135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:28]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hv. þm. Guðna Ágústsson hvernig honum lítist á þá tillögugerð sem sett er fram í 4. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Flutningsfyrirtækið skal ávallt vera að lágmarki að 2/3 hlutum í eigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila.“

Nú hefur meiri hluti nefndarinnar og þar með hv. þingmaður lagt til að þessu verði breytt og að 51% eignarhald í Landsneti, sem hér um ræðir, skuli þá vera í eigu opinberra aðila en ekki 100% eins og segir í XII. bráðabirgðaákvæði raforkulaganna sem 19 manna nefndin samdi sem frægt var og tók langan tíma og ákveðið er að taka til endurskoðunar strax í sumar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja fyrirvara varðandi þetta og þá sérstaklega með tilvísun til álits stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því á föstudaginn var þar sem Elín Líndal, fulltrúi Framsóknarflokksins í Húnaþingi, leggst eindregið gegn því að 4. gr. verði samþykkt. Í því sambandi vil ég spyrja þingmanninn hvort hann sé tilbúinn til að taka áhættuna af því að setja flutningsfyrirtækið, þ.e. vegakerfið í orkuflutningnum, í hendur einkaaðila og þá sérstaklega með tilliti til þess hvernig það hefur reynst í öðrum löndum.