135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:52]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra sagði hér áðan að það ættu ekki að vera trúarbrögð eða kredda hvernig þjónustu við aldraða væri fyrir komið, og ég ætla rétt að vona að svo verði.

Hæstv. ráðherra nefndi líka nýja sjúkratryggingastofnun og ég verð að lýsa því yfir að eftir nokkra yfirferð en alls ekki tæmandi í hv. heilbrigðisnefnd er það mitt mat að þau ákvæði í því frumvarpi sem lúta að innihaldi og gerð samninga af þessu tagi séu mjög máttlaus og málið í rauninni vanreifað í frumvarpinu sem slíku.

Það er eðlilegt, herra forseti, að nú þegar stefnan er tekin á að auka einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu sé litið til þess samnings sem við ræðum hér, samningsins um Sóltún. Það er eðlilegt að spyrja hver reynslan sé. Reynslan er óumdeilanlega sú að Sóltún hefur reynst mjög dýrt. Samningurinn hefur líka reynst erfiður, hann er til 25 ára, 27 ára, segir ráðherra nú, hann er ósveigjanlegur, engin haldbær uppsagnarákvæði eru í honum. Upplýst er að þetta flaggskip einkareksturs í heilbrigðisþjónustu hefur í rauninni verið strand frá 2003 og í miklum deilum við ráðuneytið.

Ég vil af þessu tilefni segja, herra forseti, að hæstv. ráðherra verður að hætta að setja undir einn hatt einkaaðila sem eru í hagnaðarrekstri, eins og Öldung ehf., sem er í eigu Securitas og Íslenskra aðalverktaka, og svo hina aðilana sem reka öldrunarþjónustu án þess að hagnast á því sem fjárfestar, það er upplýst að mismunurinn á kostnaðinum sem hér um ræðir er eingöngu þess vegna. Ekki er deilt um að þjónustan er betri eða hvort greiða eigi fyrir þjónustuna. Krafa er gerð um að aðrar öldrunarstofnanir fái tækifæri til þess að veita (Forseti hringir.) sambærilega þjónustu. Skattfé á ekki að renna í vasa fjárfesta heldur til þess að bæta þjónustu við gamalt fólk.