135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins stendur að flutningsfyrirtækið, sem er Landsnet, skuli ávallt vera að lágmarki að 2/3 í eigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Nú á að lækka þetta hlutfall niður í meiri hluta. Þetta eru víðtækari lög og yngri þeim sem áður voru sett auk þess sem það ákvæði á að koma til endurskoðunar. Ég er ekki viss um að þessi lögfræði sé á mjög sterku svelli hjá hv. þingmanni og hefði gaman af að sjá lögfræðiálit þar sem þetta er skoðað af bærum aðilum.

Það er alveg ljóst að með þeim ákvæðum sem hér á að fara að lögtaka sem gera mögulega þessa uppskiptingu og leigu fyrirtækjanna, gæti þetta endað tiltölulega hratt þannig að ekkert nema virkjunarréttindin sjálf væru í hendi opinberra aðila en allur hinn reksturinn kominn yfir í hendur einkaaðila. Þetta er veruleikinn, þetta er það sem opnast með þessum lögum. Ég held því ekki fram hér að það sé líklegt til þess að gerast í einu vetfangi. Ég er ekki að gera mönnum upp neinn ásetning um það þó að við vitum vel að þau sjónarmið hafa verið uppi í landinu á ákveðnum stöðum, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, að hefja eigi einkavæðingu í orkumálum. Leggjum það til hliðar um sinn. Horfumst bara í augu við að hinar lagalegu leiðir verða hér opnaðar og það er það sem við höfum engan áhuga á að sé gert. Við vildum frekar fara í gagnstæða átt og í orði kveðnu hafa menn talað þannig að það væri stemning fyrir því að taka t.d. ákvæði upp í stjórnarskrá um sameign á auðlindum af þessu tagi. En það er alveg greinilegt að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir hér eða þá að menn segja eitt og gera annað.