135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tjáði mig um þetta mál við 1. umr. þess og lýsti þá miklum fyrirvörum við ýmsa þætti málsins þó að ég viðurkenndi um leið að að mörgu leyti væri sú hugsun sem svona í orði kveðnu er lögð til grundvallar því að reyna að setja tilteknar girðingar inn í löggjöf sem eiga að tryggja opinbert eignarhald á mikilvægum orkuauðlindum góðra gjalda verð. En um leið benti maður á þær hættur sem í því væru fólgnar að opna fyrir uppskiptingu fyrirtækja sem hafa starfað saman sem ein heild í eigu opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga, og bjóða þeirri hættu heim sem ég vil orða svo, að einkaaðilar kæmu inn í fyrirtækin og eins og þá var ráð fyrir gert gætu átt allt að þriðjungshlut.

En ég verð að segja alveg eins og er að ég hafði í rauninni ekki hugarflug til þess þá að sjá það fyrir eða gera ráð fyrir þeim möguleika að frumvarpið mundi þróast í algjörlega öfuga átt í meðförum hv. nefndar og það yrði dregið úr þó þeim varnöglum eða girðingum sem í orði kveðnu átti samkvæmt frumvarpinu að slá um hið opinbera eignarhald orkuauðlindanna og var hinn yfirlýsti tilgangur málsins. Það er því í raun harla dapurlegt að sjá þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar gerir á málinu og þær ganga til öfugrar áttar að mínu mati og okkar þingmanna vinstri grænna eins og hér hefur auðvitað þegar komið fram í máli talsmanna okkar og það vekur ekki góð hughrif um hvað sé í vændum og hvað liggi bak við. Ef frumvarpið hefði gengið í gagnstæða átt og gerðar hefðu verið frekari ráðstafanir til að styrkja hið opinbera eignarhald og tryggja t.d. að flutningsfyrirtæki eins og Landsnet yrðu alltaf í fullri opinberri eigu þá hefði að sjálfsögðu verið til bóta og aukið líkurnar á því að maður hefði getað stutt málið. En ekki að því sé breytt í öfuga átt og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast það vond tíðindi.

Því miður eru þessi mál alls ekki í nógu góði fari hjá okkur Íslendingum. Ég tel að skipulagsmál orkugeirans séu í raun og veru meira og minna í ólestri og það hafi aldrei náðst almennilega utan um þau mál allt frá því að menn gerðu auðvitað veigamikil mistök, mjög veigamikil mistök þegar þeir fóru að blanda saman framleiðslu, flutningi og dreifingu fyrir hinn almenna notendamarkað og þjónustu við stórnotendur og blönduðu því saman í óskiptu eignarhaldi fyrirtækja. Ég held að margt mundi líta öðruvísi út í dag ef virkjunum og framleiðslu til stóriðju hefði verið haldið aðskildum frá byrjun og hinn almenni markaður á Íslandi hefði fengið að njóta góðs af afskriftum virkjana og stofnfjárfestinga og þá væntanlega möguleikum á stórlækkuðu raforkuverði í kjölfarið. Það hefur því miður ekki verið gert og niðurstaðan er sú að við, landsmenn, almennir notendur og iðnaður í landinu njótum alls ekki þess sem ætti að vera einn af höfuðkostum þess að búa í þessu landi, þ.e. að hér ætti að vera hægt að hafa mjög hagstætt orkuverð til almennra notenda og nýta það sem aflvaka í atvinnusköpun og þróun í samfélaginu.

Það eru auðvitað ein af okkar stóru hlunnindum að hafa heita vatnið og ég er ekki viss um að landsmenn geri sér alltaf grein fyrir því hvílík lífsgæði eru í því fólgin að búa á svæðum þar sem eru ódýrar hitaveitur og þar sem hægt er að reka flottustu sundlaugar í heimi undir berum himni allt árið um kring o.s.frv. og með viðráðanlegum kostnaði af því við njótum þeirra miklu gæða sem jarðvarminn er. En á raforkusviðinu hefur þetta hins vegar ekki tekist með sama hætti og nú finnst mér að í raun og veru sé verið að stofna ávinningunum af því að hafa byggt upp myndarleg fyrirtæki til að virkja jarðvarma og dreifa heitu vatni, til að hita upp hús og dreifa í sundlaugar og annað í þeim dúr í hættu með þessu misráðna frumvarpi og þá á ég bæði við það sem lýtur að eignarhaldi og því sem lýtur að uppskiptingu fyrirtækjanna.

