frumvarpinu að tryggja jafnrétti nemenda til náms. Þar skortir mikið á að svo sé.

Frumvarp sem tekur á framhaldsskólanámi fyrir ungt fólk til 18 eða 20 ára aldurs en kveður ekki skýrt á um þennan þátt eða setur þá kröfu á framkvæmdarvaldið að tryggja jafnrétti til náms hvað varðar kostnað, er ekki frumvarp sem tekur á þeim þáttum sem það á að gera. Ég hefði viljað sjá þetta með tryggingu og jafnrétti til náms í frumvarpinu.

Ég vil minna á skýrslu sem var unnin á árunum 2005–2006 af starfshópi sem skipaður var fyrir nám á framhaldsskólastigi á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem heimafólk stóð að því að skipa nefnd til að gera úttekt á þeirri stöðu sem ungt fólk á sunnanverðum Vestfjörðum stóð frammi fyrir varðandi framhaldsnám. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, sem var þá aðstoðarskólastjóri grunnskóla Borgarfjarðarsveitar en var búin að vinna lengi á Tálknafirði við skólann þar og er nú skólastjóri á Varmalandi í Borgarfirði, var ráðin sem verkefnisstjóri. Þar var gerð ítarleg úttekt á þeirri stöðu sem ungt fólk stendur frammi fyrir á þeim stöðum þar sem ekki er slíkur skóli í heimabyggð, hvað það kostar að senda unga fólkið burt.

Þó að ekki sé tekið neitt tillit til þeirrar miklu skerðingar á mannréttindum eða á rétti fjölskyldulífs að senda fólk burt þá var farið ítarlega í þessa kostnaðargreiningu. Sem dæmi upp úr þeirri ágætu skýrslu sem Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, vann má nefna að fram kemur m.a. að útgjöld við að senda nemendur í framhaldsskóla eru vegna ferðakostnaðar, mötuneytiskostnaðar, húsaleigukostnaðar og beinna gjalda. Ekki er tekinn efniskostnaður, ekki námsefniskostnaður heldur beinn aukakostnaður sem þarna er. Þetta er árið 2006. Til dæmis kosta þættir vegna Menntaskólans á Akureyri um 615 þús. kr. yfir skólaveturinn, kostnaður við ferðir, sem eru þá um haustið, jólin og vorið, einnig fæði og húsnæði. Ef senda þyrfti nemanda frá Patreksfirði til Menntaskólans í Kópavogi kostaði það um 1.100.000 þús. kr. miðað við þær tölur sem voru staðreyndar tölur. Við Fjölbrautaskóla Snæfellinga kostaði það nokkuð minna.

Þessi gríðarlega mismunun sem fólk býr við er beinlínis til þess að skapa misrétti og ójöfnuð á rétti til náms. Þó að nokkrar greiðslur séu í gegnum jöfnun námskostnaðar vegur það engan veginn upp í þann kostnað sem um er að ræða. Til viðbótar kemur síðan annar almennur framfærslukostnaður, eins og námsefniskaup og annar kostnaður við daglegt líf. Á þessu er ekki tekið í frumvarpinu og það tel ég vera mikinn ágalla. Ég vil því spyrja hv. formann menntamálanefndar hvers vegna ekki var sett inn setning sem tryggði jafnrétti og að tekið yrði á þeim kostnaðarmun sem er vegna búsetu.

Hvernig verður svo staðan? Jú. Þetta er sjálfsagt einn stærsti atvinnuvegur í Reykjavík, þ.e. bygging og leiga á húsnæði fyrir ungt fólk utan af landi. Frumvarp sem á að taka á framhaldsskóla en ekki tekur á þessu máli er í rauninni ekki heildstætt frumvarp og skilur eftir stóra hluta landsins áfram utan við það jafnrétti sem lög ættu að kveða á um.

