135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[22:19]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar góðar og málefnalegar ræður og mér finnst bragurinn á umræðunni hafa batnað mjög þegar liðið hefur á kvöldið. Ég hef þegar flutt fyrri ræðu mína og gert grein fyrir því af hverju við framsóknarmenn erum jafnósáttir við þetta frumvarp og raun ber vitni. Við leggjum til að því verði vísað frá og okkur finnst alveg galið, verð ég að segja, að bjóða eigi framhaldsskólakennurum út um allt land og nemendum sem eru í miklum meiri hluta ósáttir við frumvarpið upp á að fara að vinna eftir því strax í byrjun júlí þegar lögin eiga að taka gildi.

Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að taka málið af dagskrá og fresta því til haustsins til að ná fram þeirri sátt sem þarf að vera um jafnviðamikið mál og hér er rætt. Við erum búin að fara í gegnum umræðu um leikskólana og grunnskólana og þar hefur vinnan verið til fyrirmyndar. Vinnan hefur reyndar verið alveg ágæt í þessu máli líka en það var ljóst um leið og frumvarpið kom inn að það hafði verið samið af menntamálaráðuneytinu í óþökk kennarasamfélagsins og að engin samstaða yrði um það ef ekki yrðu gerðar breytingar á því.

Hvað gerði meiri hlutinn (Gripið fram í: 20 breytingar.) við þær stóru breytingar sem aðaldeilan snerist um? Hann breytti engu og kom í engu til móts við kennarasamfélagið. Jú, einhverjar tæknilegar breytingar hér og þar, það má örugglega telja þær til og segja að verið sé að koma til móts þar. En stóru ágreiningsmálin um stúdentsprófið, (Gripið fram í.) um ECTS-einingarnar … (Gripið fram í.) Ef hv. þingmaður vill ræða eitthvað við mig vil ég biðja hann að koma bara í andsvör og fara yfir þetta á eftir. Hv. þingmaður má fara í andsvör. (Gripið fram í.)

Það hefur í engu verið tekið tillit til breytinganna. Það hefur engu verið breytt í lagaákvæðinu og það er akkúrat það sem málið snýst um. (Gripið fram í: Hvaða ákvæði?) Hér hafa stjórnarliðar komið hver á fætur öðrum og sagt að þeir hafi sett fram skoðanir sínar í nefndarálitinu. Ég fór mjög gaumgæfilega í gegnum það að ég teldi að það stoðaði því miður ekki. Lögin giltu, það ætti að fara eftir orðanna hljóðan, það væri vinnuplaggið sem framhaldsskólarnir þyrftu að búa við en ekki nefndarálit meiri hlutans sem stangast á margan hátt á við greinargerðina með frumvarpinu.

Það er afskaplega sérstakt að hlusta hér á tvo þingmenn kalla fram í, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og hv. þm. Guðbjart Hannesson, vegna þess að ég skildi það svo á umræðum okkar í nefndinni að þau hefðu hvort sína túlkunina á því sem hér væri að gerast. Talað var um tilraunir, að þetta væru athyglisverðar tilraunir sem spennandi væri að sjá hvernig mundi reiða af.

Það liggur fyrir að stúdentspróf munu verða mismunandi og þar verði fjölbreytileiki og það er gott að vissu leyti. Sumir skólar munu halda í fjögurra ára stúdentsprófið en það er mikil hætta á að einhverjir nýti tækifærið og fari í þriggja ára stúdentspróf. (SKK: Er það slæmt?) Þá sé ég fyrir mér, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að hér verði tvö stúdentspróf, annað þriggja ára og hitt fjögurra ára og svo koma framlög og þá fá þeir framhaldsskólar sem eru með fjögurra ára stúdentspróf meiri framlög. Þá mun hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson væntanlega koma upp og tala um jafnræði. Er sanngjarnt að skólar fái mismunandi framlög frá ríkinu? (SKK: En þeir sem taka stúdentspróf …?)

