135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[22:00]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Því er nú til að svara í þessum efnum að Framsóknarflokkurinn hefur lengi aðhyllst blandað hagkerfi. Ég sé ekki að það sé einhver stórpólitísk markalína hvort einkaaðilar geti eignast hlut í fyrirtækjum í sérleyfisbundnum rekstri eins og holræsum þó að ég telji eðlilegra, alla vega við núverandi aðstæður, að þetta sé í eigu sveitarfélaganna og opinberra aðila. Þetta er ekki alls staðar í eigu þeirra sveitarfélaga sem þjónustunnar njóta. Það má því segja að þar sem þetta eru fyrirtæki á stærri grunni, og jafnvel sem þjónusta sveitarfélög sem ekki eiga í fyrirtækinu, að bilið milli þess og ef það væri í einkaeigu er orðið mjótt.

Ég tel aðalatriðið í þessu vera að slá vörn um auðlindirnar. Það tel ég vera rökin fyrir því að Alþingi beri að samþykkja þessi lög jafnvel þó að það séu á þeim einhverjir gallar og eitthvað sem við þurfum síðan að bæta enn betur úr. Ég hefði viljað sjá ákvæðið um auðlindirnar áfram í 2/3, í 67% en niðurstaða meiri hlutans er sú að ekki náðist þar sátt um meira en 51%. Ég tel það miður en það er þó betra en að ekkert sé að gert til að slá vörn um þetta samfélagslega eignarhald á orkuauðlindum landsmanna.