135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

réttindi stjórnenda smábáta.

[15:17]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef flutt frumvarp á Alþingi sem búið er að dreifa og er á dagskrá í dag þar sem tekið verður á þessu. En það er rétt sem hv. þingmaður fjallar um. Lög nr. 30/2007, sem tóku gildi 1. janúar sl., um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, ná þegar betur er að gáð ekki yfir frístundaskipin. Með því frumvarpi sem ég hef flutt hér er meiningin að bregðast við því vandamáli sem þar er.

Ég sat í samgöngunefnd allt síðasta kjörtímabil og þegar við vorum að vinna þetta frumvarp töldum við okkur vera að vinna það m.a. til að koma í veg fyrir að algerlega réttindalaust fólk geti verið á þessum frístundafiskibátum. Það er þó í sjálfu sér ánægjulegt að þessi atvinnugrein sé að ryðja sér til rúms. Þetta frumvarp tekur þannig á málinu að frístundafiskibátar verði ekki skilgreindir sem önnur skip heldur sem frístundaskip, það verður sett inn. Í frumvarpinu eru einnig settar inn kröfur um ákveðin námskeið ef menn hafa ekki tilskilin réttindi sem þeir geta þó ef til vill komið með að utan.

Í því frumvarpi sem er á dagskrá þingsins í dag og sem vonandi verður tími til að ræða, er brugðist við þessu vandamáli. Þar kemur fram að við gerum ekki ýtrustu kröfur um skipstjórnarréttindi á smábáta heldur duga ákveðin námskeið og réttindi sem menn kunna að hafa með sér. Ef frumvarpið verður að lögum núna er hægt að bregðast við því sem nú er að gerast. En þetta eru líka skilaboð til þeirra fyrirtækja sem stunda slíkan rekstur og auglýsa sig á næsta ári (Forseti hringir.) um að fyrirhugað sé að gera auknar kröfur um réttindi á þessi skip.