Þetta er eins og umræðan um skólagjöldin í háskólanum. Það var talað um jafnræði þegar við stjórnarandstæðingar bentum á að það væri mjög ósanngjarnt að einn einkarekinn háskóli sem fengi að taka skólagjöld fengi þar með meiri framlög frá ríkinu vegna þess að skólagjöldin eru lánshæf hjá LÍN og ríkið kemur á móts við þau skólagjöld til helminga með styrk og er þar með að greiða meira til þess skóla. Við lögðum þá til að á móti kæmi meira framlag frá ríkinu og þá sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, ef ég man rétt, að það væri ójafnræði fólgið í því. Er ekki ójafnræði fólgið í því að einn skóli fái að taka skólagjöld? (SKK: …ræður, hv. þingmaður.) Ég beini bara orðum mínum til stjórnarliða sem streymdu í salinn þegar ég sté í pontu og hlusta af mikilli andakt og gjamma fram í þegar við á. Ég þakka þá virðingu sem mér er sýnd með því.

Ég er að lýsa ágreiningsatriðinu og ég tel að hér sé verið að stíga afar slæmt skref og að við séum því miður ekki búin að bíta úr nálinni með þetta frumvarp í framtíðinni, en þá mun ég verða á vaktinni og aðrir í stjórnarandstöðunni sem hafa einnig talað gegn þessu frumvarpi.

Mig langar til að fara núna örstutt yfir umsögn Háskóla Íslands en þar er varað mjög við því að frumvarpið nái fram að ganga eins og það er. Í kaflanum sem fjallar um kjarna og inntak stúdentsprófsins segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að verði frumvarpið að lögum verður stúdentsprófið mun fjölbreyttara en áður. Samkvæmt frumvarpinu verða einungis um 45 (nýjar) einingar, (ein og hálf önn) í kjarnagreinum, auk þess sem prófið á að uppfylla almennan hluta námskrár fyrir framhaldsskóla. Staðfesting ráðherra á námsbrautalýsingu einstakra skóla á líka að tryggja að prófið uppfylli „almennar kröfur háskóla“ og dugi til inngöngu í háskóla í nágrannalöndunum.

Núverandi stúdentspróf er 140 námseiningar (samkvæmt gildandi námseiningakerfi í framhaldsskólum) og miðað er við að nemendur ljúki þeim á fjórum árum. Í fyrirliggjandi tillögum er hvorki ljóst hvað margar (nýjar) námseiningar stúdentsprófið felur í sér, né heldur hve mörg námsár eru til stúdentsprófs.

Í frumvarpinu kemur fram að hvert námsár séu 60 (nýjar) námseiningar og að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda séu 180 á ári í stað 175 (kennsludagar eru 145 og prófdagar eru 30). Núverandi einingakerfi miðar við vinnustundir kennara, en fyrirhugað kerfi við vinnustundir nemenda.

Í athugasemdum er opnað fyrir þann möguleika að nemendur ljúki hluta af háskólanámi sínu í framhaldsskóla. Nýja einingakerfið gerir slíkt auðveldara, en gæta verður að því að einingarnar mæla ekki inntak námsins heldur námsvinnuna. Í frumvarpinu er veitt heimild til þess að framhaldsskólar bjóði upp á viðbótarnám að loknum skilgreindum námslokum í framhaldsskóla sem gætu síðan verið metin sem hluti af háskólanámi (eins og fram kemur í athugasemdum). Að svo stöddu er ekki tekin afstaða til þessa atriðis af hálfu háskólans.

Það eina sem er fastsett með námslengd í frumvarpinu er að framhaldsskólapróf er 90–120 einingar (eitt og hálft til tvö námsár; 16. gr.). Miðað við umfjöllun í athugasemdum verður stúdentspróf umfangsmeira en framhaldsskólapróf og hlýtur því að vera meira en 120 einingar.“

Og nú kem ég að því sem er aðalatriðið:

„Nemendur eiga að ljúka 45 einingum í kjarnagreinum (íslensku, ensku og stærðfræði), sem fyrr greinir, en ekki er tilgreint um fjölda eininga í hverri kjarnagrein. Ef gert er ráð fyrir að nýja stúdentsprófið sé fjögur ár, þá eru kjarnagreinar 19% af náminu, en ef það er þrjú ár eru kjarnagreinar 25% af náminu. Í núverandi kerfi eru kjarnagreinar 27% af náminu (félagsfræðibraut 26%, málabraut 26% og náttúrufræðibraut 28%). Samanburður af þessum hlutfallstölum gæti bent til að gert sé ráð fyrir að námstími til stúdentsprófs verði þrjú ár.

