135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[22:23]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram er hér verið að ræða talsvert afdrifaríkt og þýðingarmikið mál sem er frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Ég held að flestir geti tekið undir að þetta sé þýðingarmikið mál sem varðar margar grundvallarspurningar.

Ég vil fyrst aðeins víkja að undirbúningi málsins og þá með hvaða hætti frumvarpið er samið, hvernig það lítur eða snýr að ýmsum hagsmunaaðilum sem frumvarpið snertir á afdrifaríkan hátt og hefur óneitanlega talsvert mikið um að segja.

Við höfum stundum áður í umræðum um frumvörp í vetur veifað hér grárri bók sem heitir Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa og gefin er út af forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og skrifstofu Alþingis og á að vera leiðsögn til þeirra sem vinna að gerð lagafrumvarpa í Stjórnarráðinu, um það hvernig vandaður undirbúningur að lagasetningu, hvernig frumvarpssmíð á að fara fram. Þar er m.a. fjallað um samráð við hagsmunaaðila í undirbúningi frumvarpa og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samráð stuðlar að því að forsendur mála liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin. Einnig styðst samráð við þau lýðræðisrök að þeir sem ákvarðanir varða eigi þess kost að hafa áhrif á efni þeirra. Æskilegt er að efna til samráðs við hagsmunaaðila og almenning við gerð allra þýðingarmeiri frumvarpa eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Við mat á því hvort frumvörp eru þýðingarmikil mætti líta til þess hvort um nýja stefnumörkun er að ræða sem horfir til breytinga á viðkomandi málefnasviði, nýjar skyldur eru lagðar á einstaklinga, atvinnulíf, sveitarfélög o.s.frv., réttindi framangreindra aðila eru aukin eða þau skert og fyrirhugaðar breytingar snerta marga.“

Síðan segir enn fremur í þessari ágætu bók, með leyfi forseta:

„Kosturinn við að efna til samráðs um frumvörp áður en þau eru lögð fram á Alþingi er sá að á því stigi er gjarnan auðveldara að taka tillit til athugasemda. Enn fremur er tími þingnefnda til að fara yfir athugasemdir oft knappur eftir að mál hafa verið lögð fram.“

Þetta eru auðvitað orð að sönnu og ekki ástæðulaust að í þessari handbók er kveðið á um svona vönduð vinnubrögð og hvernig samráði er best háttað. Nú vill svo til varðandi það frumvarp sem hér er til umræðu á breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði að það virðist sem mjög hafi skort á að samráð væri haft við aðila sem ríkra hagsmuna eiga að gæta. Í því sambandi vil ég nefna sveitarfélögin í landinu sem eru að sjálfsögðu stór hagsmunaaðili þegar litið er til þess að flest orkufyrirtæki landsins eru í eigu, flest alfarið í eigu opinberra aðila og í mjög mörgum tilvikum sveitarfélaganna. Þar af leiðandi hefði verið eðlilegt að leita eftir samráði og samstarfi við þau strax á undirbúningsstigi þessa máls. Hið sama má auðvitað segja um orkufyrirtækin þar sem er auðvitað sérfræðiþekking á þessu sviði. Hér erum við því enn eina ferðina með dæmi um lagafrumvarp sem ekki uppfyllir þær kröfur um vandaða frumvarpssmíð sem gefin hefur verið út í handbók af hálfu ráðuneytanna tveggja sem ég nefndi, forsætisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis annars vegar og síðan skrifstofu Alþingis.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér, herra forseti, hver tilgangurinn sé með útgáfu af þessu tagi, en þessi ágæta handbók er gefin út í nóvember 2007, og hvort ekki sé tilefni til þess þegar þessu þingi lýkur að farið verði yfir það af hálfu skrifstofu Alþingis, af hálfu skrifstofu forseta í hve ríkum mæli þau lagafrumvörp sem hafa komið inn í vetur hafa fylgt þeirri forskrift sem handbókin segir til um. Mér segir svo hugur að það verði í afskaplega fáum tilvikum hægt að segja að svo sé og ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að læra af reynslunni í þessu efni, að það verði farið yfir það af skrifstofu forseta hvaða frumvörp hafa uppfyllt þær kröfur sem þarna eru settar fram og hver ekki og við gætum þá dregið af því lærdóm fyrir framhaldið. Það held ég að sé þýðingarmikið.

