135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:57]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni iðnaðarnefndar fyrir skilmerkilegt nefndarálit meiri hlutans og þá góðu vinnu sem formaðurinn hefur stýrt hjá iðnaðarnefndinni frá því að þetta mál var hér til 1. umr. Sömuleiðis vil ég þakka öðrum nefndarmönnum í iðnaðarnefnd sem hér hafa greint okkur frá þeirri mikilvægu vinnu sem þeir hafa verið vinna að í þessu máli undanfarnar vikur og mánuði.

Hér er á ferðinni eitthvert mikilvægasta málið sem við höfum til umfjöllunar í þinginu á þessum vetri. Hér er á ferðinni söguleg sátt í orkumálum. Hér er sameiginleg lausn á einhverju harðasta deilumáli síðari ára sem er eignarhald á auðlindum þar sem almenningi er tryggt áframhaldandi eignarhald á þeim auðlindum sem eru í almannaeigu í orkunni. Ég held að þetta sé einhver mikilvægasti ávinningurinn sem við jafnaðarmenn sjáum í þessu stjórnarsamstarfi á þessu kjörtímabili. Ég held að þetta sé áfangi sem muni skipa hæstv. iðnaðarráðherra í sögubækurnar þar sem hann á svo sannarlega vel heima því að þetta er tímamótamál. Það er sérstaklega ánægjulegt við 2. umr. málsins að heyra hversu góður samhljómur er milli fulltrúa úr öllum stjórnmálaflokkum, vil ég leyfa mér að segja. Þó að sumir vilji ganga nokkuð lengra þá heyri ég ekki betur en að um öll aðalatriðin í málinu, þ.e. hvernig við afmörkum eignarhald almennings á auðlindunum, sé full sátt og það er auðvitað kjarni málsins og það mikilvæga þar.

Við höfum því miður ekki haldið nægilega vel á málum t.d. hvað varðar auðlindir sjávar fyrr á tíð og glutrað niður tækifærum þar til þess að tryggja eign almennings á auðlindunum í hafinu og að við í sameiningu höfum eðlilegt endurgjald af þeim auðlindum. Okkur hefur mistekist að skapa frið um þá mikilvægu starfsemi sem er nýting auðlinda sjávar.

Það var raunveruleg hætta á því að við hefðum hafið sömu vegferð í orkumálunum. Þegar þessi ríkisstjórn tók til starfa fyrir ári síðan verður að segja eins og er að löggjöf á þessu sviði var mjög vanbúin. Hæstv. iðnaðarráðherra tók við lagaumhverfi sem hafði breyst mikið þar sem inn voru komnar samþykktir frá Evrópu sem kváðu á um samkeppni og einkarekstur í þessari grein sem hefur verið í eigu og á forræði almennings og hins opinbera. Skyndilega sáu menn í því mikla deilumáli sem reis í kringum Geysi Green Energy og REI að löggjöfin var svo vanbúin að á örskotsstundu gátu einkaaðilar verið komnir á bólakaf í starfsemi sem við Íslendingar viljum að sé á forræði hins opinbera, sem er veitustarfsemin, og inn í auðlindir sem við viljum að séu í þjóðareigu.

Það var þess vegna gríðarlega brýnt að grípa til aðgerða við þessar aðstæður til þess að koma í veg fyrir að það færi eins með orkuauðlindirnar og auðlindirnar í hafinu, að þær yrðu aðgerðaleysi okkar að bráð og við misstum réttindi og eignarhald almennings yfir þeim smátt og smátt. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra eigi alveg skilið sérstakt hrós fyrir að hafa haft pólitíska forustu fyrir því að finna lausn í þessu máli sem tryggir eignarhald almennings á þessum auðlindum sem verða jú sífellt mikilvægari og verðmætari eftir því sem árin líða.

En þegar sú lausn er fundin til þess að tryggja hagsmuni almennings þá er það líka að hluta til rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að um leið er gert alveg skýrt hvar einkafyrirtækin geta spreytt sig, hvaða starfsemi þau geta farið í. Það gefur auðvitað visst tækifæri og svigrúm fyrir einkaframtakið til þess að auka umsvif sín í þessari grein. Ég held að það sé út af fyrir sig bara til bóta og verði til þess að efla þennan mikilvæga iðnað og þessa mikilvægu grein í samfélagi okkar vegna þess að við höfum fyrir nokkru náð ákveðnum mörkum í þróuninni í orkuiðnaðinum. Við erum löngu búin að rafvæða fyrir heimilin í landinu og fyrir allt almennt atvinnulíf í landinu. Við höfum þess vegna virkjað til almenningsþarfa og þær virkjanir sem kunna að vera reistar í framtíðinni á Íslandi verða reistar til þess að þjóna raforkuþörf stórfyrirtækja og í mörgum tilfellum alþjóðlegra fyrirtækja. Það er út af fyrir sig ekkert kappsmál að ríki eða sveitarfélög sinni slíkri áhættustarfsemi. Meðan hægt er að tryggja almannahagsmuni, með því að tryggja eignarhald almennings á auðlindunum og eðlilegu endurgjaldi fyrir þær og tryggja almenningssamkeppnissjónarmið þá er ekkert í veginum fyrir því að einkaaðilar sinni þeim verkefnum.