Til þessa hefur meginafstaða háskólans til breytinga á inntaki stúdentsprófs verið að inntak þess verði ekki rýrt á neinn hátt. Allar deildir Háskóla Íslands hafa jafnan lagt áherslu á góðan grunn í íslensku, ensku og stærðfræði. Eins og fram er komið hér að framan, er ekki ljóst hvort breytt skipan samkvæmt frumvarpinu muni leiða til þess að dregið verði úr námi í þessum greinum. Háskólinn leggur ríka áherslu á að svo verði ekki. Tryggt verður að vera að stúdentar kom vel undirbúnir til þess að takast á við háskólanámið. Þar sem ekki liggur fyrir hvað stúdentspróf eru margar námseiningar, hvert inntak þeirra er eða hvað námsárin eru mörg, er lítið unnt að gera að svo stöddu en að ítreka þá afstöðu.“

Þetta er mjög skýrt af hálfu Háskóla Íslands í þeirri ágætu og greinargóðu athugasemd eða umsögn sem þeir sendu. Þar var líka mjög athyglisverður kafli um jafngildingu bóknáms og verknáms en þar segir:

„Í frumvarpinu er lögð áhersla á jafngildingu náms. Í 21. gr., g-lið, segir að í aðalnámskrá skuli koma fram: reglur um raunfærnimat, jafngildingu náms og mat á námi ef nemendur flytjast á milli skóla eða námsbrauta. […]

Það má vera ljóst að þetta markmiði um jafngildingu náms og svo markmiðið um að stúdentsprófið veiti áfram góðan undirbúning fyrir háskólanám fara ekki alltaf saman. Ekki er ljóst af frumvarpinu hvort hefur forgang. En miðað við áherslur um að efla starfsnám þá virðist jafngilding hafa forgang. Í því ljósi hlýtur háskólinn að leggja ríka áherslu á að undirbúningur fyrir háskólanám snýst ekki einvörðungu um tilteknar námsgreinar, heldur einnig um þá almennu þjálfun sem felst í því að glíma í fjögur ár við krefjandi bóknám. Það er því ekki sjálfgefið að stúdentspróf þar sem stór hluti af náminu er verkleg þjálfun veiti aðgang að Háskóla Íslands fremur en stúdentspróf af bóknámsbraut veiti aðgang að Listaháskóla Íslands.

Stúdentspróf á miklu fjölbreyttari grunni en verið hefur auðveldar starfsnámshneigðum nemendum að ljúka stúdentsprófi en það verður að koma í ljós hvernig það hentar sem undirbúningur í ólíkar háskólagreinar. […] Standast stúdentar af bóknámsbraut kröfur fagháskóla í starfsgrein? Getur jafngilding námsgreina auðveldað bóknámshneigðum nemendum að ljúka starfsnámi, til dæmis sveinsprófi í iðn- eða framhaldsnámi í faggreininni?

Almennar kröfur háskóla um undirbúning nemenda er varla til — nema þá almennt stúdentspróf af bóknámsbrautum eins og það hefur verið undanfarin ár. Stúdentspróf (af bóknámsbrautum) er því skásta núverandi skilgreining á almennum kröfum háskóla. Það hefur hindrunarlítið veitt aðgang að flestum deildum Háskóla Íslands og verið tekið gilt erlendis. Nokkrar deildir háskólans hafa gert sérstakar kröfur um inntak stúdentsprófsins, einkum í stærðfræði og náttúruvísindum.“

