135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:59]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að færa umræðuna örlítið inn á svið framkvæmda fjárlaga. Þetta mál tengist þeim þáttum eins og kemur fram í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í svarbréfi heilbrigðisráðuneytisins kemur skýrt fram að framkvæmd fjárlaga er varðar hjúkrunarheimili sé ekki í samræmi við samninginn á milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins við Öldung ehf. Einnig kemur fram að ráðuneytið telji ástæðu til að skoða árin 2003, 2004 og 2005. Hefur Ríkisendurskoðun ákveðið að verða við beiðni ráðuneytisins um athugun vegna þessara ára.

Engum dylst að þjónustan á hjúkrunarheimilinu er góð, ekki er deilt um það. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur svarað ítarlega þeim spurningum sem hv. þm. Þuríður Backman bar fram — ég verð eiginlega að hrósa þeim báðum fyrir það, bæði fyrir efnislega umræðu í máli málshefjanda og líka fyrir svör hæstv. ráðherra. Ráðherra vék m.a. að því að hugsanlega væri uppi ágreiningur í samningi á milli aðila og vék að því að e.t.v. mundu málin fara fyrir dómstóla. Því er eðlilegt að ráðherra svari á þann hátt sem hér er gert. Það er vissulega kostur að til er samningur til að takast á um. Í umræðu um sjúkratryggingamálin er haldið úti mjög víðtæku eftirliti og er það í raun og veru nýtt í þessum málum er varðar eftirlitsskylduna.

Við þekkjum það í mjög mörgum öðrum málum, ég þarf ekki annað en að nefna hér 02-919.690, sem er ýmis stofnkostnaður varðandi söfn hér og þar um landið, að við getum velt fyrir okkur, hv. þingmenn og virðulegur forseti, hvernig eftirliti með þeim þáttum (Forseti hringir.) er fram haldið dag frá degi og ég tel að þetta tengist m.a. þeim þáttum.