135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

húsnæðismál Fjölsmiðjunnar.

[15:31]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör og þann ríka vilja sem fram kom í máli hennar til þess að tryggja framtíð Fjölsmiðjunnar. En eins og fram hefur komið í viðtölum er framtíðin ótrygg ef menn leysa ekki húsnæðismál stofnunarinnar eins og hæstv. ráðherra tók undir. Ég þakka því hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið svo vel undir það að gera gangskör í því að tryggja að Fjölsmiðjan fái viðunandi húsnæði í framtíðinni.

Eins og ég sagði hér áðan þá er hér um að ræða hagsmuni 70–80 ungra skjólstæðinga Fjölsmiðjunnar sem hafa ekki fótað sig í námi. Hér er um mikilvægt úrræði að ræða því að eins og Páll Ólafsson félagsráðgjafi í Garðabæ sagði í þessari frétt í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er eiginlega eina úrræðið fyrir börnin eftir tíunda bekk. Það má ekki gerast að Fjölsmiðjan verði lögð niður. Þetta er eina úrræðið sem við höfum sem virkar fyrir þennan hóp.“ (Forseti hringir.)

Með þessum orðum vil ég ljúka ræðu minni um leið og ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessu mikilvæga máli.