135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[22:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt lagafrumvarp. Ég hef fylgst nokkuð með umræðunni um þetta mál hér í dag og það er umhugsunarvert hve ólíkar áherslur manna eru og hve mismunandi sýn þingmenn hafa á þessa hluti. Hér kom áðan fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sagði að með frumvarpinu væri verið að tryggja og styrkja aðkomu opinberra aðila að orkugeiranum, festa hana í sessi. Síðan koma aðrir þingmenn og telja að þessu sé gagnstætt farið.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra hefði sett þetta frumvarp fram ef Samfylkingin hefði verið í samstarfi við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég held ekki. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra hefði verið mjög sáttur við að setja fram allt annars konar frumvarp. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra sé að heyja varnarbaráttu gagnvart einkavæðingarsinnum, hugsanlega einhverjum í eigin flokki en náttúrlega fyrst og fremst í Sjálfstæðisflokknum.

Í upphafi þings í haust beindi ég spurningu til hæstv. forsætisráðherra um orkugeirann, hvort til stæði að markaðsvæða hann, einkavæða hann. Hæstv. forsætisráðherra svaraði — ég man að mér misheyrðist svarið — að orkugeirinn væri ekki endilega andlag einkavæðingar, í þýðingu yfir á mælt mál: Það stæði ekki endilega til. Hvað gerir þá hæstv. iðnaðarráðherra? Hann býst til varnar því að þótt ekki standi endilega til að einkavæða orkugeirann gæti það hugsast, og það er byrjað að reisa varnarmúra á grundvelli þess sem er og þar hefur mikið þokast til á undanförnum árum.

Gagnstætt því sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði hér áðan, að verið væri að styrkja í sessi aðkomu opinberra aðila að orkugeiranum, hefur einkafjármagnið verið að þrengja sér leið inn í þennan geira. Hann var allur á vegum hins opinbera, allar orkuveiturnar í landinu voru það, það er núna sem einkageirinn hefur verið að ryðjast inn á þennan vettvang. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur horft til þess sem hefur gerst þegar landamærin hafa verið flutt til, t.d. varðandi eignarhald á vatnsveitum. Þar var háð mikil orrusta hér í þingsal fyrir fáeinum árum þegar kveðið var á um það í lögum að eignarhald á vatnsveitum skyldi vera að 2/3 í opinberri eigu. Þarna ætlaði hæstv. iðnaðarráðherra líka að draga varnarlínuna.

Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn? Hann krefst þess að varnarmúrarnir séu lækkaðir, farið verði úr 2/3 eignarhalds niður í 51%, er ekki svo? Var það ekki krafa frá Sjálfstæðisflokknum? Eða man ég það ekki rétt að Viðskiptaráð sé andvígt frumvarpinu á grundvelli þess að það takmarki um of aðkomu viðskiptaaðila að þessum geira? Ég held það, vildi fara enn neðar. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að skilja frumvarpið í ljósi átaka á milli afla sem eru á ólíkri skoðun og vilja ekki fara sömu leið.

Það er alrangt að ímynda sér að með frumvarpinu sé verið að stíga einhver skref til að slá varðborg um orkugeirann á Íslandi, það er verið að opna hér allar gáttir og það er margt sem fær mig til að staldra við.

Í 1. gr. frumvarpsins segir, og þar er fyrsta stóra varnarlínan, að óheimilt sé að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt á vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 7 MW, óheimilt er að framselja eignarrétt á slíku vatni. En hvað með vatn sem er ekki alfarið í almannaeign eða er undir þessum stærðarmörkum, hvað má gera við það? Það er hægt að gagnálykta og ætla að hægt sé að framselja slíkan eignarrétt.

Hvað vorum við annars að deila um þegar vatnafrumvarpið var hér uppi? Var það ekki einmitt þetta, eignarréttur á vatni? Og var það ekki skírskotun í vatnalögin frá 1923 þar sem vísað er til afnotaréttar á vatni sem var okkar helsta haldreipi sem gagnrýndum vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar? Hverjir voru það? Jú, það voru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn Samfylkingarinnar með hæstv. núverandi iðnaðarráðherra í fararbroddi. Þetta er það fyrsta sem ég staldra við í frumvarpinu.

Annað verður mér umhugsunarefni og hlýtur líka að verða Samfylkingunni umhugsunarefni, að helstu ráðgjafar, samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpinu, virðast vera aðilar sem hrærast í samkeppnisumhverfinu og það er þá ekki síst Samkeppnisstofnun. Vísað er í hana nánast sem heilaga ritningu í greinargerð með frumvarpinu, að samkvæmt hennar áliti sé mikilvægt að halda inn á svið markaðarins.