Ég minni á, vegna þess að aðkoma einkaaðila hefur stundum verið til umræðu hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að þó að vinstri menn hafi oft haft þau sjónarmið að einkaaðilar megi hvergi koma nærri orkuiðnaði þá hafa grænir eða náttúruverndarsinnar iðulega gagnrýnt að hið opinbera sé framkvæmda- og eignaraðili að stórframkvæmdum fyrir stóriðju eins og var raunin í kringum Kárahnjúka. Sumir hafa gengið svo langt að segja að ef ríkið hefði ekki verið eignaraðilinn og framkvæmdaraðilinn að Kárahnjúkum og það hefði ekki verið ríkisfyrirtæki þá hefði sú virkjun aldrei verið reist vegna þess að þá hefðu engar viðskiptalegar forsendur verið fyrir henni. Ríkisábyrgðin og öll aðkoma ríkisins hefði verið forsendan fyrir því að það verkefni fór af stað. Það séu þess vegna beinlínis hagsmunir náttúruverndarinnar í landinu að ríkið sé ekki beinn hagsmunaaðili að stórframkvæmdum af því tagi. Það kann þess vegna að kalla á að menn þurfi að velja um það hvort þeir vilja í þeim málefnum vera vinstri eða vera grænir, taka afstöðu með ríkisrekstrinum eða vilja varna því að ríkið skarki með þessum hætti í náttúru Íslands eins og verið hefur um árabil.

Ég vil síðan segja um aðskilnaðinn á milli starfsþáttanna í fyrirtækjunum að ég held að þar sér um að ræða skref sem sé einfaldlega tímabært að stíga. Þegar Evróputilskipanirnar voru innleiddar hér fyrir rétt um áratug síðan þá vildu menn freista þess — og ég held að það hafi verið svona almenn samstaða um að kanna hvort það mætti gera án þess að fara alla leið í aðskilnaðinum. Augljóslega mundi hann hafa í för með sér nokkurn kostnað en reynslan sé hins vegar sú að því miður megi sannarlega auka virka samkeppni á þessu sviði. Að taka skrefið og skilja að rekstrarþættina geti orðið til þess að auka fjölbreytni og fá ákveðna „dínamík“ í þessa grein og vera almennt til farsældar fyrir greinina til lengri tíma.

Ég get tekið undir efasemdir um að það sé sérlega eftirsóknarvert að heimila 49% eignarhlut einkaaðila í tilteknum greinum í þessum iðnaði. Ég held þó að það séu algjörlega ástæðulausar áhyggjur að telja að þar með sé verið að ákveða að selja hlut í Landsneti. Ég held þvert á móti að þingheimur viti að það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi að selja hlut í Landsneti og það væri alveg sérstakt mál ef það stæði til.

Ég held líka að almennt séð sé þetta ákvæði ekki til að hafa miklar áhyggjur af því að það er ekki áhugavert fyrir einkaaðila að koma inn sem minnihlutaaðilar með opinberum aðilum í rekstri. Einkaaðilar vita að það geta ýmis sjónarmið önnur en hagnaðarsjónarmið ráðið ferðinni hjá þeim sem þá fer með meirihlutavald í félaginu. Alla jafna vilja einkaaðilar ekki leggja fjármagn sitt inn í slíka óvissu og inn í slíkan minni hluta. Ég hef því ekki mikla trú á það að á þetta reyni en þó hafa auðvitað verið ákveðnar hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóða sem hafa skotið upp kollinum í gegnum tíðina og þarna gæti verið svona ákveðinn ávöxtunarkostur fyrir lífeyrissjóðina. Ég ætla ekki að taka neina afstöðu til þess þarna.

