135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp til framhaldsskóla er illa unnið enda fjarri því að vera fullnægjandi. Það skortir þar á grundvallarjafnrétti, mannréttindi gagnvart nemendum, gagnvart fólki óháð búsetu og aðstöðu. Það ætti að standa hér grein sem kveður skýrt á um að það væri markmið að fólk gæti stundað nám í heimabyggð a.m.k. til 18 ára aldurs. Það er ekki. Það er ekkert sem kveður á um að hér skuli vera jafnrétti til náms hvað kostnað varðar. Fátt er meira íþyngjandi en ójafnrétti hvað það varðar og skiptir þjóðinni í hópa eftir kostnaði við að senda ungt fólk til framhaldsskólanáms. Það er hvergi tekið á þeim þáttum. Þættir eins og listnám, tónlistarnám, sem hefur verið í miklum þrengingum á undanförnum árum, ekki er heldur tekið á því. Það er ekki tekið á (Forseti hringir.) grundvallarmannréttindamálum sem snúa að nemendum og íbúum þessa lands í þessu frumvarpi, herra forseti, og því á að vísa því frá.