135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:19]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ljóst að leiðir okkar liggja saman og svo hefur verið frá upphafi. Leiðir okkar liggja saman á þessu sviði í öllum megindráttum. Þó er eitt sem ég vil ræða við hv. þingmann. Hann hefur komið inn á samráðsleysi við sveitarfélögin. Fram kom í meðförum nefndarinnar að haft var samband við Samband íslenskra sveitarfélaga í byrjun janúar sem er þó nokkru áður en málið var lagt fyrir þingið. Fulltrúar sveitarfélaganna komu síðan á fund nefndarinnar með frásögn af því sem fram hafði farið í stjórninni og lögðu fram frásögn, kannski frekar en umsögn, fyrir nefndina. Þar eru gerðar þó nokkrar athugasemdir við frumvarpið.

Mér þykir í því ljósi rétt að draga fram að við tókum mark á þó nokkrum af þeim athugasemdum. Í umsögninni kom fram að þeir vildu að það nægði að kveða á um meirihlutaeign opinberra aðila í stað aukins meiri hluta eins og hv. þingmaður var þó að gagnrýna áðan að væri gert í breytingartillögum okkar í meiri hlutanum. Við tókum tillit til þessara athugasemda og tókum undir þær með því að leggja fram breytingartillögu í anda þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga hafði komið inn á.

Einnig má benda á að þetta er líka gert til samræmis við 4. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga frá árinu 2004 en þar er eingöngu látið nægja að kveða á um meirihlutaeign en ekki aukna meirihlutaeign. Ég vildi, virðulegi forseti, fá að draga þetta fram en við tókum tillit til fleiri atriða í umsögn eða frásögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ég kem inn á í seinna andsvari mínu.