135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

málefni hafnarsjóða.

[15:09]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Nýlega gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu fyrir Siglingastofnun Íslands um fjárhagslega stöðu hafna landsins. Þar kemur fram að fjárhagsleg staða hafnanna sé veik og fátt bendi til þess að hún muni styrkjast á næstu árum. Í nýjum gögnum, sem ég hef aflað mér, um skuldir hafnarsjóða landsins kemur fram að á verðlagi í maí 2008 eru heildarskuldir hafnanna um 12 milljarðar kr. og ef stærsta höfnin, Faxaflóahafnir, er undanskilin eru skuldirnar 9,5 milljarðar.

Heildartekjur hafna á ári á verðlagi 2008 eru um 5,5 milljarðar og ef Faxaflóahafnir eru undanskildar eru heildartekjur um 2,8 milljarðar. Það kemur sem sagt í ljós að hafnirnar munu ekki geta staðið undir rekstrarkostnaði.

Einnig er vert að minna á að þegar hafnalögum var breytt árið 2003 var ein forsendan fyrir þeim breytingum að gjaldskrá hafna yrði hækkuð til þess að þær gætu tekið á sig þær skuldbindingar sem nýju lögin kváðu á um. Ekki var pólitískur vilji til þess að gera það á þeim tíma þannig að forsendur fyrir hafnalögunum frá 2003 voru í raun og veru þá þegar brostnar. Það liggur fyrir að ákvæði nýju hafnalaganna eru ekki að fullu komin til framkvæmda og hefur verið frestað í tvígang en það er alveg ljóst að ef það á að gerast verður afkoma þeirra enn lakari en staðan er núna.

Ég vil inna hæstv. samgönguráðherra eftir því hvernig hann hyggst bregðast við þessum niðurstöðum úr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um stöðu hafnanna og hvort hann hefur í hyggju að láta fara fram einhverja vinnu í því efni að gera þá hugsanlega nauðsynlegar breytingar á hafnalögum (Forseti hringir.) til að styrkja stöðu hafnarsjóðanna.