135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:17]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég bjóst nú ekki við því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir væri á móti rafmagni. Það væri nú þokkalegt ef svo væri. Ég átta mig hins vegar ekki á því hver sjónarmiðin eru í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hvað varðar þessi blessuð raforkulög. Ég get ekki betur heyrt en töluverður sjónarmunur sé milli formannsins og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Það er náttúrlega allt í lagi þegar Vinstri græn eru annars vegar en það er alveg bannað í öðrum flokkum að menn hafi ólík sjónarmið.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því, af því mér finnst pínulítið verið að daðra við hlutina úr ólíkum áttum — hv. þingmaður lítur annars vegar svo á að frumvarpið sé sérstaklega að hygla orkufyrirtækjunum en er síðan á móti fyrirtækjaaðskilnaði sem er sérstaklega fyrir neytendur. Ég átta mig þess vegna ekki almennilega á því hvað þar er á ferðinni. Ég mundi gjarnan vilja fá skýringar á því hvort hún sé virkilega á þeirri skoðun að þau sjónarmið sem eru uppi í því frumvarpi séu ekki til þess fallin að auka samkeppnina, sem hún hlýtur að vera sammála mér um að þurfi að gera.