135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:39]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú gott að ekki ætlaði meiri hlutinn að skipta Rafveitu Reyðarfjarðar upp með handafli. Ég verð að segja að það gleður mig að það hafi aldrei staðið til en ég hef þegar fagnað því að horfið var frá þeirri tillögu um það sem meiri hlutinn sannarlega kom með.

Það er alveg rétt að það var algjörlega ónothæft þetta 2 milljarða mark sem var í frumvarpinu. Hv. formaður iðnaðarnefndar hefur ítrekað nefnt það sem dæmi að nefndin, meiri hluti nefndarinnar, hafi komið til móts við Samband íslenskra sveitarfélaga sem benti á þetta. En það var ekki einn einasti umsagnaraðili sem um þetta fjallaði sem ekki benti á að þetta væri ónothæft. Þarna ætti hv. formaður nefndarinnar frekar að segja að það hefði verið komið til móts við alla sem tjáðu sig yfir höfuð um þetta, sem sögðu að þetta væri ónothæft.

En aðeins um Landsnet. Ég vil vekja athygli á að í XII. bráðabirgðaákvæðinu í raforkulögunum segir undir fyrirsögninni:

„Takmörkun á heimild til framsals hlutafjár í flutningsfyrirtækinu.

Eigendum hlutafjár í flutningsfyrirtækinu er einungis heimilt að framselja hlutafé sitt til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu en ekki til aðila utan þess.“

Við vitum hverjir eru eigendur hlutafjár í fyrirtækinu núna. Við vitum að það eru allt saman opinber fyrirtæki. Þeim er ekki heimilt að framselja hlut sinn nema sín í milli samkvæmt þessu. En samkvæmt 4. gr. þurfa þau ekki að eiga nema 51% sameiginlega, þau sem eiga það núna eða aðrir opinberir aðilar, og það verður að vera í hreinni eign. Því stendur það klárlega það sem við höfum sagt, að þessi heimild opnar á sölu 49% hluta af Landsneti.