135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:25]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri sem hér hafa tekið til máls, þakka hv. þingmanni sköruglega frammistöðu á þeim forsendum sem hún stendur fyrir og hennar flokkur. Lengra nær samþykkið ekki. Hún hefur gert það sérstaklega að umtalsefni hér að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga við vinnslu málsins og hefur rætt um ákvæði stjórnarskrárinnar í 72. og 78. gr. og vitnað til þess sérstaklega. Hún hefur gefið í skyn, og kallað það, að um meinbægni sé að ræða hjá nefndinni varðandi það að hafa ekki viljað fallast á að fá sérstakt lögfræðiálit.

Sá sem hér stendur var einn af þeim sem höfðu fyrirvara á þessu og kallaði eftir því að við færum ítarlega yfir þetta. Í ljósi þeirrar umræðu sem er rakin í nefndaráliti meiri hlutans — og við fengum til viðræðna við nefndina virta lögfræðinga á þessu sviði — töldum við það einfaldlega nægja.

Ég kalla hins vegar eftir afstöðu þingmannsins til þess hvort (Forseti hringir.) samráð við sveitarfélögin sé ekki falið í því að taka fullt tillit til þeirra umsagna sem orkufyrirtæki sveitarfélaga hafa gefið um þá lagasetningu sem hér (Forseti hringir.) liggur fyrir.