135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

húsnæðismál Fjölsmiðjunnar.

[15:28]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki séð þá frétt sem hv. þingmaður vitnar í í Fréttablaðinu í dag en ég get tekið undir allt sem hann sagði um mikilvægi Fjölsmiðjunnar og að á því máli sé tekið. Það er vissulega rétt að þarna er um að ræða mjög mikilvægt vinnumarkaðsúrræði fyrir nokkra tugi einstaklinga sem eru félagslega einangraðir og það þarf að finna lausn á þessum vanda. Við höfum átt í viðræðum við sveitarfélögin og það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að sveitarfélögin eru tilbúin ásamt stjórnvöldum að leggja fram nauðsynlegt fjármagn til að finna viðunandi húsnæði fyrir Fjölsmiðjuna. Það er nokkuð síðan, ég man ekki hversu langt, að settur var af stað hópur með fulltrúum félagsmálaráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins ásamt sveitarfélögunum og þeim sem standa að Fjölsmiðjunni til að finna lausn á þessum húsnæðisvanda. Mér er því miður ekki kunnugt um hver staðan á því máli er nú nákvæmlega en mun að sjálfsögðu í framhaldi af þessari fyrirspurn ganga í það að kynna mér stöðuna vegna þess að ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er óviðunandi ástand, húsnæðisaðstaðan sem þarna er til staðar fyrir Fjölsmiðjuna. Ég kannast við að þeir eru á undanþágu vegna brunavarna. Ef ekki næst samstaða um að finna boðlegt húsnæði fyrir Fjölsmiðjuna þá verður að fara í mjög víðtækar endurbætur á gamla húsnæðinu sem ég held að svari ekki kostnaði. Ég held að það sé miklu heppilegra fyrir alla aðila að finna þessari starfsemi húsnæði til framtíðar.

Eins og ég segi þá veit ég ekki nákvæmlega hver staðan er á þessari vinnu hjá starfshópnum en hún var sett í gang til þess að finna lausn. Ég mun í framhaldi af þessari fyrirspurn taka stöðuna á því hvernig málin standa.