135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég er mjög hissa á stjórnarflokkunum í þessu máli. Ég er mjög hissa á Sjálfstæðisflokknum sem ber ábyrgð á menntamálum á Íslandi að vilja fara með þetta mál í gegn í svona miklu ósætti. Ég er mjög hissa á Sjálfstæðisflokknum.

Ég er líka afar undrandi á Samfylkingunni. Samfylkingin hefur gefið sig út fyrir að vilja efla menntun í landinu. Samt ætlar hún að fara með þetta mál í gegn í algerri andstöðu við stóran hagsmunahóp sem er Félag framhaldsskólakennara. Það var nú síðast í morgun sem ályktun var samþykkt á kennarafundi í MH þar sem skorað er á þingmenn að fresta þessu máli m.a. af því að það er ekki ljóst hvert innihald stúdentsprófsins á að vera. Einnig var bent á að ECTS-einingar eru hvergi notaðar í evrópskum framhaldsskólum, hvergi. Virðulegur forseti. Ég er mjög hissa á stjórnarflokkunum sem ætla að hunsa algerlega þá ósk sem er svo sjálfsögð að ná meiri sátt um þetta mál. Vegna þessa ósættis er alveg ljóst að það er ekkert annað í stöðunni en vísa þessu máli frá og reyna að vinna það betur í sumar.