En, virðulegi forseti, nóg um þetta atriði. Það hefur talsvert verið rætt um það sem helst ber á milli sjónarmiða í nefndarálitum út úr hv. iðnaðarnefnd og þar er eignarhaldið auðvitað mikið til umræðu. Ég vil þó geta þess strax í upphafi að það kemur fram í upphafi greinargerðar hver tilgangurinn með þessu frumvarpi er. Það hefur komið fram í máli þingmanna sem hafa talað fyrir nefndaráliti, raunar bæði meiri hluta og minni hluta, að tilgangurinn eigi að tryggja eignarhald þjóðarinnar á orkuauðlindum, vatnsafli og jarðvarma. Ég vil ekki láta hjá líða, herra forseti, að geta þess að um markmið af þessum toga er örugglega býsna víðtæk pólitísk samstaða þannig að sá ágreiningur sem er uppi og birtist í mismunandi nefndarálitum og mismunandi breytingartillögum snýst í sjálfu sér ekki um þetta markmið. Hins vegar er það sjónarmið einnig uppi, m.a. af hálfu 2. minni hluta í nefndinni, að frumvarpið sjálft tryggi í raun ekki nægilega það sem því er ætlað að gera og að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn í iðnaðarnefnd hefur lagt fram gangi frekar í öndverða átt við það sem lagt var upp með í upphafi í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra. Um þetta eru bersýnilega skiptar skoðanir, ég hef fylgst með umræðunni og heyrt talsmenn meiri hlutans, m.a. hv. þm. formann iðnaðarnefndar halda öðru fram. Henni er að sjálfsögðu frjálst að hafa þá skoðun en við reynum að rökstyðja það viðhorf okkar að þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir gangi frekar í öndverða átt við það sem tilgangur frumvarpsins er sagður og það markmið sem kemur fram í frumvarpinu eins og það er lagt fram og var mælt fyrir af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra.

Mismunandi sjónarmið um að hve miklu leyti við erum skuldbundin til að taka upp raforkutilskipun og ákvæði raforkutilskipunar Evrópusambandsins, sú umræða er auðvitað ekki ný af nálinni í sölum Alþingis, hún hefur farið fram áður og það hafa verið uppi alls kyns viðhorf og sjónarmið til þess. Nú hef ég oft heyrt bæði talsmenn núverandi ríkisstjórnar og einnig fyrrverandi ríkisstjórnar tala um að við séum skuldbundin til að taka upp þessa raforkutilskipun og stundum finnst mér satt að segja eins og þeir sem eru hallir undir aðild að Evrópusambandinu tali bara alltaf á þeim nótum að við séum skuldbundin til að taka upp þetta og hitt og það fari ekki fram neitt sjálfstætt mat á því gagnvart íslenskum hagsmunum og gagnvart EES-samningnum hvort tilteknar tilskipanir séu undir hann settar eða ekki eða hvort undanþáguákvæði eigi hugsanlega við eða ekki, heldur sé það nánast „tilgangurinn helgar meðalið“-viðhorf, af því að eitthvað kemur frá Brussel og Evrópusambandinu þá skuli það bara innleitt hér eiginlega alveg burt séð frá öllum efnisatriðum máls. Þetta viðhorf finnst mér vera ríkjandi í hugum þeirra sem tala mjög eindregið fyrir aðild að Evrópusambandinu og mér finnst það bagalegt. Mér finnst að menn verði að nálgast þetta mál alveg burt séð frá því hvaða afstöðu menn hafa til Evrópusambandsins einfaldlega út frá þeim hagsmunum sem hér eru í húfi.

Í mínum flokki höfum við oft talað um það að við hefðum betur sett fram fyrirvara gagnvart raforkutilskipuninni, það hefði áreiðanlega verið hægt að fá einhverja undanþágu eða aðlögun að henni en að það hafi ef til vill ekki verið reynt. Reyndar hefur maður svo líka heyrt það frá þeim sem þarna voru á vettvangi að það hafi út af fyrir sig verið rætt en ekki fengist og hugsanlega vegna þess að það hafi vantað pólitískt bakland hér heima til þess að láta á slíka undanþágu reyna. Um það get ég auðvitað ekki fullyrt nákvæmlega þar sem ég var svo sem ekki á staðnum við það borð.

