135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það varðar nú ekki mikið mína afstöðu og míns flokks í þessu máli þó að Viðskiptaráð álykti um málið frá algerlega öndverðum sjónarhóli og vilji fara alla leið í hina áttina, þeir hefðu auðvitað helst viljað einkavæða þetta allt í gær. Það á ekkert skylt við það sem við erum hér að reisa, að við viljum fara í hina áttina með málið, við viljum slá miklu sterkari skjaldborg um þjóðareignina eða sameignina á þessum mikilvægu auðlindum og þessari starfsemi. Við erum líka andvíg því að innleiða einkagróðasjónarmiðin í þessa einokunar- eða fákeppnisstarfsemi sem lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar og við viljum nálgast sem þjónustu miklu frekar en sem atvinnurekstur í hagnaðarskyni.

Það að það sé kostur fyrir þessa starfsemi að laða að fé og þekkingu frá einkaaðilum — ég skrifa ekki endilega upp á að á því sé mikil þörf. Í fyrsta lagi hélt ég að þessi fyrirtæki væru ekki mjög blönk, þau eru almennt vel stödd og sterk vegna þess að þau hafa byggst upp og notendur hafa gegnum greiðslur sínar á umliðnum áratugum byggt upp sterkt fyrirtæki sem þeir eiga þar með að eiga áfram. Er það ekki öfugt, er það ekki það sem við höfum upplifað, ásókn einkaaðila inn í þessi fyrirtæki og í þekkinguna sem þar er en ekki þannig að þeir standi einhvers staðar álengdar með bæði þekkingu og peninga til að koma þarna inn?

Mér er nær að halda að þetta snúi einmitt öfugt, hv. þingmaður, að einkagróðaöflin mæni vonaraugum á þessi sterku fyrirtæki, aðstöðuna sem þau eru í, virkjunarréttindin sem þau hafa í sínum höndum og þekkingu starfsmannanna. Að þetta snúist einmitt sérstaklega um það, eins og dæmið frá Hitaveitu Suðurnesja sýnir, að lenda ekki í þeim ósköpum sem þar gerðust. Eins hélt ég að menn hefðu kannski farið að hugsa sinn gang hér í borginni Reykjavík eftir þau ósköp sem gengið hafa á í þessum málum þar í vetur.