135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:17]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að fara fram á að menn sættust á þau sjónarmið sem Viðskiptaráð stæði fyrir, langur vegur frá. Ég var einungis að taka undir með hv. formanni iðnaðarnefndar varðandi þau ólíku sjónarmið sem uppi eru í samfélaginu um þennan þátt. Ég bið forláts ef orð mín hafa skilist á þann veg að ég væri að mælast til þess að hv. þingmaður tæki undir þau sjónarmið sem Viðskiptaráð stæði fyrir.

Ég get ekki á neinn hátt tekið undir hvað varðar þennan gríðarlega gróða og græðgi einkaaðila sem eru að sækja inn á þennan vettvang. Þvert á móti hefur komið fram, m.a. í umsögnum orkufyrirtækja, sveitarfélaga út um land, í heimsóknum þeirra að þau kvarta undan því að regluverkið sem m.a. hefur verið dregið um raforkuhlutann í fyrirtækjum þeirra sé þannig úr garði gert af hálfu hins opinbera að þau hafi ekki nokkra einustu afkomu. Gróðinn hjá þeim er ekki ein einasta króna. Sumir ganga svo langt að fullyrða að þetta sé rekið með tapi. Það umhverfi sem þarna hefur verið hefur ekki boðið mönnum upp á það, langur vegur frá.

Eitt af stóru atriðunum sem tiltölulega mikill samhljómur er í í þeim umsögnum sem nefndin hefur fengið er m.a. það að hvetja til meiri samkeppni á þessum markaði. Það hefur komið upp frá fyrirtækjunum sjálfum, það er undirstrikað í umsögn Samkeppniseftirlitsins. Undir þetta er tekið og inn í frumvarpið er þetta sjónarmið leitt í þeirri viðleitni að bæta hag neytenda og vonandi til þess að geta lækkað orkuverð þar sem aðstæður eru til þess. Það kerfi sem verið hefur hefur ekki á neinn hátt skilað okkur þeirri samkeppni sem unnt er að leiða inn á þennan markað, um það eru allir sammála sem til þessara mála þekkja.