Ég vil þó segja að ég tel að það sé eitthvað sem við eigum að læra af reynslunni og m.a. af reynslunni með REI og Geysi Green Energy og þær miklu deilur sem um það spunnust og önnur mál sem áður hafa komið upp svipaðs eðlis að það sé almennt til ófarsældar að blanda saman eignarhaldi opinberra aðila og einkaaðila. Almennt eigum við að leitast við að haga löggjöf með þeim hætti að það séu alveg skýr mörk um hvað hið opinbera á annars vegar og hvað einkaaðilar eiga og reka hins vegar. Það getur leitt til óvissu og ófarsældar og hefur gert það í ýmsum málum og vakið miklar deilur í samfélaginu þegar við reynum að blanda saman í félögum jafnóskyldum aðilum og opinberum aðilum sem eiga að gæta almannahagsmuna, jafnræðis, stjórnsýslulaga o.s.frv. og einkaaðilum. Eðli málsins samkvæmt eiga þeir að vera framsæknir, fljótir að taka ákvarðanir og hugsa um hagnaðarsjónarmið til þess að drífa áfram hagvöxt og framfarir hér í okkar ágæta atvinnulífi.

Vegna orða hv. þm. Ólafar Nordal hér áðan þá held ég að það sé vel við hæfi að hún geri að umfjöllun merkilegar fréttir í orkumálunum á síðustu dögum. Það er úrskurðurinn um Bitruvirkjun og þau áhrif sem hann kann að hafa. Við höfðum jú fulltrúa Skipulagsstofnunar í umhverfisnefnd í liðinni viku til þess að kynna úrskurðinn. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að þar er um mjög veruleg tíðindi að ræða. Það er sömuleiðis rétt hjá hv. þingmanni að þegar fyrsti áfangi rammaáætlunar var kynntur var alveg ljóst að í þeim áfanga komu jarðvarmavirkjanir almennt vel út en vatnsaflsvirkjanir síður.

Sá áfangi rammaáætlunar sætti hins vegar talsverðri gagnrýni fyrir að meta ekki nægilega mikið landslag og landslagsheildir og hann sætti einnig gagnrýni fyrir að líta ekki nægilega til útivistar og til ferðaþjónustunnar. Var dæmi tekið um það hversu gríðarlega góða einkunn virkjunarkostir á Skaftafellssvæðinu, sem er kannski mest notaða útivistar- og ferðaþjónustusvæði á landinu, fengu.

Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að sá úrskurður sem við nú höfum fengið um Bitru virðist undirstrika að sú gagnrýni hafi átt rétt á sér og að nú sé í auknum mæli tekið tillit til þessara sjónarmiða. Það mun auðvitað hafa áhrif á frekari vinnu við rammaáætlunina um vernd um náttúru Íslands og nýtingu hennar í orkuvinnslu sem hér á að leggja fram á næsta ári. Það er alveg auðsætt að sömu sjónarmið hljóta að gilda um aðrar jarðvarmavirkjanir í landinu og um Bitru. Ef þær eru á mjög mikilvægum útivistar- eða ferðaþjónustusvæðum eða þær tengjast mikilvægum heildum eins og Þingvöllum o.s.frv. þá kunna þær að fá umtalsvert lakari útkomu en margir hugðu þegar lagt var af stað í þá vinnu.

Ég held hins vegar að það sem hér skiptir máli sé ekki að dásama jarðvarmavirkjanir annars vegar eða vatnsaflsvirkjanir hins vegar eða hafa einhverjar atvinnugreinar í tísku eða ekki í tísku. Það sem hér skiptir máli er að við Íslendingar þurfum að taka ákvörðun um hvaða hluta af náttúru Íslands við viljum vernda, hvaða svæði í landinu það eru sem eru okkur mikilvæg náttúrusvæði, hvað við viljum vernda og hvar við viljum enga orkuvinnslu hafa. Þegar við erum búin að taka ákvörðun um heildarmynd af því hvaða þætti í náttúru Íslands við viljum vernda til framtíðar — viljum yfir höfuð hvorki spilla með mannvirkjum, orkuvinnslu eða öðru slíku — þá geta menn farið að skoða hvar þar fyrir utan megi virkja og með hvaða hætti. Ég held að við hljótum að nálgast þetta verkefni með þeim hætti.

Einmitt í því höfum við verið vanbúin, þ.e. til þess að ákveða hvar eigi að fara í virkjanir. Yfir höfuð hefur sá aðbúnaður sem orkuvinnslan hefur búið við í landinu verið ákaflega óskýr. Við hér á Alþingi Íslendinga höfum enn ekki sagt orkuiðnaðinum hvað við viljum vernda og hvar megi leita leiða til þess að virkja. Þess vegna er það hitt stóra málið hjá þessari ríkisstjórn í orkumálum að ljúka rammaáætluninni um vernd náttúru landsins og nýtingu hennar. Hún þarf að kynna hana hér á næsta ári þannig að við getum fengið skýrar línur bæði fyrir náttúruverndina og umhverfismálin í landinu en líka fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein okkar sem orkuiðnaðurinn sannarlega er.