135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

húsnæðismál Fjölsmiðjunnar.

[15:32]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég vil bara árétta, virðulegi forseti, að það er dýrt að gera ekkert í þessu máli. Það er miklu dýrara fyrir samfélagið að gera ekkert í þessu máli en að leggja í þetta tilskilið fjármagn sem ég held að sé ekkert mjög mikið. Ef ég man rétt þá eru þetta einhverjir tugir milljarða sem er að vísu mikill peningur. En miðað við það verkefni sem á að setja þetta í þá finnst mér það ekki mikið vegna þess að við getum bjargað þarna unglingum til frambúðar með því að leggja fjármagn til þessa verkefnis að tryggja húsnæðisúrræði. (Gripið fram í.) Milljóna, ekki milljarða. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leiðrétta það. Það væru miklir peningar ef þetta væru milljarðar. En við erum svo oft að ræða um milljarða hér í ríkisstjórninni og hérna inni á þingi að það er ekki skrýtið þótt maður ruglist.

Það eru þrjú ráðuneyti sem koma að þessu máli og þrír ráðherrar fyrir utan sveitarstjórnirnar og þessir aðilar verða auðvitað að vera sammála um að á þessu máli sé tekið til þess að við finnum lausn á því. En ég skal gera það sem í mínu valdi stendur til þess að (Forseti hringir.) við finnum skjóta lausn á þessu máli.