Ég get nefnt dæmi. Með uppbyggingu í framhaldi af þessu var byggð upp framhaldsdeild á Patreksfirði. Ráðist var í tilraunaverkefni með uppbyggingu framhaldsdeildar á Patreksfirði í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og sett upp prógramm. Jú. Mikill metnaður og mikill áhugi. Vissulega kom menntamálaráðuneytið að því af góðum áhuga en þó vantaði eftirfylgnina, finnst mér, því enn er verið að togast á um kostnað við að koma upp og útbúa húsnæði á Patreksfirði fyrir námið sem fram fer þar. Þetta skólahald er þó á ábyrgð ríkisins. En vegna þess hve mikill ákafi og áhugi í sveitarfélögum er til að koma náminu á er gengið mjög á þau með að leggja fram kostnað sem annars að mínu mati ætti að heyra til ríkisins.

Uppbygging framhaldsskólanámsins á Patreksfirði í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Grundarfirði byggði m.a. á góðum samgöngum þangað yfir. Það var flóabáturinn Baldur sem hefur séð um það. Nú er stefnt að því að skera niður ferðir flóabátsins Baldurs. Verði farið að þeim líkum sem stjórnvöld stefna að þá er þessu skólasamstarfi stefnt í hættu. Svona er nú skammsýnin mikil, herra forseti, í þessum efnum. Þegar verið er að gera þá aðgerð að skera niður ferðir flóabátsins Baldurs, sem stefnt er að verði skornar niður á næstu missirum, þá eru menn líka að hafa áhrif á þessa þróun. Í þetta lagafrumvarp ættu að koma skilyrðislaus ákvæði um að menntun yrði tryggð á jafnréttisgrunni um allt land en alls ekki mismunun hvað kostnað varðar og hvað ætti að leggja á sig í þeim efnum.

Annað mál sem ég vil líka víkja að er tónlistarnám. Tónlistarnám er mikilvægur þáttur í allri menntun og mörg sveitarfélög leggja mikinn metnað í að reka tónlistarskóla eða standa að tónlistarnámi með einum eða öðrum hætti innan sinna vébanda. Þegar síðan kemur að framhaldsskólanum er búin að vera nokkurra ára togstreita á milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar um hver skuli bera kostnað af tónlistarskólanámi, meira að segja námi sem er hluti af hinu almenna framhaldsskólanámi. Þetta mál hefur ítrekað verið tekið upp á Alþingi. Ég er með fyrirspurn frá árinu 2005 til þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þar sem ég beini fyrirspurn til ráðherrans um jafnrétti til tónlistarnáms, þ.e. hvort ráðherra hyggist tryggja kennslu og kostnað við tónlistarnám á grunn- og framhaldsstigi og með því jafnrétti til tónlistarnáms óháð búsetu og efnahag til jafns við annað nám samkvæmt opinberum námskrám.

Það var samkomulag, bráðabirgðasamkomulag sem gilti fyrir skólaárið 2004–2005, milli menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem mátti framlengja áfram fyrir skólaárið 2005–2006, þar sem ríkissjóður skuldbatt sig til að koma að greiðslu kostnaðar við tónlistarnám á framhaldsskólastigi. Þessi samningur hefur ekki verið endurnýjaður frá árinu 2006. Frá þeim tíma hafa nemendur orðið að borga í mörgum tilfellum tónlistarnám sitt ef þeir hyggjast taka tónlistarnám sem hluta af námi við framhaldsskóla.

Í svari menntamálaráðherra þá, árið 2006, sagði hún að vissulega væri togstreita þarna á milli en hét því að þá væri bara örstutt tímaspursmál hvenær þetta yrði leyft. Hún var reyndar með þetta í kaupskap. Hún var að versla við sveitarfélögin um að þau tækju að sér, að mig minnir, listdans sem væri hluti af framhaldsskólanámi og ríkið tónlistarnámið, ef ég man rétt. Ég minnist ræðna hv. þingmanna sem nú eru í ríkisstjórn, Einars Más Sigurðarsonar, sem fór einmitt hörðum orðum um það sleifarlag sem ríkisstjórnin og þáverandi menntamálaráðherra sýndi í þessu máli. Björgvin G. Sigurðsson, núverandi viðskiptaráðherra, sagði um þetta í ræðu, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega vondur vitnisburður um verkleysið hjá hæstv. menntamálaráðherra. Henni hefur mistekist að leiða til lykta þessa deilu sem hefur staðið yfir meira og minna í þrjú ár. Að sjálfsögðu er afar brýnt að leysa deiluna eins og hæstv. ráðherra segir, en hún hefur brugðist þeirri grunnskyldu sinni að leysa það mál að tryggja jafnrétti til náms í tónlist og það er alvarlegt mál. Fyrir það líður heil kynslóð ungra Íslendinga.“