Síðan er auðvitað mikilvægt að hafa það líka í huga að í umræddri tilskipun er, eins og ég hef lesið mér til, undanþága fyrir þeim mikla aðskilnaði sem raforkutilskipunin gerir ráð fyrir á milli fyrirtækja gagnvart raforkufyrirtækjum sem þjóna færri en 100 þúsund tengdum viðskiptavinum eða þjóna litlum einangruðum kerfum. Ég fæ ekki betur séð en að þetta eigi við á Íslandi almennt, að það sé enginn aðili hér sem þjónar fleiri en 100 þúsund tengdum viðskiptavinum og þar af leiðandi ætti þetta undanþáguákvæði raforkutilskipunarinnar almennt við á Íslandi og af þeim sökum hefðum við ekki þurft að ganga þá leið sem hér er verið að leggja til. Þar fyrir utan hefur á það verið bent að þessi tilskipun nær að sjálfsögðu ekki til hitaveitna og hér er því, að mínu viti, verið að ganga lengra en tilskipunin gerir ráð fyrir eða gerir kröfu til og það finnst mér vera óþarfi. Mér finnst að þeir sem gera tillögu um það verði að rökstyðja það alveg sérstaklega af hverju það er nauðsynlegt.

Síðan höfum við hér ákvæði um aðskilnað milli sérleyfisstarfseminnar og samkeppnisstarfseminnar og ég veit að það virðist oft flókið í umræðu hvað er sérleyfisstarfsemi, hvað er samkeppnisstarfsemi og hvernig þetta virkar hreint praktískt þegar á hólminn er komið. Mig langar í því sambandi einfaldlega að taka dæmi af Orkuveitu Reykjavíkur sem er í dag eitt fyrirtæki sem þjónustar íbúa höfuðborgarsvæðisins á starfssvæði sínu bæði með rafmagn, með heitt vatn, kalt vatn og það rekur líka fráveitu, þ.e. holræsakerfin og er með gagnaveitu. Hvað þýðir þessi löggjöf fyrir fyrirtæki eins og þetta? Jú, hún þýðir að það verður væntanlega að skipta Orkuveitu Reykjavíkur upp í þrjú fyrirtæki og má þá rifja það upp að á sínum tíma voru hér þrjú veitufyrirtæki í Reykjavík, Rafmagnsveita Reykjavíkur, Hitaveita Reykjavíkur og Vatnsveita Reykjavíkur sem voru á 10. áratugnum sameinuð í tveimur skrefum í eitt fyrirtæki, m.a. til þess að ná fram hagræðingu í starfsemi og rekstri. Það er óumdeilt og á því fór fram sérstök athugun nokkrum árum eftir sameininguna að sú ákvörðun sem meiri hlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur tók á sínum tíma, Reykjavíkurlistinn, að sameina orkufyrirtækin í eitt, skilaði verulegum rekstrarlegum fjárhagslegum ávinningi. Um það er ekki deilt og ég held að það hafi komið íbúum höfuðborgarsvæðisins til góða með afdráttarlausum hætti.

Nú mun þurfa að skipta þessu fyrirtæki aftur upp eftir því sem mér sýnist best í a.m.k. þrjú fyrirtæki, þ.e. eitt fyrirtæki sem verður eins konar móðurfélag og verður þá eigandi að auðlindunum sjálfum og eigandi að hlut hins opinbera, sveitarfélaganna, þ.e. orkuveitunnar, í dótturfyrirtækjum. Þetta fyrirtæki verður þá alfarið í eigu sveitarfélaganna eða í opinberri eigu. Síðan verður að stofna tvö önnur fyrirtæki, dótturfyrirtæki sem sér um sérleyfisstarfsemina, sem er þá dreifiveiturnar, þ.e. fyrirtæki sem sér um að dreifa rafmagni eða heitu vatni eða þess vegna köldu vatni til notenda af því að það er sérleyfisskyld starfsemi, og hins vegar fyrirtæki sem á að sjá um samkeppnishlutann, þ.e. söluna á rafmagninu og heita vatninu og þess vegna vinnsluna.