Það er ástæða til að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar kemur að einkavæðingu í orkumálum. Í raun og veru held ég að markaðsvæðingarhugsunin, nýfrjálshyggjueinkavæðingarhugsunin reki sig á fáum sviðum jafnharkalega á raunveruleikann eins og þegar að kemur að því brölti sem menn hafa staðið í seinustu 15–25 árin, þ.e. að reyna að innleiða lögmál markaðsvæðingarinnar og einkagróðasjónarmiðanna í viðkvæma þjónustu af því tagi sem það er að dreifa orku. Og það er vegna þess að þessi starfsemi nýtur eðli málsins samkvæmt í raun og veru lögmálum náttúrulegrar einokunar. Það er engin glóra í því að reka margfalt dreifikerfi fyrir raforku og tengja margar línur inn í hvert hús frekar en það er nokkur glóra í því að leggja margar vatnsleiðslur fyrir heitt og kalt vatn inn í hvert hús og mörg fráveitukerfi frá þeim til þess að hægt sé að keppa um það að selja rafmagnið inn í húsin eða vatnið inn í húsin eða frárennsli frá þeim.

Það sjá það auðvitað allir í hendi sér að eina vitið getur verið að hafa þarna eitt samtengt og samrekið dreifikerfi. Þá koma upp lögmál svokallaðrar náttúrulegrar eða efnislegrar einokunar. Og hvað gera menn þá? Horfast menn í augu við það að þannig lögmál ríkja þá á þessu sviði og í þessari þjónustu? Nei, þá fara menn að brölta við það að smíða flókið regluverk sem á að opna fyrir möguleikana á svokallaðri samkeppni engu að síður og setja viðamikla lagabálka um eftirlit og útreikninga og varúðarráðstafanir til þess að menn misnoti ekki hina náttúrulegu einokunaraðstöðu sína sem liggur í eðli máls. En þó eiga menn að geta grætt á þessu og það er jú hugsunin. Það fylgir markaðsvæðingarhugsuninni og í raun er þessi starfsemi flutt af sviði þjónustu yfir á svið hefðbundins atvinnurekstrar þar sem athafnasemin er drifin áfram af einkagróðasjónarmiðum.

Hvernig hefur þetta svo tekist? Það eru himinhrópandi dæmin út um allt í þeim efnum. Menn þekkja sögurnar frá austur- og vesturströnd Bandaríkjanna. Menn þekkja rafmagnsleysi á Kaupmannahafnarsvæðinu. Menn þekkja ófarir Nýsjálendinga. Menn þekkja vandamál Breta og menn þekkja linnulaus átök og vandamál innan Evrópusambandsins þar sem menn eru enn í grenjandi ágreiningi um það hvernig eigi að reyna að troða þessari markaðsvæðingarhugsun dýpra inn í kerfið. Og stórþjóðir eins og Bretar og Frakkar reyna að verja þó það sem eftir er af opinberu eignarhaldi og opinberri stýringu í þessum efnum af því að menn sjá einfaldlega ekki fyrir sér að slík markaðsvæðingar- og samkeppnishugsun gangi upp nema með óheyrilegum kostnaði, mun hærra verði, lakari þjónustu og skammtímahugsun í kerfinu sem gjarnan fylgir því þegar horft er meira á möguleikana á því að kreista gróða út úr rekstrinum á tilteknum tíma í stað þess að horfa til langs tíma, leggja í nauðsynlegar fjárfestingar og nauðsynlegt viðhald þannig að unnt sé að halda uppi nægjanlegu afhendingaröryggi og þar fram eftir götunum.

