135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[17:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er síðasta tækifæri þingmanna til að leiðrétta rétt eða hlut foreldra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál sem móðurmál. Verið er að greiða atkvæði um 18. gr. þar sem segir í frumvarpinu: „Eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.“ Það er allt of víða sem orðalagið í frumvörpunum er með þessum hætti. Skylda skólanna til að tryggja stöðu foreldra sem tala ekki íslensku eða hafa táknmál að móðurmáli er ekki nægilega tryggð. Ég segi að nú sé síðasta tækifærið í þessu frumvarpi að leiðrétta stöðu slíkra foreldra og tryggja það að túlkaþjónusta sé veitt. Þess vegna segi ég já við breytingartillögunni, hæstv. forseti.