135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:56]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Fyrst varðandi hitaveiturnar. Mér finnst eðlilegt að inn í tilskipanir Evrópusambandsins vanti að setja eitthvað um hitaveitur vegna þess að þeir þekkja lítið til slíkra „apparata“ suður þar. Ég tel í grunninn að það sé algjörlega nauðsynlegt að innleiða þær reglur varðandi hitaveiturnar að sérleyfisþátturinn sé áfram í opinberri eigu og jafnframt að það sé mikilvægt að tryggja hér opinbert eignarhald á auðlindunum. Að því leyti finnst mér algjörlega eðlilegt að þessi lög nái yfir þann þátt líka. Það er jafnvel brýnna vegna þess að það væri ekki heppileg þróun ef við töpuðum okkar miklu orkuauðlindum, hveraauðlindum, í hendur einkaaðila þar sem allar líkur eru á því að þetta séu auðlindir sem muni vaxa mjög mikið í verði á næstu árum og áratugum. Það er miklu nær að einstakir aðilar hafi þarna rekstrarleyfi eins og kveðið er á um í lögum þessum.

Varðandi það hvort heppilegt sé að einkaaðilar geti eignast 49% í holræsakerfi Reykjavíkurborgar, svo dæmi sé tekið, þá sé ég í sjálfu sér ekki héraðsbrest í því. Þó að ég telji að nóg hafi verið gert í einkavæðingu um sinn mundi ég ekki útiloka það um alla framtíð að það gæti verið allt í lagi undir einhverjum kringumstæðum. Ég sé þó ekki alveg að einkaaðilar muni stökkva svo glatt á það meðan meirihlutaeigan væri í ríkiseigu. Þó svo að ég hefði viljað hafa þetta hlutfall hærra, (Forseti hringir.) þ.e. 60%, þá tryggir það í rauninni töluvert mikið að það sé í 51%.