Þessi hugsun gengur ósköp einfaldlega ekki upp og hún er vörðuð árekstrum og deilum alveg frá byrjun og er það enn þann dag í dag. Meira að segja í því landi háborgar kapítalismans, í Bandaríkjum Norður-Ameríku hafa menn orðið að játa sig svo sigraða í þessum efnum að opinberir aðilar, ríki og jafnvel alríkisstjórnin hafa leyst til sín og þjóðnýtt á nýjan leik fyrirtæki og dreifikerfi sem voru algjörlega að hruni komin og hætt að þjóna tilgangi sínum. En það er ekki gefist upp heldur er trúað á þetta áfram og illu heilli lenti Ísland inni í þessu. Annars vegar af pólitískum og hugmyndafræðilegum orsökum hér heima fyrir af því hér auðvitað menn sem trúa bara Biblíunni, trúa bara því að það hljóti að vera gott að einkagróðasjónarmiðin taki hér til hendinni og hins vegar er það vegna þess að því var ekki sinnt og um það var ekki hirt að reyna að leita eftir því að Ísland gæti viðhaldið sérskipan sinni í þessum málum og menn tóku hér við pökkum frá Evrópusambandinu og innleiddu þá á sínum tíma eins og kunnugt er og var ótrúlegur sofandaháttur ríkjandi gagnvart því á Alþingi sem í vændum var og ekki hlýtt á varnaðarorð í þeim efnum. Það var því ekki fyrr en þeir stóðu frammi fyrir markaðsvæðingu raforkukerfisins á árunum 2002–2003 sem ýmsir fóru að vakna upp við vondan draum. Þá stóð náttúrlega það upp úr öðrum hverjum manni þvert á hið pólitíska litróf að þetta væri sennilega hið mesta óráð. Grjótharðir sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur fóru að kveina undan því þar að sennilega væri tóm vitleysa að við Íslendingar værum að lenda inni í þessu evrópska regluverki og að hugsa til þess að búa til samkeppnismarkað fyrir raforku á öllu meginlandi Evrópu, tengdri við Skandinavíu o.s.frv.

En nú er staðan þannig að vandamálin innan Evrópusambandsins hafa leitt til þess að þar eru menn enn að smíða það sem kallað er þriðji pakkinn í orkutilskipunum og hann er sjálfsagt væntanlegur á okkar fjörur innan svona eins til þriggja ára ef að líkum lætur. Þess vegna held ég að þetta brölt okkar nú í orkumálum sé misráðið vegna þess að það vænlegasta væri að halda sjó og hrófla hvergi við opinberu eignarhaldi þar sem það er til staðar, slá skjaldborg um það, láta sér dæmið frá Hitaveitu Suðurnesja verða víti til varnaðar og reyna svo að ná Íslandi út úr hinu evrópsku regluverki í sambandi við innleiðingu þriðja pakkans um orkumál. Það hlýtur að vera þannig og því hefur að minnsta kosti ekki verið andmælt þar sem ég hef spurt að því hvort leiðin hljóti ekki að geta legið í báðar áttir við þær aðstæður að menn taka málin upp og þau eru til umfjöllunar eins og þau eru núna og verða innan Evrópusambandsins.