Bíðum nú við, hvað skyldi þessi Samkeppnisstofnun annars vera að véla og ráðleggja þessa dagana? Hún varð fræg að endemum fyrir fáeinum vikum þegar hún braust inn í tölvur og skrifstofur — með löglegum hætti að vísu, nauðsynlegum lagaheimildum — Bændasamtakanna, heimtaði þar öll gögn og umræður af bændaþingi vegna þess að grunur lék á að Bændasamtökin ynnu í þágu íslenskra bænda. Það er náttúrlega algerlega bannað að gera það. Hún lét líka frá sér heyra þegar til stóð að Orkuveita Reykjavíkur keypti hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja. En það er allt í lagi að fjárfestarnir í Geysi Green eigi þar 32% eignarhlut, það er allt í góðu lagi. Nei, aðalvandinn virtist vera sá að Orkuveita Reykjavíkur ætti þar 16,6% hlut og vildi kaupa hlut Hafnarfjarðar sem nemur 15,4%. Samkeppnisstofnun sagði: Það á ekki að vera heimilt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur að eiga meira en 3% í þessu fyrirtæki.

Hvers vegna er ég að nefna allt þetta núna, hvert er samhengi hlutanna? Jú, það er sú ofurtrú sem þarna kemur fram á markaðslögmálum, að markaðslögmálin muni færa okkur gull og græna skóga á þessu sviði. Um það höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði miklar efasemdir, mjög miklar efasemdir. Þar horfum við einfaldlega til reynslunnar, við horfum til reynslunnar í Evrópu þar sem hver rannsóknin á fætur annarri hefur leitt í ljós að í stað þess að færa raforkuverð niður hefur markaðsvæðingin orðið til þess að verð hefur hækkað, í stað þess að auka samkeppni eða skapa samkeppni höfum við fákeppni. Fyrir þá sem lesa Financial Times var rækileg úttekt á þessu síðasta sumar og kærumálum sem ganga. Það er fákeppnin sem er einkennandi, ekki samkeppni.

Þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir þessa slæmu reynslu að utan, skal haldið inn á þennan vettvang. Nú á að taka þessar grunneiningar í samfélagi okkar, orkugeirann, heita vatnið, frárennsliskerfin, þessa grunnþjónustu, og færa hana inn á markað. Er þetta nú viturlegt? Er viturlegt að þvinga Orkuveitu Reykjavíkur með lögum — þetta er eins og í Sovétríkjunum forðum, í reglugerðarveldinu þar sem menn höfðu ofurtrú á hinni réttu reglu — að þvinga öll orkufyrirtæki í landinu til að skipuleggja sig á einhvern ákveðinn veg? Þetta er svo ævintýralega vitlaust og hættulegt og varasamt að ég held að við gerðum best með því að láta þetta mál bíða.

Þetta hefur lengi verið til umfjöllunar innan ríkisstjórnarinnar, kom seint fram, en þegar við ráðumst í grundvallarbreytingar af þessu tagi eigum við að gefa okkur góðan tíma og þetta er ekki vel grundað. Þetta er mál sem menn hafa ekki hugsað til enda, svo er ekki.

Hvers vegna segi ég að það sé hættulegt og varasamt að fara inn á þessar brautir? Jú, vegna þess að fjárfestar á markaði eru ekki áreiðanlegir eigendur. Menn geta leitað í eigendaskipti í breskum orkufyrirtækjum sem hafa verið einkavædd, hve tíð þau hafa verið — ég hef skoðað skýrslur um þetta — mjög tíð, því að fjárfestarnir fara þangað sem gróðinn er mestur hverju sinni. Grunnþjónustan þarf einmitt á því að halda að þar sé traustur bakhjarl sem hleypst ekki undan merkjum einmitt þegar á móti blæs.

Við sáum hverjir voru að reyna að brjótast inn í eignarhald Hitaveitu Suðurnesja og inn í Orkuveituna, niður í Hellisheiðina og allt með samþykki Sjálfstæðisflokksins, sem ákvað með lögum hér á Alþingi að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja skyldi boðinn út — með því fororði að aðeins einkaaðilar mættu festa kaup á hlutnum. Hverju eru menn að sækjast eftir hjá þessum brilljant fjárfestum, hjá öllum þessum FL-grúppumönnum og hvað það nú heitir? Hvað er það sem þeir hafa upp á að bjóða? (Gripið fram í.) Nei, það er Hellisheiðin sem hefur upp á verðmætin að bjóða. Það eru orkufyrirtækin sem hafa upp á verðmætin að bjóða, og það er þangað sem þeir vilja komast.

