135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[16:56]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um grunnskóla, eitt af þeim fjórum frumvörpum sem hér eru lögð fram í þinginu til að styrkja íslenskt skólakerfi — við höfum svo sem haft fyrirmyndarkerfi en alltaf má bæta það.

Meginhugmyndirnar á bak við þau eru aukinn sveigjanleiki og meiri fjölbreytileiki varðandi skil á milli skólastiga. Verið er að skerpa sýn á réttindi og skyldur nemenda og foreldra en það er líka, gagnstætt því sem hér hefur verið haldið fram, verið að skýra réttindi varðandi sérfræði- og stoðþjónustu og alla ráðgjöf, verið að styrkja stöðu náms- og starfsráðgjafa og festa í sessi skóla án aðgreiningar. Ég lýsi yfir miklum stuðningi við þá vinnu sem hér hefur farið fram og þær tillögur sem fluttar verða varðandi breytingartillögurnar. Ég lýsi undrun minni á að margar þær tillögur sem hafa komið fram frá stjórnarandstöðunni, bæði áðan við leikskólann og eins við grunnskólann, hafi ekki hlotið mikla umræðu í menntamálanefnd og ekki verið fluttar þar og ég mun fella þær þar.