Það hefur komið á daginn að það var auðvitað langt í frá réttum upplýsingum miðlað til Alþingis þegar menn komu með gömlu nauðhyggjuröksemdirnar um að við yrðum bara að taka við þessu eins og þetta kæmi af skepnunni frá Evrópu. Síðan smátínist það inn í umfjöllun Alþingis um þessi mál á árunum þar á eftir að fjölmargar þjóðir hafa fengið meiri og minni undanþágur frá þessu eða sérframkvæmd vegna sérstöðu sinnar, t.d. eyjar í Miðjarðarhafinu, ríki í Austur-Evrópu með vanþróaðan orkumarkað, jafnvel ríki eins og Lúxemborg. En um þetta var sem sagt ekki sinnt af hagsmunagæslumönnum okkar og það er mjög ámælisvert.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á þann þátt sem snýr að uppskiptingu fyrirtækjanna og stöðu fyrirtækisins Landsnets. Hér er verið að fara í algjörlega í öfuga átt með því að opna fyrir allt að 49% einkavæðingu á því fyrirtæki eins og í raun og veru er verið að gera þarna. Þótt það standi kannski ekki til og önnur lagaákvæði hljómi í aðra átt þá er það nú ósköp einfaldlega það sem boðið er upp á hér í frumvarpi og breytingartillögum sem því tengjast, þar sem hörfað er frá tveggja þriðju hluta opinberu eignarhaldi og niður í 51% eða meiri hluta. Að mínu mati er þetta þvert á allt sem efnislega blasir við í stöðunni. Þetta er þvert á hið miðlæga hlutverk Landsnets. Þetta er algjörlega þvert á verkefni þess fyrirtækis sem fram undan er og blasa við og kalla miklu frekar á sterkt opinbert eignarhald og fjárfestingar sem þarf að ráðast í á vegum þess fyrirtækis, t.d. að styrkja dreifikerfið og hringtengingu orkunetsins í landinu. Auðvitað er eðlilegast að ríkið eigi þetta fyrirtæki alfarið, hafi makaskipti eða leysi til sín eignarhlut orkufyrirtækjanna sem eiga þetta á móti ríkinu og hafi þetta í sjálfstæðu óháðu fyrirtæki sem á sem slíkt samskipti við framleiðendurna og smásöludreifingaraðilana.

Ég er með í höndunum bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem ég geri ráð fyrir að hafi þegar borið hér á góma en þar hefur stjórnin ósköp einfaldlega komið saman til fundar og lagt til að ákvæði um þetta falli út úr frumvarpinu, að Landsnet sé vegakerfi orkunnar um landið og stjórnin, þ.e. stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telji afar brýnt að fyrirtækið verði áfram alfarið í opinberri eigu. Það væri því lágmark að mínu mati að það væri ekkert sett hérna inn í lagatexta sem hróflar við þó því opinbera eignarhaldi sem til staðar er í dag í formi þess sem ríkið á í gegnum eignarhlut sinn í Landsvirkjun og orkufyrirtæki stóru sveitarfélaganna á móti. En að stefna málinu í öfuga átt eins og gert er í þessum frumvarpstexta er út í hött.

Hvað eru þau ákvæði að gera inn í frumvarpið ef þær túlkanir manna eru réttar sem mér heyrist að séu uppi, að þetta eigi engu að breyta? Hvers vegna er þetta þá sett inn? Hvers vegna í ósköpunum er þessu ekki hent út? Og það er auðvitað ekkert mark á því takandi þegar menn bera á borð fyrir þingmenn frumvarpstexta og breytingartillögur sem ganga í eina átt og koma svo hér og segja að það sé ekkert að marka þetta því það gildi eitthvað allt annað. Ég botna bara ekkert í slíkri framsetningu. Hún er ekki boðleg. Ef það er þannig að það standi ekki til að hrófla neitt við þessu þá bið ég menn vinsamlegast að hreinsa þetta út úr frumvarpinu og vera ekki að flytja um það breytingartillögur sem ganga algjörlega í aðra átt.

Eins er þetta auðvitað með uppskiptingu fyrirtækjanna og það að menn skuli ætla að verða hér kaþólskari en páfinn og ganga mun lengra en þörf er á þó samkvæmt þessum vitlausu orkutilskipunum Evrópusambandsins, það bítur alveg höfuðið af skömminni. Hvers vegna láta menn ekki nægja þann bókhaldslega aðskilnað sem er ljóst að fullnægir öllum núgildandi reglum Evrópusambandsins og er alls ekkert ósýnt um að verði þannig til frambúðar? Því slagurinn um þetta mál er ekki búinn þar sem risarnir takast núna á úti í Evrópu um það hvort þeir nái að halda fyrirtækjum sínum saman eins og þau hafa verið rekin í dag.