Ég man eftir viðtali í Fréttablaðinu, ég er nú ekki með það við höndina þessa stundina, þar sem þessir aðilar — og ég ætla ekki að vera að nafngreina þá sérstaklega — höfðu orð á því hve mikilvægt það væri að koma með erlenda fjárfesta og sýna þeim Hellisheiðina, koma við á Bessastöðum jafnvel, taka í höndina á einum eða tveimur ráðherrum og borgarstjórum. Þetta er umgjörðin, það er þetta sem þessir aðilar eru að ásælast. Þessir menn hafa ekki mikið vit á orkumálum eða borunum eða lagningu hitaveitu, þeir hafa lítið vit á slíkum málum.

Ég velti því fyrir mér hvað það er sem rekur Samfylkinguna til að ráðast í þessar lagabreytingar. Ég skal ekki fullyrða um það en ég held ég hafi heyrt hv. þm. Gunnar Svavarsson tjá sig um þessi mál og ofbjóða hve menn settu lýðræðinu stólinn fyrir dyrnar. (Gripið fram í.) Var það í kosningunum um álver, nei, það held ekki, ég hélt að það væri þetta.

Nú kemur hæstv. iðnaðarráðherra í salinn og ég var með þá kenningu í upphafi míns máls að hæstv. iðnaðarráðherra hefði aldrei lagt þetta frumvarp fram í samvinnu við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Hann gerir það í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn í varnarskyni. Hann er að reyna að koma í veg fyrir að samstarfsflokkurinn einkavæði orkugeirann. Ég rifjaði upp hina frægu setningu hæstv. forsætisráðherra þegar hann talaði um að orkugeirinn yrði ekki endilega andlag einkavæðingar (Gripið fram í.) og við skildum það ekki fyrst eða okkur misheyrðist fyrst.

Það sem ég vildi segja: Við eigum ekki að breyta lagaumgjörð til framtíðar vegna slíkra skammtímahagsmuna. Ég held að við eigum þá frekar, sem erum á því máli að orkugeirinn og auðlindirnar eigi að vera alfarið í almannaeign, að taka höndum saman eins og við gerðum í slagnum um vatnafrumvarpið og fleiri mál. Þetta er eitt af þessum grundvallarmálum sem við eigum að taka saman. Ég hvet til þess í fullri alvöru að þetta mál verði látið bíða, að þetta verði ekki samþykkt núna heldur verði látið bíða til haustsins og við tökum samsvarandi umræðu okkar í milli, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hugsanlega Framsókn, og sjáum hvort ekki er annars konar meiri hluti hér í þinginu en sá sem ætlar að opna fjármagninu leið inn í þennan geira. Ég er að segja þetta í mikilli alvöru, eftir því sem ég hugsa meira um frumvarpið því varasamara finnst mér það.

Hæstv. iðnaðarráðherra og félagar hans í Samfylkingunni telja sig vera að reisa varnarmúra og ég skil það vel þegar heimurinn er bara Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. En það eru til fleiri lönd. Ég spyr hvort hæstv. iðnaðarráðherra — ég er ekki endilega að krefja hann svara núna, það er ljóst að 2. umr. um málið mun ljúka nú í kvöld — væri (Gripið fram í.) reiðubúinn að láta þetta mál liggja.

Ég er að tala um þetta í mjög mikilli alvöru. Mér finnst það vera eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að varðveita almannaeign á vatni og á orkulindunum. Við sem erum félagslega sinnuð teljum þetta vera mikilvægt baráttumál og að það gæti orðið örlagaríkt að láta undan síga í því eins og ég tel að gert verði með frumvarpinu. Það er breyting til allrar framtíðar. Við deilum hér um ýmis efni sem hægt er að laga og breyta í tímans rás en það er illgerlegt í þessu efni. Þegar eignarrétturinn er færður til getur verið erfitt að fara til baka — það er líka annað sem hefur breyst í seinni tíð, einkaeignarrétturinn er orðinn mun heilagari en hann var áður. Almannahagsmunir voru miklu ríkari og hærra metnir og vegnir fyrir aðeins örfáum árum eða áratugum en nú er.

Á síðustu árum hafa menn jafnt og þétt verið að greiða götu einkaeignarréttar á landi og á auðlindum. Það er kominn tími til að snúa af þeirri braut. Ég heiti á hæstv. iðnaðarráðherra að taka höndum saman með félagslega þenkjandi fólki og stoppa þetta mál, láta það á ís og efna til umræðu með stjórnarandstöðunni. Við erum reiðubúin að setjast að slíku borði (Forseti hringir.) til að reyna að ná sátt sem ég held að við gætum auðveldlega gert.