135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:45]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er nokkuð sérstakt mál til umfjöllunar sem snýst í raun um samning sem gerður var fyrir átta árum. Sá samningur kveður á um þjónustu sem veita skal af hálfu Sóltúns og kveður einnig á um greiðslu fyrir þjónustuna af hálfu ríkisins. Ákveðið var að nota svokallað RAI-mælitæki til að ákveða greiðslurnar, síðan var ákveðið hver þyngdarstuðullinn, eða þörfin fyrir þjónustuna, skuli vera og niðurstaðan varð sú að hann skyldi vera á bilinu 1,08–1,20. Kveðið er á um það að ef farið sé yfir þann þyngdarstuðul, sem sagt yfir 1,20, komi magnleiðréttingar til. Landlækni er falið faglegt eftirlit með RAI-mælitækinu og Ríkisendurskoðun skal sinna fjárhagsendurskoðun. Heilbrigðisráðuneytinu sem verktaka ber svo að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins. Þetta er málið eins og það er í hnotskurn.

Ráðuneytið hefur gengið út frá því að meðaltalsþyngdarstuðull Sóltúns liggi að öllu jöfnu á bilinu 1,05–1,20 eins og mælt er fyrir um í samningnum. Raunin er sú að hann fer ítrekað yfir 1,20 og það alveg frá árinu 2003. Sóltún gerir kröfu um aukagreiðslu, ráðuneytið fellst á það með fyrirvara um að það samþykki í raun ekki þessa kröfu. Nú stöndum við frammi fyrir því að miklar og háværar deilur eru á milli aðila. Ríkisendurskoðun hefur miklu hlutverki að gegna fyrir hönd Alþingis og hún (Forseti hringir.) kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að ekki sé löglega fært í sjúkraskrá heimilisins, sem er náttúrlega (Forseti hringir.) mjög alvarlegt.

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta mál verði áfram til umfjöllunar en það er ágætt að hafa fengið að ræða það hér.