Síðan velta menn því fyrir sér því hvort háskólinn þurfi að vera með einhvers konar inntökupróf eða eitthvert fornám við háskólann og hafa af þessu miklar áhyggjur. Ég held að vert sé að skoða það betur. Maður spyr sig, því að þessi umsögn er faglega unnin, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, hún er flott, og af hverju á þá ekki að taka tillit til hennar? (Gripið fram í.) Af hverju ætti ekki að bíða með frumvarpið? Hvaða rök eru fyrir því að keyra þurfi það í gegn núna? Það eru engin rök. Einu rökin sem hafa komið fram eru þau að þessi fjögur frumvörp verði að fara saman. Maður spyr: Af hverju? Af því að þau verða að fara saman. Af því bara. Það er eina ástæðan sem ég hef fengið, bæði í nefndinni og hér í ræðustól, fyrir því að ekki sé hægt að bíða með framhaldsskólafrumvarpið. Það er akkúrat allt í lagi að bíða með þetta frumvarp en samþykkja leikskóla-, grunnskóla- og menntunarfrumvörpin. Hér var ýjað að því, hálfgerð hótun verð ég að segja, að ef þetta frumvarp færi ekki í gegn yrðu hin stoppuð líka, sérstaklega menntunarfrumvarpið sem er mjög mikilvægt að fari í gegn en þar er kveðið á um aukin réttindi kennara.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að ég hafi lýst þessum ágreiningi í ræðu minni hér má ekki skilja það sem svo að vinnan innan nefndarinnar hafi verið slæm. Mér fannst hún ágæt, mér fannst vera gefinn mjög góður tími í að fara yfir allar þær fjölmörgu umsagnir sem nefndinni bárust. Allir aðilar fengu að koma sínum sjónarmiðum að. Mér fannst samt vera mikill blæbrigðamunur á umfjöllun um þetta frumvarp og umfjöllun um leikskóla-, grunnskóla- og menntunarfrumvörpin. Það helgaðist kannski af því að lítill samstarfsvilji var af hálfu meiri hlutans til að taka tillit til óska okkar í minni hlutanum um að fara betur í nokkrar greinar og hugsanlega breyta þeim. Og þá vaknar kannski ein spurning enn: Af hverju mega einingarnar bara ekki vera inni í lagagreininni um stúdentspróf? Ég held að þetta sé mjög sanngjörn spurning sem mér finnst ekki hafa fengist næg svör við hér, að tilgreindar séu einingar um framhaldsskólaprófið. Hér koma stjórnarliðar og segja ítrekað að ekki sé verið að rýra innihald stúdentsprófsins og segja því til stuðnings að þetta hafi ekki verið þannig í núgildandi lögum. En nú liggur fyrir að verið er að breyta því á margan hátt og því spyr maður: Af hverju má þetta ekki vera inni í lagagreininni og þá geta allir verið sammála um að ekki sé verið að rýra inntak stúdentsprófsins eða gengisfella það á nokkurn hátt, ef svo má að orði komast?

Ég vil svo að lokum þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, hún hefur verið málefnaleg og hún hefur líka verið mjög skemmtileg. Allar umræðurnar þrjár um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafa verið mjög skemmtilegar. Mér fannst reyndar miður að við skyldum þurfa að klára umræðuna um menntunarfrumvarpið í skjóli nætur en ég fagna því þó að við skyldum ræða þetta mál, framhaldsskólafrumvarpið, í dagsbirtu. Eins og þingmenn tóku kannski eftir var fjöldi fólks á áheyrendapöllunum að fylgjast með umræðum. Það er greinilegt að samfélagið hefur mikinn áhuga á þessu máli. (RR: … Framsóknarflokkurinn …) Þessi fjöldi hefði ekki verið hér ef þetta frumvarp hefði verið rætt í skjóli nætur. Það eru ósmekklegar athugasemdir sem koma hér utan úr sal, verð ég að segja, hæstv. forseti, og mér finnst hv. þingmaður setja aðeins niður með því að vera með svona. Það er mín skoðun.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég ítreka óskir okkar um að fresta þessu frumvarpi og vona að málið fari aftur til nefndar og við náum að fara kannski aðeins betur yfir það og ræða þær fjölmörgu umsagnir sem hafa borist um það bara á síðustu dögum frá kennarafélögum um allt land og mjög efnismikið bréf frá Félagi framhaldsskólakennara.