Hvers vegna ætlar Ísland að ganga miklu lengra í markaðsvæðingarátt hvað varðar flutningafyrirtæki sitt en hin Norðurlöndin hafa gert? Hver eru rökin fyrir því að þetta megi ekki vera í opinberu fyrirtæki eins og það er enn þá í t.d. Noregi, Danmörku og Svíþjóð? Nei, hér ætlar Ísland að ganga lengra í þjónkun við markaðshyggjuna og þau öfl og verða kaþólskari en páfinn í Evrópumálum. Ganga mun lengra í að skipta upp fyrirtækjum hér á okkar örsmáa litla einangraða orkumarkaði heldur en þörf er á að gera úti í hinni stóru Evrópu. Hvers vegna? Hvaða rugl er þetta? Með tilheyrandi óhagræði og kostnaði. Þetta er það sem kallað er á máli hagfræðinganna öfug samlegðaráhrif. Menn tala mjög mikið um samlegðaráhrif þegar verið er að sameina fyrirtæki, það sé svo hagkvæmt að þá sé bara ein yfirstjórn og það sparist í stjórnunarkostnaði og það séu færri millilög og færri einingar. En hér er þá hið gagnstæða á ferðinni, þ.e. öfug samlegðaráhrif, kostnaður sem er borðleggjandi að verður. Menn hafa að vísu séð að sér hvað það varðar að það á ekki að þvinga allra minnstu fyrirtækin eða veiturnar í þetta samkvæmt breytingartillögum sem nefndin á síðustu stundu eða meiri hlutinn mun hafa komið sér saman um. Um tíma virtist málið ætla að þróast þannig að það átti bara að skipta upp hverju einasta hæti, Rafveitu Reyðarfjarðar, hvað þá öðru.

En Orkuveita Húsavíkur á víst að fá að vera sama í einu fyrirtæki og ég segi bara: Skárra væri það nú. Hvers konar steypa er það að sveitarfélag eins og Norðurþing megi ekki reka veitustarfsemi sína og orkudreifingarstarfsemi? (Gripið fram í.) Nei. Það er það sem ég var að segja. En þar með er líka látið staðar numið. Ætli það séu ekki bara Orkubú Vestfjarða, Húsavík og Reyðarfjörður sem sleppa fyrir horn? En Norðurorka og hin fyrirtækin eiga að skipta sér upp.

Nú er það þannig að við þyrftum ekki að skipta upp einu einasta fyrirtæki hér á Íslandi vegna þess að litlir og einangraðir orkumarkaðir og/eða fyrirtæki sem tengjast færri en 100.000 notendum mega vera saman. Hvað er þá verið að brölta þetta? Ég fæ bara engan botn í þetta. Ég tel að þetta mál sé algjörlega vanreifað og mjög vanhugsað, muni færa okkur úr öskunni í eldinn frá því sem varð eftir innleiðinguna 2003 og hefur það þó ekki heppnast sérstaklega vel, eða hvað? Er það ekki alveg viðurkennt að það hefur leitt til hærra raforkuverðs? Það hefur gert það. Samkeppni í þessum efnum er náttúrlega bara eins og hver annar brandari og ekkert annað með það að gera en að roknahlæja að því. Að reyna að bera það á borð fyrir okkur að þessi þrjú, fjögur fyrirtæki öll í opinberri eigu, landfræðilega sett eins þau eru og hvert öðru háð eins og þau eru geti stundað einhverja eðlilega samkeppni. Það er ekkert annað með það að gera en að hlæja að því þó að manni sé kannski ekki hlátur í hug.

Ég held hreinlega að vænlegast væri að fresta afgreiðslu þessa máls. Því miður er það alls ekki að ná þeim yfirlýsta og fallega tilgangi sem reynt var að nota til að selja það að þetta eigi að slá einhverja skjaldborg um opinbert eignarhald auðlindanna. Enda eru aðrar og nærtækari ráðstafanir til þess ef hugur manna stendur raunverulega til þess (Forseti hringir.) að setja það í lög í stjórnarskrá að orkuauðlindirnar skuli vera sameign þjóðarinnar.