Hvað gerist nú þegar þessir hv. þingmenn eru komnir í ríkisstjórn? Það gerist nákvæmlega ekki neitt. Það er bara setið nákvæmlega á sama stað. Þetta mál hefur ítrekað verið tekið upp, nú síðast 23. janúar í fyrirspurn frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Áfram svarar menntamálaráðherra á sömu lund að þetta sé áfram í þeirri deilu. Það breytir engu þó að umboðsmaður Alþingis hafi komið með mjög ákveðin tilmæli um að taka bæri á þessu máli og ungt fólk ætti rétt á tónlistarnámi á jafnréttisgrunni, að þá er ekki heldur neitt gert með það og meira að segja leyfir ráðherrann sér að segja að hún sé ósammála áliti umboðsmanns.

Herra forseti. Framhaldsskólalög sem ekki taka á meginþáttum í námi eins og tónlistarnámi eru í sjálfu sér ekki að taka á þeim þáttum sem þeim ber. Áfram er sama verkleysið og sama sleifarlagið og misréttið sem verið hefur á undanförnum árum í þeim efnum er varða tónlistarnám. Ég hef fengið fullt af bréfum frá foreldrum þar sem sárlega hefur verið borið sig upp undan þessu misrétti. Ég verð eiginlega að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson sem er hér fulltrúi Samfylkingarinnar, samþingmann þeirra þingmanna sem höfðu þessi hörðu orð um verkleysi menntamálaráðherra í tónlistarskólamálunum: Hvers vegna var þetta ekki bara gripið strax í haust þegar ný ríkisstjórn kom ef hún þóttist ætla að gera eitthvað betur en verkleysi fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum? Hvers vegna var ekki tekið á þessum málum? Það stendur hvergi í frumvarpinu, ekki gat ég séð það, að þarna eigi að ganga hreint til verks og tryggja jafnrétti til náms hvað tónlist varðar. Það eru einmitt svona þættir sem eru hinar veiku hliðar frumvarpsins um framhaldsskóla.

Ég vil líka nefna starfsnámið, starfsmenntunarnámið. Þó að því séu gerð nokkur skil er fjarri því að þeim sé raunverulega lyft með þeim hætti sem þarf. Því svo mjög hefur það lotið í grasið eða mátt lúta fyrir sparnaðaraðgerðum og sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ríkisstjórnar í menntamálum. Það bitnar fyrst og fremst á verkmenntuninni. Það bitnar fyrst og fremst á dreifbýlisskólunum. Þó að nokkuð hafi verið að gert í þeim efnum þarf miklu meira til, það vitum við. Ég hefði viljað sjá tekið á þessum málum af mun meiri krafti en gert er í frumvarpinu.

Herra forseti. Eitt enn vil ég nefna sem ég ætlaði að nefna í sambandi við dreifbýlisskólana. Hvergi er tekið á akstri eða hvernig á að tryggja kostnað á akstri eða öðrum flutningum innan héraðs eða á milli héraða fyrir nemendur á framhaldsskólastigi. Hvergi er minnst á það, ekki sá ég það. Það má vel vera að það standi einhvers staðar en ég sá það ekki.

Mér finnst mikið skorta á að í frumvarpinu felist sú tilfinning, það næmi sem þarf að vera til að takast á við þann raunveruleika sem við búum við. Að menntun sé í boði á jafnréttisgrunni fyrir alla, að það sé markmið að menn geti sótt nám heiman að frá sér til a.m.k. 18 ára aldurs. Það sé í rauninni frumskilyrði og allir eigi rétt á framhaldsskólanámi á jafnréttisgrunni hvað kostnað varðar. Ég hefði viljað sjá að í frumvarpinu væri skýrt kveðið á um þetta. Þetta er og á að vera menntafrumvarp en ekki stofnana- og kerfisfrumvarp. Við eigum öll að eiga sama rétt til menntunar og þetta frumvarp og lög um þennan málaflokk eiga einmitt að tryggja það. En því miður skortir þar verulega á, herra forseti.