Þessi fyrirtæki þurfa ekki að vera í 100% opinberri eigu vegna þess að hér er gert ráð fyrir því — upphaflega var í frumvarpinu gert ráð fyrir því að fyrirtæki sem væri með dreifikerfið og hitaveiturnar gæti verið í eða ætti að vera alla vega að tveimur þriðju hlutum í eigu hins opinbera og það mætti að einum þriðja hluti vera í eigu einkaaðila, en núna gera breytingartillögur meiri hlutans ráð fyrir því að það sé nægilegt að 51% sé í eigu hins opinbera en 49% megi selja til einkaaðila. Við höfum verið að færa rök fyrir því að þarna sé í raun verið að ganga í öfuga átt, þarna sé verið að koma lengra til móts við þau pólitísku sjónarmið sem vilja markaðsvæða þessa orkustarfsemi.

Er þá ekki skiljanlegt að menn bendi á það hverjir það eru sem kalla eftir því? Jú, það er t.d. annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem í landsfundarsamþykktum sínum hefur ályktað um mikilvægi þess að markaðsvæða orkufyrirtækin og ég fæ því ekki betur séð en að í meðförum þingsins hafi Sjálfstæðisflokknum í raun orðið betur ágengt gagnvart Samfylkingunni en við ríkisstjórnarborðið þó, því að í upphaflegu frumvarpi iðnaðarráðherra var gert ráð fyrir að einungis mætti selja 33% af opinberri eigu í þessum fyrirtækjum en nú er það hækkað í 49%. Þessa stefnubreytingu gagnrýnum við og teljum, eins og svo sem hefur komið fram hjá fleiri ræðumönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hér sé verið að stefna hagsmunum almennings í nokkra tvísýnu vegna þess að reynslan hvarvetna um heim hefur sýnt það að þar sem leið markaðsvæðingar og einkavæðingar orkufyrirtækja hefur verið farin hefur það iðulega skilað sér í hærra orkuverði og lakara afhendingaröryggi á raforku. Við heyrum fréttir um það alltaf af og til í fjölmiðlum um heilu borgirnar, heilu héruðin og svæðin, fylkin, jafnvel löndin sem verða fyrir rafmagnstruflunum, rafmagnsskorti vegna þess að það hentar ekki einkavæddu orkufyrirtæki að selja orkuna á því verði sem er í boði á tilteknum tímum, eðlilega þegar lögmálin um framboð og eftirspurn eiga að ráða ferðinni þá vitum við hvernig það fer og þegar arðsemissjónarmiðið eru komin inn, vegna þess að auðvitað mun verða gerð önnur og meiri arðsemiskrafa þegar einkaaðilar eru komnir inn í þennan rekstur. Það er ekkert óeðlilegt, það bara liggur í hlutarins eðli að einkaaðilar gera meiri kröfur um arðsemi af sínu eigin fé en opinberir aðilar sem eru að fjárfesta með samfélagsleg viðhorf og samfélagslega hagsmuni að leiðarljósi. Þegar meiri arðsemiskrafa kemur inn þá hlýtur hún að endurspeglast í orkuverðinu til neytenda.

Ég held því að burt séð frá því að hér geti verið góð samstaða um mikilvægi þess að auðlindirnar séu tryggar í eigu opinberra aðila sé bersýnilegt að við höfum mismunandi afstöðu til þess að hve miklu leyti fyrirtækin sem veita þessa þjónustu, sem vinna orkuna, dreifa henni til almennings og selja hana, að hve miklu leyti þessi þáttur eigi að vera á hendi einkaaðila eða opinberra aðila. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt ríka áherslu á það að sá þáttur væri á hendi opinberra aðila og þess vegna mótmælt þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn gerir hér hvað þetta atriði snertir og erum ósammála því.

Virðulegur forseti. Tími minn í þessari umferð er nú á enda og ég hef ekki enn þá komið inn á þau atriði sem ég ætlaði að ræða um sérstaklega og varða athugasemdir sveitarfélaganna (Forseti hringir.) við þetta frumvarp en ég sé til hvort ég kem því að í síðari ræðu. Það ræðst af því hvernig umræðunni vindur fram.