135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:04]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var merkileg síðasta yfirlýsing hv. þingmanns þar sem hann leggur til að þessu máli verði slegið á frest. Þá eru tveir aðilar búnir að gera það í dag, annars vegar Viðskiptaráð og síðan formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál til þess að ná utan um eignarhald á orkuauðlindunum. Það er ekkert, hvorki í breytingartillögum okkar né í þessu frumvarpi, sem gefur tilefni til yfirlýsinga af því tagi sem hv. þingmaður kom með hér áðan í ræðu sinni þar sem hann sagði að hér væri verið að slá af opinberu eignarhaldi orkuauðlinda. Það er bara einfaldlega rangt.

Samkvæmt þessu frumvarpi og breytingartillögunum er tryggt að allar orkuauðlindir okkar sem eru nú þegar á hendi opinberra aðila — og síðan mun Hitaveita Suðurnesja bætast í þann hóp þegar hún hefur staðið við yfirlýsingar sínar um breytingar á eignarhaldi auðlinda sinna þannig að það falli að þessu frumvarpi — verða þessar auðlindir áfram 100% í eigu opinberra aðila og þeim verður óheimilt að framselja þær. Þetta er því beinlínis ekki rétt. Þegar hv. þingmaður og flokkur hans tala um að hér sé einhvers konar einkavæðing á ferð er það líka rangt vegna þess að þetta frumvarp er takmarkandi meira og minna að öllu leyti. Í dag er allt galopið hvað varðar eignarhald í orkufyrirtækjunum. Þetta vita hv. þingmenn og eiga ekki að bera svona vitleysu hér á borð. Það er einmitt markmið þessa frumvarps að tryggja meirihlutaeign hins opinbera, það er ekkert í núgildandi lögum sem tryggir það á sérleyfisstarfseminni.

Virðulegi forseti. Ég kem betur inn á það í seinna svari mínu sem haldið hefur verið fram um Landsnet. En ég ítreka enn og aftur að mér þykir þetta merkileg yfirlýsing hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að menn telji að það megi fresta þessu. Ég taldi að vinstri grænir styddu að við næðum að halda orkuauðlindunum 100% (Forseti hringir.) í eigu opinberra aðila áfram sem þetta frumvarp boðar og ekkert í breytingartillögum okkar breytir því.