135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:18]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom skýrt fram fyrr í ræðu minni og í nefndaráliti að Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður að tökin séu hert, að bundið sé í lög að þær auðlindir sem nú þegar eru í opinberri eigu verði það áfram og jafnframt teljum við að unnt sé að ganga lengra og taka inn undir ákvæðið þær eignir, þær auðlindir sem nú eru í sameignlegri eigu sveitarfélaga og einkaaðila.

Ég vil leyfa mér að spá inn í framtíðina, hv. þm. Helgi Hjörvar, þó að það kunni að vera vandasamt og menn ættu ekki að gera það og kannski ekki úr þessum stól þar sem hægt er að orðtaka hvert einasta atriði sem sagt er. En í ljósi þeirrar þróunar og þeirrar vegferðar sem hafin var á árinu 2003 með markaðsvæðinguna í raforkukerfinu og þess frumvarps sem við erum með spái ég því að þetta muni ekki heldur leiða til mjög aukinnar samkeppni á markaðnum, þetta muni þvert á móti leiða til kostnaðarauka og hækkunar á raforkuverði en muni litlu skila af því sem samkeppninni er ætlað að laga. Því spái ég að það muni enn og aftur og ekki innan mjög langs tíma koma ákall frá þeim sömu markaðsvæðingaröflum, frá Viðskiptaráðinu sem sendir frá sér álit um að frumvarpið sé þjóðhagslega óhagkvæmt og frá Samkeppniseftirlitinu um að það beri í næsta skrefi að skilja algerlega á milli eignarhalds í samkeppnisrekstri og sérleyfisrekstri. Það verður næsta skrefið, ég leyfi mér að spá því.

Mér finnst dapurlegt að Samfylkingin skuli draga þennan vagn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.